Starfsmaður í góðri trú
Það sjónarmið er almennt viðurkennt að endurheimta atvinnurekanda á ofgreiddum launum sé nánast útilokuð sé viðtakandi greiðslunnar í góðri trú um að hún sé rétt. Rök mæli gegn því að endurheimta verði viðurkennd vegna tillitsins til hagsmuna þeirra viðtakenda sem í grandleysi hafa veitt viðtöku og nota greiðslurnar sem framfærslueyri. Einnig séu þessar greiðslur öðrum fremur til þess fallnar að vekja viðtakanda það traust að honum beri þær með réttu. Sjá t.d. Hrd 32/2007. Hann treystir því að um endanlegt uppgjör hafi verið að ræða sem hann þurfi ekki að eiga á hættu að hróflað verði við síðar. Greiðandi hafi oft yfirburðaaðstöðu til að meta hvað sé rétt greiðsla, hann annist almennt útreikninga sem geta verið mjög flóknir eða byggst á viðamiklum og flóknum reglum.
Þegar vafi hefur leikið á um túlkun laga- eða samningsákvæðis en launagreiðslur þó inntar af hendi fyrirvaralaust, óháð hinni óljósu réttarstöðu, verða þær greiðslur ekki endurheimtar. Jafnframt er endurheimta yfirleitt útilokuð þó að ofgreiðslan stafi af augljóslega röngum skilningi á skýlausu ákvæði. Um þetta kann þó að vera vafi. Ofgreiðslur launa sem stafa af misskilningi um staðreyndir verða almennt ekki endurheimtar úr hendi grandlausra viðtakenda, samanber Hrd. 1969:721.
Byggt á röngum upplýsingum starfsmanns
Hafi atvinnurekandi hins vegar greitt hærra en honum bar vegna þess að hann hefur treyst upplýsingum starfsmanns sem reynast rangar getur starfsmaðurinn ekki haldið slíkri greiðslu og ber að endurgreiða.
Starfsmaður ekki í góðri trú
Aðstæður geta einnig verið þannig að starfsmanni hafi mátt vera ljóst að ofgreitt hafi verið og getur greiðandi þá leiðrétt uppgjör sitt og fengið endurgreitt. Sjá t.d. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-4351/2006. Almennt er ekki að finna lagaákvæði um þetta ef frá er talin 32. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Þar segir að útgerðarmaður geti ekki krafist endurgreiðslu ef skipverja hefur verið greitt meira en honum bar, ef um er að ræða ráðningarslit og ef þau eiga rætur sínar að rekja til dauða skipverja, langvarandi veikinda hans, ólögmætrar uppsagnar úr skipsrúmi eða ef hann missir starf sitt vegna þess að skip er óhaffært og fleiri þátta sem skipverji ber enga ábyrgð á og verður ekki sakaður um.
Fyrirframgreidd laun
Fyrirframgreiðslur launa eru einungis bráðabirgðagreiðslur þannig að til endurheimtu getur komið ef ofgreitt hefur verið. Launagreiðandi getur þó glatað rétti sínum til endurheimtu ef hann dregur fram úr hófi að draga fyrirframgreiðsluna frá launum starfsmanns. Um þetta vísast til almennra tómlætissjónarmiða og reglna um fyrningu. Sjá Hrd. 1994:2391.