Tilskipun ráðsins nr. 98/59/EB frá 20. júlí 1998 um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir.
Gildandi lög. Lög nr. 63/2000, um hópuppsagnir.
Ferill. Upphafleg tilskipun nr. 75/129/EBE frá 17. febrúar 1975 um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir. Breytt með tilskipun nr. 92/56/EBE frá 24. júní 1992. Innleidd hér með lögum nr. 95/1992 um hópuppsagnir. Breytt með lögum nr. 135/1994. Tilskipun um hópuppsagnir samræmist því markmiði sem fram kemur í 117. gr. Rs., að stuðla að bættum starfs- og lífskjörum launafólks. Tilskipunin leggur grunninn að því að samræma reglur á þessu sviði í aðildarríkjum sambandsins, en hverju aðildarríki er þó frjálst að mæla fyrir um reglur sem séu hagstæðari launafólki en lágmarksákvæði tilskipunarinnar kveða á um.
Efni: Tilskipunin leggur þá skyldu á atvinnurekanda sem áformar uppsagnir á hópi starfsmanna að tilkynna fulltrúum starfsmanna um þau áform, auk þess sem honum ber að stofna til samráðs við þá með það að markmiði að leita leiða til að koma í veg fyrir að til uppsagna komi eða a.m.k. að fækka í þeim hópi starfsmanna sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda flutning í önnur störf eða endurhæfingu starfsmanna. Atvinnurekanda ber að tilkynna vinnumiðlun um áform sín um hópuppsagnir áður en uppsagnir eru tilkynntar starfsmönnum.
EFTA dómstóllinn
Evrópudómstóllinn
C-422/14. 11.nóvember 2015. Hér var tekist á um túlkun 1.gr. tilskipunarinnar og komist að þeirri niðurstöðu m.a. að telja skuli starfsmenn á tímabundnum samningum með þegar metinn er venjulegur starfsmannafjöldi fyrirtækja í skilningi tilskipunarinnar auk þess sem einhliða uppsögn og breyting ráðningarkjara teljist sem uppsögn í skilningi ákvæðisins. C-270/05. 15 febrúar 2007. Athinaiki Chartopoiia AE. Evrópudómstóllinn kveður hér á um að við ákveðnar aðstæður megi skilgreina einstaka framleiðslueiningu (e. production unit) sem tilheyrir stærri fyrirtækjasamstæðu sem sjálfstætt fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar. Af því leiðir að fjalla skal um uppsagnir á starfsmönnum sem þar vinna í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.
C-385/05. 18. janúar 2007. Confédération générale du travail (CGT). Evrópudómstóllinn kveður hér á um að aðildarríkjum sé óheimilt með vísan til lágmarksákvæða tilskipunar 98/59/EB um hópuppsagnir annars vegar og tilskipunar 2002/14/EB um upplýsingar og samráð hins vegar að takmarka gildissvið sinnar löggjafar á framangreindum sviðum á þann hátt að launamenn yngri en 26 ára njóta ekki þeirra réttinda sem þessum tilskipunum er ætlað að tryggja.
C-188/03 27. janúar 2005. Irmtraud Junk. Evrópudómstóllinn fjallar hér um 2. til 4. gr. tilskipunar 98/59/EB og kemst að þeirri niðurstöðu að hugtakið hópuppsögn vísi til þess þegar atvinnurekandi tilkynnir að hann áformi að segja upp starfsmönnum í þeim mæli að fjöldi þeirra uppfylli viðmið tilskipunarinnar. Þá segir dómurinn að atvinnurekanda beri að upplýsa og hafa samráð við fulltrúa starfsmanna um áform sín um hópuppsagnar áður en hann ákveður endanlega uppsagnir einstakra starfsmanna. Sé honum óheimilt að tilkynna starfsmönnum um uppsögn á ráðningarsamningi fyrr en málsmeðferð þeirri sem vísað er til í 3. og 4. gr. tilskipunarinnar sé lokið og uppsagnir verið tilkynntar til vinnumiðlunar.
C-55/02. 12. október 2004. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gegn Portúgal. Í þessu máli kemst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skilgreining hugtaksins hópuppsögn í löggjöf aðildarríkis þar sem einungis er miðað við uppsagnir af skipulagslegum eða tæknilegum ástæðum eða árstíðabundnum sveiflum, en ekki aðrar uppsagnir sem atvinnurekandi grípur til af ástæðum sem ekki varða starfsmenn sjálfa, fari í bága við skyldur aðildarríkis um rétta innleiðingu á 1. og 6. gr. tilskipunar 98/59/EB um hópuppsagnir.
C-32/02. 16. október 2003. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gegn Ítalíu. Evrópudómstóllinn kemst hér að þeirri niðurstöðu að ítalska ríkið hefði ekki fyllilega innleitt tilskipun 98/59/EB um hópuppsagnir þar sem þarlend löggjöf um hópuppsagnir tók ekki til fyrirtækja sem störfuðu án fjárhagslegra markmiða.
C-250/97. 17. desember 1998. Lauge. Evrópudómstóllinn fjallar hér um gildissvið undanþáguákvæðis tilskipunarinnar sem snýr að uppsögnum starfsmanna sem eiga sér stað þann dag þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar. Kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að undanþágan gildi ekki um hópuppsagnir sem atvinnurekandi grípur til sama dag og hann leggur fram beiðni um gjaldþrotaskipti á fyrirtæki sínu. Skipti í því sambandi ekki máli þó að þar til bær dómstóll úrskurði síðar fyrirtæki hans gjaldþrota frá og með þeim degi sem atvinnurekandinn lagði fram beiðni um gjaldþrotaskipti. Undanþáguákvæði tilskipunarinnar er m.ö.o. túlkað þröngri lögskýringu, með hliðsjón af markmiðum tilskipunarinnar um aukna réttarvernd launafólks í tengslum við hópuppsagnir.
C-449/93. 7. desember 1995. Rockfon. Í máli þessu var tekist á um það hvaða skilning bæri að leggja í hugtakið fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar. Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að með hugtakinu væri átt við þá starfstöð þar sem þeir starfsmenn vinna sem atvinnurekandi áformar að segja upp. Það sé hins vegar ekki nauðsynlegt að yfir þeirri starfsstöð sé sjálfstæð stjórn er hafi vald til að ákveða uppsagnir starfsmanna. Sú ákvörðun kann að vera tekin af öðru fyrirtæki. Fyrirtækið Rockfon var hluti af fyrirtækjasamsteypu. Yfirstjórn samsteypunnar leit svo á að skilgreina bæri öll fyrirtækin innan hennar sem eitt fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar. Sú túlkun hefði þau réttaráhrif að þær uppsagnir sem gripið var til hjá Rockfon féllu ekki undir gildissvið tilskipunarinnar vegna þess að sá fjöldi starfsmanna sem segja átti upp náði ekki tilskildum lágmörkum tilskipunarinnar að teknu tilliti til heildarfjölda starfsmanna í fyrirtækjasamsteypunni allri. Evrópudómstóllinn hafnaði þessari túlkun og sagði að líta bæri á Rockfon sem eitt fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar. Bæri því að skoða þær uppsagnir sem gripið var til í því fyrirtæki í samhengi við þann fjölda sem þar starfaði að jafnaði, en ekki að teknu tilliti til heildarfjölda starfsmanna hjá fyrirtækjasamsteypunni allri.
C-383/92. 8. júní 1994. Framkvæmdastjórnin gegn Bretlandi og Norður-Írlandi.
284/83. 12. febrúar 1985. Nielsen.
215/83. 28. mars 1985. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gegn Belgíu.
91/81. 8. júní 1982. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gegn Ítalíu.