Ekki er að finna skilgreiningu á því hvað átt sé við með hugtakinu atvinnusjúkdómur í lögum um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979 né sjómannalögum nr. 35/1985. Með hugtakinu atvinnusjúkdómur er þó almennt átt við sjúkdóm sem á rætur að rekja til starfs viðkomandi.
Atvinnusjúkdómar eru þá sjúkdómar, sem eiga beint eða óbeint rætur að rekja til óhollustu í sambandi við atvinnu manna, hvort heldur er vegna eðlis atvinnunnar, tilhögunar vinnu eða aðbúnaðar á vinnustað. Hér undir getur til dæmis fallið ofnæmi fyrir tilteknum efnum á vinnustað og sjúkdómar í stoðkerfi, svo sem brjósklos. Einnig er heyrnardeyfa algeng meðal fólks sem starfar í miklum hávaða. Ekki reynir oft á ákvæðið um atvinnusjúkdóma. Ástæður þess eru m.a. þær að erfitt getur verið að sanna orsakasamhengið milli atvinnu og sjúkdóms. Einnig getur verið að veikindi séu innan tímamarka þess veikindaréttar sem fólk hefur áunnið sér og því ekki sérstök þörf á að sýna fram á atvinnusjúkdóm. Fjölmargar reglur, lög og reglugerðir, gilda hér á landi um atvinnusjúkdóma og varnir gegn þeim. Fyrst og fremst eru það lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerðir og reglur settar á grundvelli þeirra. Á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) hafa einnig verið samþykktar fjölmargar samþykktir er lúta að atvinnusjúkdómum m.a. S-139/1974 um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini sem Ísland hefur staðfest af sinni hálfu.