VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Lögbann á verkfallsvörslu

Lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. 

Í 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., er fjallað um skilyrði lögbanns og segir þar að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Einnig segir að lögbann verði ekki lagt við stjórnarathöfn þess, sem fer með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags.

Lögbann verði ennfremur ekki lagt við athöfn 1. ef talið verði að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega, 2. ef sýnt þyki að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram, og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni, sem athöfnin kunni að baka gerðarbeiðanda.

Samkvæmt þessu verður lögbanni almennt ekki beitt á verkfallsaðgerðir, enda séu þær framkvæmdar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir verkfallsbrot og í samræmi við dómaframkvæmd og þær venjur sem tíðkast hafa.  Ef hins vegar ljóst er að með verkfallsaðgerðum séu verkfallsverðir að seilast langt inn á svið löggæslu, eins og reyndin var í Hrd. 1964:596, þar sem aðgerðir beindust að aðila, sem ekki átti í kjaradeilu, þá sé mögulegt að beiðast lögbanns á slíkar gerðir.

Nokkrum sinnum hefur verið krafist lögbanns vegna verkfallsvörslu sem atvinnurekandi hefur talið ólögmæta. Í grein sinni í Úlfljóti 1978 telur Gunnar Sæmundsson að ekki sé hægt að beita lögbanni gegn aðgerðum verkfallsvarða þar sem ekki er hægt að fylgja lögbanni eftir með aðstoð lögreglu og rekur nokkra dóma því til staðfestingar. Undir þessi sjónarmið taka Arnmundur Backman og Gunnar Eydal og bæta við að verkfall án heimildar til verkfallsvörslu sé markleysa. Lögleg verkfallsvarsla verði því ekki stöðvuð með fógetavaldi.

Verkfall BSRB 1977

Í októbermánuði 1977 stóð yfir verkfall BSRB og stöðvuðu verkfallsverðir þá brottför rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Varð ágreiningur um réttmæti verkfallsvörslunnar og taldi Hafrannsóknarstofnun að verkfallsverðir gætu ekki stöðvað frjálsa umferð þannig að opinberir embættismenn eða aðrir gætu ekki gegnt skyldustörfum sínum. BSRB benti á að rannsóknarmenn á rannsóknarskipunum  væru í verkfalli en þeir væru aðstoðarmenn sérfræðinga þeirra sem störfuðu á skipunum. Einnig var bent á að í verkföllum væri litið svo á og vísað í vinnurétt og langa venju, að stéttarfélögin, sem að verkfalli standa hafi á hendi framkvæmd verkfalls. Þetta þýði meðal annars að stéttarfélag í verkfalli verði sjálft að gæta þess að verkfallsbrot séu ekki framin og hindra það með öllum tiltækum leiðum, þar með beitingu valds, ef ekki annað dugi. Til þess að ná þessu markmiði séu í verkföllum stofnaðar sérstakar sveitir verkfallsvarða. Vegna ákvæða 10. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn geti stéttarfélag í verkfalli ekki vænst stuðnings frá lögreglunni í þeim tilfellum þar sem stéttarfélagið telji að fremja eigi verkfallsbrot. Þannig helgist verkfallsvarsla stéttarfélagsins einnig af þessum fyrirmælum löggjafans um afskiptaleysi lögreglunnar í verkföllum. Fógeti synjaði um lögbannið með úrskurði uppkveðnum 20. október 1977 meðal annars með þeim rökum að með lögum nr. 56/1972 séu mjög takmörkuð þau afskipti sem lögreglumenn megi hafa af vinnudeilum. Lögin hljóti óhjákvæmilega að hafa mjög þrengjandi áhrif á ákvæði 30. gr. laga nr. 18/1949, þar sem lögreglumönnum er sagt skylt að veita aðstoð sína til að halda uppi lögbanni, en tilgangur þess er einmitt sá að fá ólögmætar athafnir hindraðar. Nú verði að telja að þar sem lög bjóði lögreglumönnum ákveðið athafnaleysi, þá bresti fógeta vald til að leggja fyrir lögreglumenn athafnir. Lögbanni, sem sett yrði slík skilyrði yrði ekki hægt að halda uppi og því gagnslaust. Það sé ekki einungis hægt að byggja lögbann á afleiðingum við broti á því, það verði að vera tryggt, að það verði ekki brotið. Þannig verði að skilja lögbannslögin, og sé því ekki hægt að taka kröfu gerðarbeiðanda til greina.

Kassagerð Reykjavíkur

Í Hrd. 1964:596 var fjallað um mörk verkfallsvörslu. Hafði Kassagerð Reykjavíkur fengið lögbann lagt við því að Dagsbrún hindraði móttöku og flutninga á vörum að og frá verksmiðjuhúsum, sem starfsmenn Kassagerðarinnar, sem ekki voru félagsbundnir í félögum sem áttu í verkfalli önnuðust. Höfðu Dagsbrúnarmenn þráfaldlega hindrað starfsmenn fyrirtækisins, sem voru félagsmenn í Iðju, í störfum sínum við fermingu, akstur og affermingu flutningabifreiða. Enginn Dagsbrúnarmaður hafði verið í starfi hjá Kassagerðinni. Lögbannið var staðfest í undirrétti og sagði þar meðal annars að í málinu sé það atriði eigi til úrlausnar, hvort Dagsbrún hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur það hvort verkfallsverðirnir hafi haft lagaheimild til þess að hafa réttarvörslu í því efni. Eigi verði séð að 18. gr. laga nr. 80/1938 né heldur 4. gr. laga nr. 50/1940 um lögreglumenn veiti aðilum að vinnustöðvun rétt til þess að taka í sínar eigin hendur réttarvörslu. Aðgerðir verkfallsvarðanna voru því dæmdar ólögmæt réttarvarsla af þeirra hálfu. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu með þeim rökum að hvorki lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 né önnur réttarákvæði hafi veitt Dagsbrún heimild til þeirrar valdbeitingar gegn Kassagerðinni sem sönnuð var í málinu. Niðurstaða málsins var því sú að réttarvarslan sjálf var dæmd ólögmæt, en ekki lagt mat á það hvort um brot á II. kafla laganna um stéttarfélög og vinnudeilur hafi verið að ræða.

Frami 1964

Krafist var lögbanns við verkfallsvörslu félagsmanna Frama, sem voru í verkfalli gegn Landleiðum hf. í janúar 1964. Verkfallsverðir félagsins hindruðu akstur skrifstofustjóra og fulltrúa fyrirtækisins, en akstur framkvæmdastjórans var látinn afskiptalaus. Synjað var um lögbann með þeim rökum að viðkomandi ökumenn væru að vísu starfsmenn Landleiða, en þeirra starfi hjá félaginu hefði ekki verið sá að aka bifreiðum þess, heldur vinna skrifstofustörf. Yrði því ekki talið samkvæmt tilgangi og anda laga um stéttarfélög og vinnudeilur að Landleiðum hafi verið rétt að grípa til þessara manna til þess að vinna störf þeirra sem ættu í verkfalli við félagið. Þannig yrði ekki talið að Frami hafi gerst brotlegur um ólögmætar aðgerðir gagnvart Landleiðum með því að hindra akstur þessara manna á áætlunarbifreiðum félagsins.

Óðal 1973

Í nóvember 1973 kröfðust eigendur Óðals lögbanns á verkfallsvörslu Félags framreiðslumanna, en þeir reyndu að hafa opið fyrir gesti og önnuðust sjálfir framreiðslu og höfðu eiginkonur sínar sér til aðstoðar. Félagsmenn Félags framreiðslumanna fjölmenntu á staðinn og hindruðu gesti í að komast inn. Fógetaréttur synjaði um lögbannið með þeim rökum að lög nr. 80/1938 kvæðu ekki á um nein úrræði til þess að löglegu verkfalli yrði haldið uppi. Hefði jafnan tíðkast að samtök þau sem væru í verkfalli hefðu sjálf séð um að halda uppi þeirri vörslu sem þau teldu nauðsynlega til þess að verkfall mætti verða virkt. Hefðu þessar aðgerðir verið ýmiskonar, þar á meðal að meina öðrum störf þau er stéttarfélagið annaðist og eftir atvikum að koma í veg fyrir aðgang að þeim stað, þar sem verkfall væri. Lögreglumönnum væri í lögum fyrirmunuð önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar eins og annars staðar uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum. Þetta þýddi að lögreglumenn yrðu ekki kvaddir til að hlutast til um tíðkanlegar verkfallsaðgerðir. Yrði að telja að lögbanni yrði ekki beitt gegn slíkum tíðkanlegum aðgerðum aðila að vinnudeilu og breytti þar engu þótt hinn aðilinn teldi þessar aðgerðir ólögmætar gagnvart sér eða valda tjóni.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn