Veikindaréttur barnshafandi kvenna er til staðar þann tíma sem þær eru í vinnu. Þegar fæðingarorlof hefst fellur réttur foreldra til launa í veikindum niður sem og aðrar launagreiðslur frá atvinnurekanda, nema um annað hafi verið samið.
Þegar fæðingarorlofi lýkur eiga foreldrar að hefja störf að nýju hjá atvinnurekanda. Hamli veikindi því að fólk mæti til vinnu eftir fæðingarorlof gilda almennar veikindareglur um rétt til launa. Starfsmaður verður að sjálfsögðu að sýna fram á veikindi sín með venjulegum hætti, sinna tilkynningarskyldu sinni o.fl. til þess að geta notið þessara réttinda.
Fæðingarorlof telst og ekki innan þess 12 mánaða tímabils sem greiðsluréttur í veikindum miðast almennt við. Þegar veikindaréttur starfsmanns sem snýr til baka úr fæðingarorlofi er metinn er einfaldlega litið til síðustu 12 mánaða hans í starfi og litið er framhjá fæðingarorlofstímabilinu þ.e. greiðsluréttur ávinnst ekki í fæðingarorlofi.