VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Menntun trúnaðarmanna

Í núgildandi kjarasamningum (2018) er kveðið á um að trúnaðarmönnum skuli gefinn kostur á að sækja námskeið sem miða að því að gera þá hæfari í starfi. Félagsmálaskóli Alþýðu stendur fyrir umfangsmikilli fræðslustarfsemi fyrir trúnaðarmenn.

Hver trúnaðarmaður hefur rétt á að sækja eitt eða fleiri námskeið sem skipulögð eru af stéttarfélögunum og sem ætlað er að gera trúnaðarmönnum betur kleift að takast á við starf sitt, samtals í eina viku á ári og halda á þeim tíma dagvinnutekjum. Í fyrirtækjum þar sem starfa fleiri en 15 starfsmenn skulu trúnaðarmenn halda dagvinnutekjum í allt að tvær vikur á fyrsta ári. Þetta gildir um einn trúnaðarmann á ári í hverju fyrirtæki séu starfsmenn 5-50 en tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50.

Í þessu felst að starfsmanni skal veitt leyfi á launum frá sínum venjulegu störfum þá daga sem námskeið er sótt. Í því efni skiptir ekki máli þó námskeiðið sé ekki haldið nákvæmlega á vinnutíma hans þá daga. Tekist var á um þetta efni í fyrir Félagsdómi í málinu nr. 3/2018. Atvik málsins voru þau að einstaklingur í vaktavinnu taldi sig ekki eiga að tapa launum þó hún mætti ekki á kvöldvaktir í vinnu sinni í beinu framhaldi af trúnaðarmannanámskeiði síns stéttarfélags. Umrædd námskeið stóðu yfir í þrjá daga frá kl. 9:00 – 16:00 og á tveimur af þessum dögum átti hún að sinna vaktavinnu frá kl. 16:00 til 23:00. Atvinnurekandinn í málinu hafnaði kröfunni þar sem ekki hafi verið eiginleg skörun vinnutímans við tímasetningu námskeiðsins og því hefði hún átt að mæta á vaktina í framhaldi námskeiðsins. Niðurstaða Félagsdóms í málinu er skýr og ótvíræð um það að krafa um trúnaðarmaður vinni kvöldvaktir strax í kjölfar námskeiðs á dagvinnutíma en sæta ella launaskerðingu var hafnað. Önnur túlkun myndi hamla rétti hennar til að sækja trúnaðarmannanámskeið. Hafa ber í huga að þessi dómur varðar kjarasamning SGS við sveitarfélögin. Í þeim samningi er kveðið á um að trúnaðarmenn skuli halda „reglubundnum launum“ (laun og föst álög) ef þeir sækja námskeið meðan í samningum á SGS á almennum vinnumarkaði er kveðið á um að þeir haldi „dagvinnutekjum“ (laun án fastra álaga). Það breytir ekki því að atvinnurekandi getur ekki krafist þess að trúnaðarmaður mæti á vakt strax eftir námskeið en þýðir að hann kann að tapa álagshlutanum af launum sínum vegna þeirrar vaktar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn