Samkvæmt 9. gr. laga nr. 80/1938 skal velja trúnaðarmenn þannig að á hverri vinnustöð, þar sem að minnsta kosti 5 menn vinna, hafi stjórn stéttarfélags þess sem á staðnum er í viðkomandi starfsgrein rétt til að tilnefna 2 menn til trúnaðarmannsstarfa, úr hópi þeirra, sem á staðnum vinna.
Skal atvinnurekandi samþykkja síðan annan þeirra sem trúnaðarmann stéttarfélagsins á vinnustöðinni. Meginreglan skv. lögunum er með öðrum orðum sú, að trúnaðarmenn eru ekki kjörnir heldur tilnefndir og síðan skipaðir af viðkomandi stéttarfélagi.
Ruðningsréttur atvinnurekanda felldur úr gildi
Þegar lögin voru til meðferðar á Alþingi á sínum tíma var þessi ruðningsréttur atvinnurekenda hart gagnrýndur af andstæðingum frumvarpsins.
Þeir töldu enga ástæðu til þess að láta atvinnurekendur hafa áhrif á það hvaða trúnaðarmenn verkalýðsfélögin kysu. Aðrir vildu að starfsmennirnir sjálfir veldu sína trúnaðarmenn án afskipta stéttarfélagsins. Þessi ruðningsréttur atvinnurekanda var síðan tekinn út með sólstöðusamningunum 1977. Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er kveðið á um að starfsmönnum sé heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 til 50 starfsmenn og tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50 til tveggja ára í senn. Að kosningu lokinni tilnefnir viðkomandi verkalýðsfélag trúnaðarmennina í starfið ásamt því að tilkynna forráðamönnum fyrirtækisins um hver hafi verið tilnefndur. Verði kosningu eigi við komið skulu trúnaðarmenn tilnefndir af viðkomandi verkalýðsfélagi til ekki lengri tíma en tveggja ára í senn. Sjá t.d. grein 13.1 í aðalkjarasamningi VR (2008) og grein 13.1 í aðalkjarasamningi Eflingar (2008).
Úr hópi starfsmanna
Í 9. gr. laga nr. 80/1938 er gert ráð fyrir að trúnaðarmaður sé valinn úr hópi starfsmanna á vinnustöð.
Þetta er eðlileg regla, því trúnaðarmaður verður að þekkja vel til aðstæðna á vinnustöð og verkamennina sjálfa, til þess að geta rækt starf sitt vel. Einnig þurfa að minnsta kosti 5 menn að vinna á vinnustöð til þess að unnt sé að velja trúnaðarmann. Þetta nær þó ekki til landbúnaðarverkafólks né áhafna skipa eða báta, sem ekki er skylt að lögskrá á.
Hvað er vinnustöð
Í 2. mgr. 9. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur er að finna skilgreiningu á hugtakinu vinnustöð.
Samkvæmt því er vinnustaður sérhvert atvinnufyrirtæki, þar sem hópur manna vinnur undir stjórn sérstaks verkstjóra eða flokksstjóra, svo sem verksmiðjur, fiskverkunarstöðvar, skipaafgreiðslur, skip, bifreiðastöðvar og fleira.
Mörg félög á vinnustöð
Venjan er sú að hvert verkalýðsfélag hefur sinn trúnaðarmann þar sem starfsmenn úr mörgum verkalýðsfélögum vinna á sama vinnustað, enda er það tekið fram í samningum.
Þá er einnig algengt að trúnaðarmenn séu fyrir hverja deild og hverja vakt ef um slíkt vinnufyrirkomulag er að ræða. Á smærri vinnustöðum, þar sem félagsmenn margra stéttarfélaga vinna saman, kýs fólk trúnaðarmann sem starfar fyrir alla. Verði ágreiningur milli stéttarfélaga um hvaða félagi trúnaðarmaðurinn skuli vera úr úrskurðar Alþýðusamband Íslands í málinu.