VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Upplýsingar um ráðningarkjör

Tilskipun ráðsins nr. 91/533/EBE  frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi.               

Tilskipunin á ensku.

Gildandi lög. Auglýsing nr. 503/1997 frá 30. júní 1997, um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Reglur um upplýsingaskyldu atvinnurekanda, sem svara til ákvæða þessarar tilskipunar, hafa verið teknar upp í kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ.

Markmið og gildissvið. Tilskipunin mælir fyrir um að atvinnurekandi skuli skýra starfsmanni skriflega frá helstu ákvæðum ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags þeirra. Hér er átt við upplýsingar um hverjir séu aðilar ráðningarsamningsins, vinnustað, lýsingu á starfinu, upphafi ráðningarsamnings, þegar ráðningarsamband er tímabundið hve langan tíma er áætlað að það vari, laun og lengd venjulegs vinnudags eða vinnuviku. Þessar upplýsingar skal veita eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að starf hefst, með skriflegum ráðningarsamningi og/eða ráðningarbréfi.
________________________________________________________________________

EFTA-dómstóllinn

Málum er varða túlkun á tilskipun 91/533/EBE hefur enn sem komið er ekki verið vísað til EFTA-dómstólsins.


Evrópudómstóllinn

C-350/99. 8. febrúar 2001. Lange.

Í þessu máli var fjallað um túlkun á ráðningarsamningi sem starfsmaður, Lange að nafni, undirritaði er hann réð sig til starfa hjá Georg Schünemann í júní 1998. Ráðningarsamningurinn kvað á um að vikulegur vinnutími Lange væri 40 klukkustundir. Samningurinn hafði hins vegar ekki að geyma nein ákvæði um yfirvinnu. Þegar Lange neitaði að verða við beiðni atvinnurekanda síns um að vinna yfirvinnu, sem sá síðarnefndi óskaði eftir svo hægt væri að afgreiða pöntun tiltekins viðskiptavinar, var honum sagt upp. Kom uppsögnin til framkvæmda í janúar 1999.

Lange stefndi atvinnurekandanum fyrir Vinnuréttardómstól í Bremen Þýskalandi og krafðist viðurkenningar á því að uppsögnin hefði verið ólögmæt. Fyrir dómi var tekist á um það hvað þeir höfðu í raun og veru samið um, að því er varðar skyldu Lange til að vinna yfirvinnu. Georg Schünemann hélt því fram að Lange hefði fallist á að vinna yfirvinnu kæmi fram um það beiðni til að mæta skyndilegu vinnuálagi. Lange hélt því hins vegar fram að hann hefði einungis samþykkt að vinna yfirvinnu ef um neyðartilfelli væri að ræða.

Samkvæmt Vinnuréttardómstólnum snerist málið um það hvort Lange hefði vanefnt skyldur sínar samkvæmt umræddum ráðningarsamningi með því að neita að verða við beiðni atvinnurekanda um að vinna yfirvinnu. Var því nauðsynlegt að komast að niðurstöðu um hvað þeir höfðu í raun og veru samið. Til að varpa skýrara ljósi á þýðingu hins skriflega ráðningarsamnings við úrlausn málsins sendi dómstóllinn fyrirspurn til Evrópudómstólsins um túlkun tilskipunarinnar 91/533/EBE.

Í dómi Evrópudómstólsins er efni tilskipunarinnar rakið og bent á að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. hennar beri atvinnurekanda að skýra starfsmanni frá helstu ákvæðum ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags. Í stafliðum a-j 2. mgr. 2. gr. séu talin upp þau atriði sem a.m.k. eigi að upplýsa um. Samkvæmt i-lið 2. mgr. 2. gr. beri atvinnurekandi að upplýsa um lengd venjulegs vinnudags eða vinnuviku.

Dómstóllinn segir að þó að yfirvinna sé ekki nefnd í 2. mgr. 2. gr. þá megi leiða skyldu atvinnurekanda til að upplýsa starfsmann skriflega um yfirvinnuskyldu hans af 1. mgr. 2. gr. Í því ákvæði segir að atvinnurekanda beri skylda til að skýra starfsmanni frá helstu ákvæðum ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags. Að mati dómstólsins sé hér vísað til þeirra ráðningarskilyrða sem telja megi verulega mikilvæg í ráðningarsambandi aðila. Upptalningin í 2. mgr. 2. gr. takmarki ekki gildissvið þessarar almennu skyldu sem hvíli á atvinnurekanda skv. 1. mgr. Það megi m.ö.o. ekki skilja 2. mgr. 2. gr. þannig að hún hafi að geyma tæmandi upptalningu á þeim atriðum sem atvinnurekanda beri að upplýsa starfsmann sinn um. Beri atvinnurekanda því að upplýsa starfsmenn sína um þá ráðningarskilmála sem telja verður mikilvæga í ráðningarsambandi þeirra, jafnvel þó slík atriði komi ekki fram í upptalningu 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skylda starfsmanns til að vinna yfirvinnu sé að mati Evrópudómstólsins mikilvægt starfsskilyrði.

Upplýsingar um þessi atriði ber að veita samkvæmt sömu skilyrðum og gilda samkvæmt 2. mgr. 2. gr., þ.e. skriflega, en heimilt getur verið að vísa til laga, reglugerða eða kjarasamninga.

Evrópudómstóllinn bendir að lokum á að ekki megi draga þá ályktun af ákvæðum tilskipunarinnar að vanræksla atvinnurekanda á að veita upplýsingar um slík mikilvæg atriði ráðningarsambands þeirra hafi þau réttaráhrif að þau komi ekki álita við úrlausn réttarágreinings um túlkun og sönnun um efni ráðningarsamnings að landsrétti.


______________________________

Sameinuð mál C-253/96 o.fl. 4. desember 1997. Kampelmann.

Upplýsingar atvinnurekanda þar sem hann greinir starfsmanni frá helstu ákvæðum ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags, sbr. 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 91/533/EBE, skulu taldar réttar, sérstaklega að því er varðar upplýsingar um þau atriði sem nefnd eru í c-lið 2. mgr. 2. gr., í samræmi við ákvæði landsréttar um sannleiksgildi sambærilegra skjala sem atvinnurekandi semur og lætur starfsmanni í té. Atvinnurekandi skal engu að síður eiga þess kost að færa fram sönnur á hið gagnstæða, með því að sýna fram á að upplýsingar til starfsmanns hafi frá grunni verið rangar eða reynst rangar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn