Réttur launafólks til greiðslu launa í forföllum vegna sjúkdóma og slysa sem atvinnurekandi ber ekki ábyrgð á, er eitt það mikilvægasta sem áunnist hefur í kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar. Tryggingin sem í því felst að njóta launagreiðslna í slíkum tilvikum hefur meðal annars verið keypt því verði að umsamdar launahækkanir hafa verið gefnar eftir. Því má segja að launafólk greiði þessa tryggingu sjálft. Þetta gerðist m.a. á árinu 1978, þegar lög voru sett á gildandi kjarasamninga, en stjórnvöld hétu launafólki í staðinn félagslegum umbótum. Lágmarksréttindi hér að lútandi er nú að finna í lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla nr. 19/1979. Þessi réttindi eru óaðskiljanlegur hluti af launakjörum hvers og eins og ekki er hægt í ráðningarsamningi að semja sig frá reglum um þau eða afsala sér þeim.
Mikilvægt er að það launafólk sem lendir í slysum við störf sín eða á leið til eða frá vinnu kanni mjög vel rétt sinn vegna þeirra. Annars vegar vegna þess að afleiðingar slysa koma oft á tíðum fram á löngum tíma. Þannig getur skaði sem í upphafi virðist lítill leitt til verulega skerts aflahæfis síðar á ævinni. Hins vegar vegna þess að ef orsakir slyss er að rekja til sakar atvinnurekanda eða aðila sem hann ber ábyrgð á getur launafólk átt rétt til skaðabóta sem ákvarðaðar eru skv. skaðabótalögum nr. 50/1993 og geta numið verulegum fjárhæðum. Launafólki sem lendir i slysum er því ætíð bent á að leita til stéttarfélags síns til þess að fá rétt sinn kannaðan og eftir atvikum til þess að njóta aðstoðar frá lögfræðingum sem starfa á vegum félaganna.
Jafnframt ber að hafa í huga, að á almennum vinnumarkaði hefur ekki verið samið um það sem kallað er hlutaveikindi. Þau hafa verið skilgreind þannig að launamaður geti verið óvinnufær að hluta og vinnufær að hluta. Lögð hefur verið meiri áhersla á snemmbær inngrip hafi veikindi staðið um nokkurn tíma og þannig leitast við að launafólk í veikindum komi fyrr til starfa, koma í veg fyrir varanlegt brotthvarf af vinnumarkaði og minnka örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Í samningum aðildarsamtaka ASÍ við ríki og sveitarfélög er hins vegar að finna eftirfarandi ákvæði (02.2015): „Ef starfsmaður að læknisráði og með leyfi forstöðumanns vinnur skert starf vegna slyss eða veikinda, skal miða greiðslu veikindalauna fyrir dagvinnu við það starfshlutfall sem vantar á að hann sinni fullu starfi.“ Þetta ákvæði hefur verið túlkað þannig að hver vinnudagur í skertu starfi af þessum orsökum teljist sem veikindadagur skertur í sama hlutfalli. Ef launamaður sem á 10 daga veikindarétt vinnur 50% starf í hlutaveikindum sínum, þá eru veikindadagar hans 20 hálfir dagar.