Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna.
Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu.
Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
Í Hrd. nr. 134/1996 var deilt um hvort við uppsögn vegna skipulagsbreytinga á konu úr starfi innkaupamanns sérvöru hafi verið mismunað eftir kynferði. Valið stóð á milli konu og karlmanns með sambærilega menntun en skemmri starfsaldur. Hæstaréttur taldi að það væri atvinnurekandans, að sýna fram á að uppsögnin hafi ekki falið í sér kynjamismunun í skilningi þágildandi jafnréttislaga.
Sjá einnig: Hrd. nr. 25/2009, Hrd. nr. 195/2006, Hrd. nr. 39/2004 , Hrd. nr. 330/2003 , Hrd. 121/2002.