Ný tækni og nýir möguleikar til þess að eiga samskipti skapa ýmsar áskoranir í vinnurétti m.a. um réttarstöðu einstaklinga í nýjum formum „ráðningarsambanda“. Þessi þróun endurspeglast m.a. í fjarvinnu sem gerð er grein fyrir í sérstökum kafla hér að framan en einnig og ekki síður í sífellt óskýrari mörkum milli hefðbundinna ráðningarsamninga, verktöku og sjálfstæðrar atvinnustarfsemi. Það sem kallað er nýtt form vinnunnar er í sjálfu sér ekkert nýtt. Það nýja er oftar en ekki hvernig og stundum hvar vinnan er framkvæmd og það er hlutverk aðila vinnumarkaðarins, löggjafans og dómstóla að þróa túlkun og innihald nýrra hugtaka og réttarsambanda á vinnumarkaði.
Helstu tegundir og hugtök eru m.a. eftirfarandi:
Clowd work eða skýja vinna. Raunar er það ekki góð þýðing þar sem clowd er dregið af cloud (skýi) en merking þess fremur mörg ský sem hrannast saman. Þetta er vinna eða þjónusta veitt yfir internetið í gegnum rafrænt platform eða rafrænan pall. Slík vinna krefst engrar „líkamlegrar“ snertingar milli þess aðila sem pantar og þess sem innir af hendi. Í aðalatriðum er getur framkvæmdin annars vegar verið sú að pöntuð er þjónusta af tilteknum einstaklingi t.d. freelans eða sjálfstætt starfandi einstaklingi eða þjónusta er pöntuð af ótilteknum hópi slíkra. Dæmi um slíkt getur t.d. verið þýðing skjala, úrvinnsla flókinna rannsókna þar sem svör eru t.d. flokkuð á einfaldan hátt eða vara hönnuð.
Gig work krefst hins vegar tiltekinnar staðsetningar þar sem vinna er innt af hendi. Platformið eða pallurinn tengir saman viðskiptavininn og launamanninn, þar eru tímasetningar, verkstaður o.fl. ákveðið. Uppgjör fer fram i gegnum platformið en ekki er um hefðbundin regluleg laun að ræða heldur tiltekna fjárhæð fyrir hvert verk /gig).
Gott dæmi um Gig work er þróun þjónustu á sviði fólksflutninga í þéttbýli þar sem á grundvelli nýrrar tækni og tækifæra til samskipta þróast hefur ný þjónusta sjálfstæðra bifreiðastjóra á eigin bifreiðum undir tilteknum vörumerkjum eins og við á um þjónustu Uber. Þrátt fyrir viðleitni Uber, sem eiganda tiltekins tölvuforrits fyrir snjallsíma og vörumerkis, til þess að skilgreina sig ekki sem atvinnurekanda og bifreiðastjóra sem kaupa sér aðgang að forritinu og vörumerkinu sem sjálfstætt starfandi verktaka, bendir réttarþróun til þess að hefðbundinn vinnuréttur eigi ekki í erfiðleikum með að taka utan um vandamálið og greina á milli raunverulegrar sjálfstæðrar atvinnustarfsemi og launaðrar vinnu eða ráðningarsambands. Á þetta hefur ekki reynt fyrir dómstólum hér á landi þegar þetta er skrifað (8.11 2016). Í október 2016 fjallaði hins vegar breski vinnudómstóllinn um réttarstöðu bifreiðastjóra sem óku undir merkjum Uber á Bretlandi, Aslam og Farrar gegn Uber B.V. o.fl. Nálgun dómstólsins að viðfangsefninu er hefðbundin hvað það varðar að skoða þætti eins og verkstjórnar- og boðvald, raunverulegt sjálfstæði, persónubundið vinnuframlag, viðurlög vegna frammistöðu o.fl. Niðurstaða dómstólsins var að Uber sé atvinnurekandi og bifreiðastjórarnir launamenn í skilningi bresks og raunar einnig evrópsks vinnuréttar.
Hér á landi er þessi þróun skammt á veg komin (8.11 2016). Alþjóðleg verkalýðshreyfing og systursamtök á hinum Norðurlöndunum eru lengra á veg komin. UNIONEN í Svíþjóð hefur tekið saman ítarlega skýrslu (2016) um þessa þróun og birti hana fyrr á þessu ári. Jafnframt hefur SAK í Finnlandi gert rannsókn á og tekið saman yfirlit (2017) um þessi mál í finnsku og evrópsku samhengi.