Lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum takmarka rétt atvinnurekanda til að segja upp starfsmönnum.
Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir:
„Vinnuveitanda er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta þess bæði fyrir og eftir aðilaskiptin nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis.” Þessi regla á þó ekki við eigi aðilaskipti sér stað eftir gjaldþrot.
Þessi regla felur það í sér að aðilaskipti að fyrirtæki geta ekki ein og sér verið atvinnurekanda tilefni til að segja upp starfsmönnum, nema hann geti rökstutt þá ákvörðun með vísan til þess að efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi, sem leiði til breytinga á starfsmannahaldi fyrirtækisins.
Í lögunum eða greinargerð með þeim er það ekki skýrt nánar hvað flokkist sem efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður. Þá hafa dómstólar ekki fjallað um þetta atriði og ríkir því ákveðin óvissa um inntak þessarar undanþáguheimildar.
Með hliðsjón af tilgangi laganna og stöðu ákvæðisins sem undanþáguheimildar þá er eðlilegt að sjónarmið um þrönga lögskýringu ráði ferð við túlkun þess.