Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 leggja áherslu á að stéttarfélög skuli opin öllum eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Í 2. mgr. 3. gr. laganna segir að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir sem hann hefur orðið bundinn af á meðan hann var félagsmaður eru skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinnur þau störf sem samningurinn er um þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn. Lögin gera því ráð fyrir heimild manna til úrsagnar úr félagi eftir ákveðnum reglum. Réttaráhrif úrsagnar úr einu félagi og innganga í annað félag felur hins vegar ekki í sér rétt til þess að krefjast launa skv. kjarasamningi þess félags sem gengið var í sbr. m.a. Félagsdóm 18/1998 (XI:350). Í félagslögum einstakra stéttarfélaga er síðan fjallað um það með hvaða hætti úrsögn getur átt sér stað og hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar. Hvað aðildarfélög ASÍ varðar mega slík skilyrði ekki brjóta gegn lögum sambandsins en í 3. mgr. 12. gr. gildandi laga sambandsins (2006) segir að ekki megi „…. hamla því að félagsmenn geti sagt sig úr félögum með skriflegri tilkynningu, með þeirri undantekningu einni að um tímabundnar hömlur sé að ræða, t.d. vegna yfirstandandi kjaradeilu og verkfallsaðgerða henni tengdri.“
Úrsögn í vinnudeilum
Í lögum aðildarfélaga ASÍ er 3. mgr. 12. gr. laga sambandsins endurspegluð með ýmsum hætti. T.d. þannig að enginn geti sagt sig úr félaginu eftir að viðræður eru hafnar við atvinnurekendur, vinnudeilu hefur verið vísað til sáttasemjara, atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst o.fl. Með breytingum á 15.gr. laga 80/1938 á árinu 1996 var skerpt á formlegum aðdraganda vinnustöðvana og m.a. gert að skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara auk þess sem viðhafa verður allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun. Ætla verður að úrsögn sé í öllum tilvikum óheimil eftir að ákvörðun hefur verið tekin um boðun allsherjaratkvæðagreiðslu um vinnustöðvun en ekki útilokað að svo geti verið fyrr í ferlinu, allt eftir ákvæðum í lögum viðkomandi stéttarfélags.
Einnig sé óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi, er lagt hefur niður vinnu vegna deilu. Þessum ákvæðum er ætlað að koma í veg fyrir að félagsmenn segi sig úr félagi þegar vinnudeila er orðin til þess að losa sig undan deilunni. Félagsmenn verða oft fyrir miklum þrýstingi meðal annars af hálfu atvinnurekenda að segja skilið við stéttarfélagið, eftir að kjaradeila er komin upp.
Ákvæði í þessa veru var ekki að finna í félagslögum Félags íslenskra atvinnuflugmanna, en ágreiningur þess við Flugfélagið Atlanta varð tilefni málareksturs fyrir Félagsdómi í október 1994. Málavextir málsins 11/1994 (X:234) voru þeir að FÍA hafði lengi leitað eftir því við flugfélagið að gera kjarasamning fyrir félagsmenn þess hjá fyrirtækinu. FÍA hafði kjarasamning við Flugleiðir, en ekki við Atlanta. Atlanta hélt því meðal annars fram að engir flugmenn væru í starfi hjá fyrirtækinu. Flugmenn væru allir ráðnir fyrir milligöngu áhafnaleigu erlendis og því gæti það ekki gert kjarasamning. Samningafundir höfðu verið haldnir þegar flugmenn sem unnu fyrir Atlanta gengu úr FÍA, stofnuðu sitt eigið stéttarfélag og gengu frá kjarasamningi við Atlanta daginn eftir stofnun félagsins. Ekki voru allir flugmenn fyrirtækisins aðilar að hinu nýja félagi. Fimm eða sex þeirra héldu áfram aðild að FÍA. FÍA boðaði síðan verkfall á fyrirtækið. Atlanta höfðaði mál gegn félaginu og krafðist þess að verkfallið yrði dæmt ólögmætt. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að hið nýja félag hefði verið löglega stofnað og kjarasamningur sem það hafði gert við Atlanta væri bindandi fyrir aðila. Af þeim sökum væri þátttaka félagsmanna í hinu nýja félagi í vinnustöðvun ólögmæt og þyki ekki skipta máli í þeim efnum hvort þessir meðlimir hins nýja stéttarfélags hefðu sagt sig formlega úr FÍA eða ekki, enda gætu þeir verið í báðum félögunum. Vinnustöðvunin var dæmd lögmæt en hún næði aðeins til þeirra félagsmanna sem ekki væru bundnir af hinum nýgerða kjarasamningi.
Úrsögn og innganga í annað stéttarfélag
Til þess að félagaskipti geti verið lögmæt þarf það félag sem gengið er í að hafa samningsrétt gagnvart atvinnurekanda. Í Félagsdómi 4/1998 (XI:315), Sjúkraliðafélag Íslands gegn íslenska ríkinu og Starfsmannafélagi ríkisstofnana var ágreiningur um samningsaðild og félagaskipti.
Málið varðaði gæslumann á Meðferðarheimilinu að Sogni sem í ráðningarsamningi var skráður sem félagsmaður í Starfsmannafélagi ríkisstofnana, lífeyrissjóður var tilgreindur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og vinnuveitandinn tilgreindur sem Sjúkrahús Suðurlands (Meðferðarheimilið Sogni). Þann 22. apríl 1997 gekk umræddur starfsmaður í Sjúkraliðafélag Íslands og sagði sig úr Starfsmannafélagi ríkisstofnana daginn eftir. Í kjölfar þessa sendi Sjúkraliðafélag Íslands bréf til Sjúkrahúss Suðurlands þar sem segir að með þessu hafi gæslumaðurinn tekið á sig almennar félagslegar skyldur gagnvart Sjúkraliðafélagi Íslands, þ.m.t. að greiða til félagsins 1,4% iðgjöld af öllum launum, auk 0,25% greiðslna í orlofssjóð og 0,22% til starfsmenntunarsjóðs BSRB af sama gjaldstofni. Í niðurstöðu Félagsdóms segir m.a. að Sjúkraliðafélag Íslands sé stéttarfélag sem hafi rétt til að vera samningsaðili við stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt ákvæðum 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986. Áður en meðferðarheimilið að Sogni tók til starfa á árinu 1992 hafi verið auglýstar til umsóknar stöður gæslufólks. Umræddur starfsmaður var menntuð sem sjúkraliði, en sóttist engu að síður eftir gæslumannsstarfi á meðferðarheimilinu að Sogni, enda var ekki um störf sjúkraliða að ræða á meðferðarheimilinu. Endurspeglar ráðningarsamningur starfsmannsins þessa staðreynd. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 bar því þessum starfsmanni að greiða gjöld til Starfsmannafélags ríkisstofnana eins og hann væri félagsmaður. Tekið er fram, að skylda til greiðslu gjalda til þess félags, sem fer með samningsaðild fyrir starfsmann, brjóti hvorki í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins né 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 eða 4. gr. laga nr. 80/1938. Voru stefndu því sýknuð með vísan til með framanritaðs.