Trúnaðarmenn njóta samkvæmt lögum verndar í starfi. Í 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig.
Þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Með hugtakinu „verkamönnum“ er ekki átt við verkamenn í þrengri merkingu, heldur starfsmenn almennt sbr. Félagsdóm 6/2011 (bls.12). Í reglum um opinbera starfsmenn gildir auk þess sú regla að óheimilt er að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk, meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.
Vernd trúnaðarmanna skv. 11. gr. laga nr. 80/1938 gagnvart uppsögn er hornsteinn þeirra reglna sem gilda um trúnaðarmenn. Hún er sett til að tryggja það að trúnaðarmaður geti sinnt trúnaðarmannsskyldum sínum án þess að eiga það á hættu að verða sagt upp eða vera rekinn þeirra vegna. Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa, sem tengjast trúnaðarmannsstarfinu.
Brjóti trúnaðarmaður alvarlega af sér í starfi má væntanlega víkja honum úr starfi, og það er ekki tilgangur laganna um stéttarfélög og vinnudeilur að halda hlífiskyldi yfir starfsmönnum vegna alvarlegra brota í starfi.
Það er ljóst samkvæmt þessu að vernd trúnaðarmanns í starfi er ekki alger. Félagsdómur hefur fjallað um þessa vernd trúnaðarmanns í starfi í dómum sínum og þannig hafa mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn. Uppsagnarfrestur trúnaðarmanna er sá sami og annarra.