Skyldubundin framlög til lífeyrissparnaðar
Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Skylduaðild launafólks að lífeyrissjóðum byggir á samkomulags aðila vinnumarkaðarins frá árinu 1969, en þar sömdu aðilar um að lífeyrissjóðir skyldu settir á stofn fyrir viðkomandi starfsgrein og eftir ákveðinn árafjölda skyldi launamaður greiða 4% af launum sínum til lífeyrissjóðs en mótframlag atvinnurekanda vera 6%. Þetta samkomulag var endurnýjað í desember 1995. Samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ ber atvinnurekendum að halda eftir af launum starfsfólks síns iðgjaldshluta þess (4%) og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt mótframlagi sínu (8%). Greiðsla til lífeyrissjóðs skal því að minnsta kosti vera 12% af viðurkenndum stofni iðgjalda. Sjá nánar „Lífeyrismál„.
Í Hrd. nr. 359/2008 krafðist lífeyrissjóðurinn G greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda vegna sjö skipverja sem voru lögskráðir á fiskiskipið K frá júlí og fram í desember 2006. H hafði tekið að sér útgerð skipsins með samningi við E, eiganda þess, 11. júlí 2006 og skuldbundið sig samkvæmt samningnum til að greiða þann launakostnað sem fylgdi útgerð skipsins. H hafði skilað til G skilagreinum vegna sumra skipverja fyrir júlí til og með október 2006, en ekki vegna nóvember og desember. G kvað skilagreinar H ekki gefa rétta mynd af fjárhæð iðgjalda sem honum hefði borið að standa skil á. Iðgjaldagreiðslur hefðu hvorki miðast við laun sem borið hefði að greiða samkvæmt kjarasamningum né hefði verið greitt fyrir allan þann tíma sem átt hefði að greiða fyrir. Með orðunum heildarfjárhæð greiddra launa í 3. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé átt við að stofn til útreiknings lífeyrisiðgjalda sé að minnsta kosti sú heildarfjárhæð launa er samið sé um að greiða skuli samkvæmt kjarasamningum þeim er gilda um starfskjör viðkomandi manna. H hefði aðeins að litlu leyti staðið skil á greiðslum iðgjalda og væri mismunurinn höfuðstóll stefnufjárhæðar. Grundvallaðist áætlun G á útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs um hvað skipverjar hefðu átt að fá greitt í laun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um lágmarkskjör. Hæstiréttur taldi að skilagreinar H hefðu verið markleysa þar sem þær hefðu ekki miðast við lögbundin lágmarkslaun. Þegar af þeirri ástæðu hefði G borið að áætla iðgjöld H og innheimta þau í samræmi við samþykktir sínar. Var H dæmdur til að greiða G höfuðstól dómkröfu hans.
Til hvaða lífeyrissjóðs á að greiða iðgjöld?
Aðild launamanna að lífeyrissjóði ræðst af því að þeir byggi ráðningarbundin starfskjör á kjarasamningum þeirra stéttarfélaga og sambanda sem eiga aðild að viðkomandi lífeyrissjóð eða starfa í starfsgreinum þar sem kjarasamningar aðildarfélaganna eru ákvarðandi um lágmarkskjör. Í samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs eru talin upp aðildarsamtök sjóðsins af hálfu launamanna og atvinnurekanda.
Taki starfsmaður svo dæmi sé tekið laun samkvæmt kjarasamningi VR og SA þá ber atvinnurekanda að skila iðgjöldum vegna hans til Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Taki starfsmaður laun samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags þá er iðgjöldum hins vegar skilað til Gildi-lífeyrissjóðs. Launamenn geta m.ö.o. ekki ákveðið einhliða eða samið um það við sinn atvinnurekanda að iðgjöldum þeirra skuli skilað í annan lífeyrissjóð en framangreint fyrirkomulag gerir ráð fyrir.
Nánari upplýsingar á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.
Viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar
Í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ er kveðið á um þá reglu, að leggi starfsmaður a.m.k. 2% viðbótarframlag í lífeyrissjóð (sameignar- eða séreignarsjóð) skuli mótframlag atvinnurekanda vera 2%. Hér er um frjálsan viðbótarlífeyrissparnað að ræða sem launamaður verður að eiga frumkvæði að. Fyrirkomulagið er í stuttu máli á þann veg að hann gerir samning við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar þar sem m.a. kemur fram hvert mánaðarlegt innlegg til öflunar lífeyrisréttinda skuli vera. Hann afhendir síðan atvinnurekanda sínum afrit af þeim samningi sem ber síðan að draga framlagið af launum starfsmannsins og skila jafnframt eigin framlagi samkvæmt framansögðu. Vörsluaðilar viðbótarlífeyrissparnaðar eru þeir sem hafa heimild skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 til að stunda starfsemi skv. II. kafla þeirra laga og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingarvernd, þ.e. lífeyrissjóðir, bankar, sparisjóðir, líftryggingafélög og verðbréfafyrirtæki. Vörsluaðili viðbótarlífeyrissparnaðar getur eftir atvikum verið sami aðili og tekur við skyldubundnum framlögum til lífeyrissparnaðar.
Sjá nánar reglugerð nr. 698/1998 um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarvernd, sbr. reglugerð nr. 9/1999 um breytingu á henni.