VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Fylling

Fylling hefur verið nefnd sú túlkunarstarfsemi sem gengur framar skýringu varðandi það að marka réttaráhrifin á grundvelli réttarreglna eða réttarheimilda. Hún byggist til mikilla muna á lögfræðilegum aðferðum og beitingu eiginlegra réttarheimilda. Við samningsgerð sjá menn ekki fyrir öll þau atriði, sem upp kunna að koma og sem ágreiningi geta valdið síðar. Sérstaklega á þetta við um kjarasamninga, þar sem samningsaðilar eru að semja reglur sem snerta ótiltekinn fjölda fólks um lengri tíma.

Þegar skýringarreglum sleppir er stuðst við fyllingarreglu. Kemur þar einkum til auk lagaákvæða venja, en jafnframt getur, eftir atvikum, reynt á fordæmi, lögjöfnun og eðli máls eða meginreglur laga.

Það sem ekki er um samið verður að fylla með hagsmuni aðila í huga. Við túlkun á þeim atriðum í kjarasamningi sem ekki er beinlínis fjallað um verður að líta til hagsmuna aðila.

Gildi framkvæmdar og venju

Venjur hafa mikla þýðingu við túlkun kjarasamninga og framkvæmd á kjarasamningi er fljót að festast og verða að venju. Þegar venja hefur myndast um framkvæmd og túlkun kjarasamninga hefur hún svipað gildi og kjarasamningur og verður ekki breytt einhliða af oðrum samningsaðila. Slíkri venjubundinni framkvæmd verður almennt ekki breytt nema með nýjum kjarasamningi milli aðila. Sjá um þetta efni t.d. Félagsdómi: 9/2012. Telji aðili framkvæmd á kjarasamningi ekki standast verður hann því að bregðast fljótt við.

a. Venjur

Hafi menn fylgt tiltekinni framkvæmd lengi í þeirri trú að þeim sé það skylt og hún orðin föst í sessi er sagt að réttarvenja eða venja hafi myndast. Dómstólar myndu þannig líta til þess hversu rótgróin eða almenn venjan er og hins vegar hvort hún samræmist nægilega almennum réttlætis- og réttarhugmyndum eða grundvallarreglum laga. Venju gætti mjög við slit vinnusamninga og réðust hjúaskildagar um langan aldur af venju. Þeir voru síðar lögfestir með svonefndum Bessastaðapóstum 1685 og síðar hjúatilskipuninni 1866. Sjá nú hjúalög nr. 22/1928. Sjá hér Hrd 1932:573Hrd. 1937:511og Hrd. 1938:169.

Engin algild regla er til um það hversu löng eða rík venja þurfi að vera til að líta megi á hana sem réttarvenju. Þegar skera á úr um það hvort venja hafi skapast koma ýmis atriði til athugunar, svo sem aldur venjunnar, afstaða almennings til hennar, efni hennar, hversu skýr hún er, víðtæk og útbreidd.

Til viðbótar kjarasamningi

Haldi menn fram venju til skýringar eða fyllingar kjarasamningi um atriði sem ekki eru kjarasamningsbundin eða atriði sem ekki er tekið á í ráðningarsamningi, en hafa verið framkvæmd með tilteknum hætti, þarf ekki ströng skilyrði til að venjan verði bindandi. Venjan verður þó að hafa verið til staðar og annarri framkvæmd ekki fylgt, hún verður að hafa verið við lýði um einhvern tiltekinn tíma og venjan verður að vera skýr. Venjunni verður einnig að hafa verið fylgt þar sem aðilar hafa talið sér það skylt. Vafasamt er að hægt sé að bera fyrir sig venju um eitthvert tiltekið efni kjarasamnings sem er óljóst og framkvæmd verið á reiki um.

Þvert á kjarasamning

Venjur geta einnig gengið þvert gegn ákvæðum kjarasamninga. Strangari kröfur eru gerðar til að slík venja sé talin hafa komist á. Almennt er talið að til að venja hafi skapast um atriði þvert gegn ákvæðum kjarasamnings þurfi aðilar sjálfir að hafa forræði á því atriði sem venjan á að hafa skapast um og hafa talið sér skylt að fylgja venjunni eftir. Einnig skiptir máli hvort atvinnurekandi hefur gefið stéttarfélaginu í skyn að venja um þetta atriði hafi skapast og hann telji sér skylt að fara eftir henni.

Sá sem heldur fram venju hefur sönnunarbyrði fyrir því

Réttarvenjur á ekki að þurfa að sanna í dómsmáli fremur en aðrar almennar lagareglur, en ef brigður eru á það bornar að venja hafi skapast um tiltekna framkvæmd, eins og gjarnan vill verða um venjur tengdar kjarasamningum, verður sá sem ber fyrir sig venju að sanna að venja hafi myndast. Sjá hér Félagsdóma 5/1953 (IV:41), 6/1959 (IV:203) og 2/1959 (IV:207).

b. Forsendur kjarasamnings

Kjarasamningar sem og aðrir samningar ganga út frá ákveðnum forsendum. Þeirra er almennt ekki getið við samningsgerðina, en verða að teljast hluti samningsins. Þó hefur það tíðkast í nokkrum mæli í seinni tíð að sérstaklega er tekið fram hverjar forsendur samningsins eru. Slík ákvæði geta þó ekki verið tæmandi. Sumar þessara forsendna vega ekki þungt, en aðrar kunna að hafa afgerandi áhrif á það hvort samningur almennt næst. Þegar þær brestur, kann það að valda því að samningurinn er ekki lengur bindandi fyrir aðila. Að sjálfsögðu fer það eftir efni forsendnanna hverjar afleiðingar það hefur að þær brestur. Sé gerður samningur um síldarsöltun og síðan veiðist engin síld veldur það í sjálfu sér ekki ógildi samningsins. Þá reynir einfaldlega ekki á samninginn.

Óskráðar forsendur, hluti af kjarasamningi

Við túlkun á kjarasamningi getur verið nauðsynlegt að líta til þeirra forsendna sem lágu að baki kjarasamningsgerðinni. Sem dæmi má nefna að friðarskyldan er oft ekki orðuð í kjarasamningi eða réttur atvinnurekanda til að stjórna vinnunni.

Skráðar forsendur

Svo sem að framan er greint hafa samningsaðilar tekið fram í kjarasamningum á hvaða forsendum samningurinn byggir. Í heildarkjarasamningi aðila vinnumarkaðarins 1993 segir þannig í 6. gr. að samningurinn byggi meðal annars á yfirlýsingu ríkisstjórnar um vaxtamál, aðgerðum og stefnumörkun á sviði atvinnumála, niðurgreiðslum tiltekinna kjöt- og mjólkurafurða, lækkun virðisaukaskatts á matvælum, tímabundinni lækkun tryggingargjalds af útflutningsstarfsemi og fleiri atriðum sem tiltekin eru. Ennfremur á stöðugu gengi krónunnar, tiltekinni áætlun um verðlag sjávarafurða og aflakvóta.

Við túlkun á samningnum verður því að taka tillit til þessara forsendna, en þær eru fyrst og fremst tilgreindar svo stjórnvöld haldi sig innan þessara marka og svigrúm opnist ekki til að rifta samningnum bresti forsendurnar.

Þótt tilteknar forsendur séu sérstaklega tilgreindar í samningnum byggir hann einnig á öðrum forsendum, sem ekki eru tilgreindar, en sem skoða verður sem hluta hans.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn