Í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, dags. 24. febrúar 2010 vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu er fjallað um stöðu og hlutverk Félagsdóms.
Í kafla 1.1.3. um dómskerfið kemur eftirfarandi fram um Félagsdóm:
„Félagsdómur er ábyrgur fyrir því að úrskurða í réttarágreiningi vinnuveitenda og launþega á vinnumarkaði. Ekki er unnt að áfrýja dómum hans til Hæstaréttar nema ef um er að ræða dóma sem tengjast viðurlögum á sviði refsiréttar. Íslensk stjórnvöld ættu að endurskoða takmarkanir á réttinum til áfrýjunar á þessu sviði til þess að stuðla að því að réttlát málsmeðferð fyrir dómi sé tryggð.“
Á íslenskum vinnumarkaði hefur ríkt sátt um fyrirkomulag Félagsdóms og er það afstaða Alþýðusambands Íslands að hvorki efnislegar né lagalegar forsendur leiði til þess að nauðsyn sé að gera breytingar á.
Staða Félagsdóms að lögum
Félagsdómur starfar á grundvelli IV. kafla laganna um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Félagsdómur er sérdómstóll, skipaður fimm dómurum til þriggja ára í senn og skipa deiluaðilar hvor sinn dómara, Hæstiréttur skipar tvo og félagsmálaráðherra skipar fimmta dómarinn úr hópi þriggja sem Hæstiréttur tilnefnir. Ekki er gerð krafa um að dómarar hafi lögfræðiþekkingu utan þeirra tveggja dómara sem Hæstiréttur skipar en þeir skulu hafa lokið embættisprófi í lögfræði.
Í 44. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur eru verkefni Félagsdóms nefnd:
- Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á lögunum og tjóni, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.
- Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.
- Að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðiljar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti 3 af dómendunum því meðmæltir.
Þá kemur fram skv. 2. mgr. 44. gr. að stéttarfélögum, félögum meistara og iðnrekenda og einstökum atvinnurekendum skuli heimilt að leita úrskurðar Félagsdóms um það, hvort starfsemi falli undir I. og II. kafla laga um iðju og iðnað, svo og um það, til hvaða löggiltrar iðngreinar hún taki.
Mál sem höfða má fyrir Félagsdómi skal ekki flutt fyrir almennu dómstólunum, nema Félagsdómur hafi neitað að taka það til meðferðar skv. 47. gr. laganna.
Í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 er jafnframt fjallað um verkefni Félagsdóms. Samkvæmt lögunum eru verkefnin að dæma í málum sem varða ágreining um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær, lögmæti vinnustöðvana, ágreining um skilning á kjarasamningi, ágreining um félagsaðild og önnur þau atriði sem samið er um að leggja fyrir dóminn enda séu þrír dómendur því meðmæltir.
Aðild að málum fyrir Félagsdómi er með sérstökum hætti, skv. 45. gr. laganna Sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga reka fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir dómnum. Félög, sem ekki eru meðlimir sambandanna, reka mál sín sjálf og fyrir meðlimi sína. Ófélagsbundnir aðilar reka mál sín sjálfir. Þá geta einstakir meðlimir félaga sinna höfðað mál sjálfir fyrir dómnum ef samband eða félag neitar að höfða mál.
Félagsdómur getur dæmt málsaðila til að greiða skaðabætur, sektir og til að greiða málskostnað eftir venjulegum reglum.
Þá er í 67. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 fjallað með eftirfarandi hætti um áfrýjunarheimildir vegna dóma og úrskurða Félagsdóms.
Úrskurðir og dómar Félagsdóms eru endanlegir og verður ekki áfrýjað. Þó má innan viku frá dómsuppsögn eða úrskurði kæra til Hæstaréttar:
- Frávísunardóm eða úrskurð um frávísun.
- Dóm til ónýtingar, sökum þess að málið heyrir ekki undir Félagsdóm.
- Úrskurð um skyldu til að bera vitni, um eiðvinning og réttarfarssektir skv. 60. og 63. gr.
- Ákvörðun um að gera aðila að greiða sektir skv. 65. gr.
Að öðru leyti en fram kemur í 67. gr. eru dómar Félagsdóms endanlegir og verður ekki áfrýjað. Þannig er viðurkenningardómum Félagsdóms ekki hægt að áfrýja, auk ákvörðunar um gera aðila að greiða skaðabætur vegna tjóns sem hann hefur valdið.
Almennt um hlutverk Félagsdóms og sérstaða hans
Félagsdómur er sérdómstóll og í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur og lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er skýrlega kveðið á um það hver verkefni hans eru.
Dómurinn fjallar þannig í meginatriðum annars vegar um brot og túlkanir á kjarasamningum og hins vegar um brot á ákvæðum framangreindra laga. Þannig er Félagsdómur í reynd sérdómstóll sem leysir úr ágreiningsmálum sem varða samskipti annars vegar launafólks og hins vegar atvinnurekenda, á grundvelli samninga. Vegna þessa fyrirkomulags og skipan dómara í dóminn hefur Félagsdómur ákveðinn skyldleika við gerðardóma.
Ljóst er að löggjafarvaldið lítur svo á nauðsynlegt sé að aðilum vinnumarkaðarins sé framselt að miklu leyti valdið til að móta og setja reglur á vinnumarkaðnum ólíkt því sem gildir um önnur samfélagsins. Í samræmi við það hafa þau mál vinnumarkaðarins verið tekin undan lögsögu almennu dómstólanna að því er varðar brot og túlkanir á kjarasamningum og lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Önnur mál, t.d. hvað varðar brot á ráðningarsamningi eða um greiðslu ákveðinnar fjárkröfu á grundvelli vangoldinna launa eiga aftur á móti undir almennu dómstólana.
Í þessu ljósi verður að hafa í huga það fyrirkomulag sem er á úrlausn ágreiningsmála sem koma upp milli aðila vinnumarkaðarins. Verkefni Félagsdóms er að úrskurða um mál sem löggjafarvaldið hefur afhent stéttarfélögunum og atvinnurekendum forræði á og því eðlilegt að um úrlausn ágreiningsmála sem upp koma gildi sérstakar reglur þannig að aðilar sjálfir hafi forræði á úrlausn ágreiningsefna.
Rétt er að benda á að þar sem Félagsdómur er sérdómstóll ber að túlka ákvæði um verkefni hans þröngt.
Félagsdómur og ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um stöðu Félagsdóms og heimildir til áfrýjunar úrlausnum hans. Í kjölfar þess voru með lögum nr. 20/2001 gerðar breytingar á þágildandi áfrýjunarheimildum í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 á þá leið að ákvarðanir um gera aðilum að greiða sektir er nú kæranlegar til Hæstaréttar.
Forsaga málsins er sú að 7. september 1999 tók Mannréttindadómstóll Evrópu þá ákvörðun að kærumál Siglfirðings ehf. gegn íslenska ríkinu væri tækt til efnismeðferðar fyrir dómstólnum. Mannréttindadómstóllinn lagði jafnframt til að aðilar leituðu sátta í málinu. Kæruefnið í málinu laut að því að samkvæmt íslenskum lögum var ekki unnt að áfrýja dómi Félagsdóms frá 10. júní 1996 þar sem kærandi í málinu var dæmdur til að greiða 500 þús. kr. sekt í ríkissjóð á grundvelli 65. og 70. gr. laga nr. 80/1938.
MDE fjallaði um málið út frá 2. gr. 7. samningsviðauka en samkvæmt því ákvæði skal sérhver sá sem dómstóll finnur sekan um afbrot eiga rétt á að láta æðri dóm endurskoða sakfellinguna eða refsinguna.
Mannréttindadómstóll Evrópu samþykkti að fella niður mál Siglfirðings ehf. fyrir dómstólnum á grundvelli sáttar aðila í málinu. Í sáttinni er m.a. vísað til þess að frumvarp til breytinga á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur hafði verið lagt fram á Alþingi, sem fól í sér að sektarákvarðanir Félagsdóms væru kæranlegar til Hæstaréttar. Frumvarpið var því meginforsenda þess að Mannréttindadómstóllinn samþykkti framangreinda sátt í máli Siglfirðings ehf. gegn íslenska ríkinu.
Í því ljósi er mikilvægt að hafa í huga að Mannréttindadómstóll Evrópu fjallaði ekki með almennum hætti um heimildir til áfrýjunar dómsniðurstöðum Félagsdóms til æðri dómstóls. Dómurinn taldi þannig fullnægjandi að eingöngu sektarákvarðanir væru kæranlegar til Hæstaréttar enda slíkt í samræmi við ákvæði 2. gr. 7. samningsviðauka sem fjallað verður um í framhaldinu.
Ákvæði 6. gr. MSE veitir ekki rétt til áfrýjunar mála.
Í greiningarskýrslu kemur fram að íslensk stjórnvöld skuli endurskoða takmarkanir á réttinum til áfrýjunar á þessu sviði til þess að stuðla að því að réttlát málsmeðferð fyrir dómi sé tryggð.
Í fyrsta lagi er rétt að benda á að nú þegar, líkt og að framan er getið, hefur lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur verið breytt þannig að ákvörðunum um sektargreiðslur er nú hægt að áfrýja, sbr. 2. gr. 7. samningsviðauka MSE.
Í öðru lagi er nauðsynlegt að benda á að í hugtakinu réttlát málsmeðferð felst ekki nauðsynleg krafa til þess að öllum dómum og úrskurðum dómstóla sé hægt að áfrýja til æðri dómstóla. Í 6. gr. MSE er kveðið á um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar. Í 6. gr. segir nánar:
- 1. Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Sé skipan hans ákveðin með lögum. Dóm skal kveða upp í heyranda hljóði, en banna má fréttamönnum og almenningi aðgang að réttarhöldunum að öllu eða nokkru af siðgæðisástæðum eða með tilliti til allsherjarreglu eða þjóðaröryggis í lýðfrjálsu landi eða vegna hagsmuna ungmenna eða verndar einkalífs málsaðila eða, að svo miklu leyti sem dómstóllinn telur brýna nauðsyn bera til, í sérstökum tilvikum þar sem opinber frásögn mundi torvelda framgang réttvísinnar.
- Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus un sekt hans telst sönnuð að lögum.
- Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal eigi njóta minni réttar en hér greinir:
- Hann fái án tafar, á máli sem hann skilur, vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sætir.
- Hann fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.
- Hann fái að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skal hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar.
- Hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Séð skal um að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum.
- Hann fái ókeypis aðstoð túlk ef hann skilur hvorki né talar mál það sem notað er fyrir dómi.
Almennt hefur verið litið svo á að í réttinum til réttlátrar málsmeðferðar felist ekki rétturinn til að dómi eða úrskurði sé hægt að áfrýja til æðri dóms.
Í 7. samningsviðauka MSE er þó mælt fyrir um rétt til áfrýjunar sakamáls sem er nátengdur réttinum til réttlátrar málsmeðferðar. Í 2. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu segir:
- Sérhver sá, sem dómstóll finnur sekan um afbrot, skal hafa rétt til að láta æðri dóm fjalla á ný um sakfellinguna eða refsinguna. Um beitingu þessa réttar skal gilda löggjöf, þar á meðal um tilefni þess að beita megi.
- Réttur þessi getur verið háður undantekningum þegar um er að ræða minni háttar brot, eftir því sem fyrir er mælt í lögum, eða þegar fjallað var um mál viðkomandi manns á frumstigi af æðsta dómi, eða hann var sakfelldur eftir áfrýjun á sýknudómi.
Aðildarríkjum er í sjálfsvald sett hvort áfrýjun máls til æðra dóms taki til hvors tveggja sakfellingar og ákvörðunar viðurlaga eða sé einskorðuð við annað hvort, t.d. við ákvörðun viðurlaga einvörðungu. Þá er gert ráð fyrir að um undantekningar frá réttinum til þess að vísa máli til æðri dóms geti verið að ræða.
Mannréttindasáttmálinn verndar þannig einungis þann rétt að fá endurskoðuð refsimál fyrir æðri dómi, og jafnvel eingöngu refsinguna. Réttur til áfrýjunar einkamála er þannig ekki tryggður í ákvæðum Mannréttindasáttmálans.
Í kjölfar framangreindrar sáttar fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu var lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur breytt og ákvarðanir Félagsdóms um að gera aðila að greiða sektir eru nú kæranlegar til Hæstaréttar skv. 4. tölul. 67. gr. laganna.
Hvaða varðar heimild Félagsdóms til að dæma aðila til greiðslu skaðabóta er rétt að benda á að skaðabætur eru dæmdar til að bæta mönnum fé fyrir það tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Skaðabætur eru ekki dæmdar á grundvelli þess að viðkomandi hafi verð fundinn sekur um afbrot og samkvæmt þessu og með hliðsjón af orðalagi 2. gr. 7. Samningsviðauka MSE er því ekki nauðsynlegt að æðri dómstóll endurskoði ákvarðanir Félagsdóms um greiðslur skaðabóta.
Í ljósi alls framangreinds liggur því fyrir að samkvæmt núgildandi lögum eru uppfyllt þau skilyrði sem Mannréttindasáttmáli Evrópu leggur á hendur aðildarríkjum sínum varðandi áfrýjun mála. Í því ljósi er brýnt að benda á að sú sátt sem gerð var vegna máls Siglfirðings gegn Íslandi laut sérstaklega að áfrýjunarheimildum og var gerð af Íslands hálfu við Mannréttindadómstól Evrópu.
Þá er rétt að benda á að í Sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er ekki fjallað um rétt til að fá dóma og ákvarðanir endurskoðuð fyrir æðri dómstóli.
Vinnuréttardómstólar á Norðurlöndum
Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu þykir þó rétt að fjalla með almennum hætti um hlutverk og stöðu vinnuréttardómstóla á Norðurlöndunum og verður sérstaklega litið til Svíþjóðar og Danmerkur í því samhengi.
Í Svíþjóð og Danmörku er fyrirkomulag vinnuréttardómstóla með sambærilegum hætti og hér landi, þ.e. dómum og ákvörðunum vinnuréttardómstólanna er almennt séð ekki hægt að áfrýja til æðri dómstóla. Þrátt fyrir sambærilegt fyrirkomulag og athugasemd er gerð við í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar ESB hefur ekki með formlegum hætti verið af hálfu ESB gerð athugasemd gagnvart þessum aðildarríkjum ESB.
Á Norðurlöndum hefur skipan vinnumarkaðsmála verið almennt með þeim hætti að þríhliða samráð hefur verið meginstefið. Skipan vinnuréttardómstóla mótast af því. Með þríhliða skipan dómara í vinnuréttardómstóla er haldið fast við þá grundvallarreglu að málefni vinnumarkaðarins skuli vera í höndum launafólks og atvinnurekenda með aðkomu stjórnvalda enda sérþekking á málaflokknum í höndum aðila vinnumarkaðarins og þá skiptir máli að úrlausnir dómstólanna snerta oft hagsmuni fjölda fólks.
Í meginatriðum eru tvö atriði sem einkum einkenna starf vinnuréttardómstóla. Annars vegar hafa aðilar vinnumarkaðarins nokkra íhlutun um val dómenda og á að slíkt að stuðla að því að í dómi sitji menn með sérþekkingu á vinnumarkaðsmálum. Hins vegar einkennir hröð málsmeðferð vinnumarkaðsdómstóla. Þar er m.a. litið til þess að kjarasamningar gilda oftast í tiltölulegan skamman tíma og því gilda ýmsar sérreglur sem eiga að stuðla að því að ekki þurfi að bíða lengi endanlegrar úrlausnar. Þannig verður, eins og áður hefur verið nefnt, dómum vinnumarkaðsdómstóla m.a. ekki áfrýjað til æðri dóms.
Stofnun vinnumarkaðsdómstóla á Norðurlöndum má rekja til svokallaðs Septembersamkomulags í Danmörku. Samtök atvinnurekenda, DA, og landssamband stéttarfélaga, LO, gerðu samkomulagið og með því var komið á fót úrlausnaraðila, gerðardómstól, sem skipaður var aðilum frá atvinnurekendum, verkalýðshreyfingunni og stjórnvöldum. Talið var mun heppilegra að leysa úr réttarágreiningi fyrir sérstökum úrlausnaraðila heldur en með þvingunaraðgerðum, s.s. verkföllum, sem frekar skyldi beita þegar hagsmunaágreiningur væri fyrir hendi. Þannig var réttarágreiningur á vinnumarkaði tekinn undan lögsögu almennra dómstóla og settur í hendur hins sérstaka úrlausnaraðila, n.k. gerðardóms. Í kjölfarið voru settari á stofn sérstakir vinnumarkaðsdómstólar, Den faste voldgiftsret í Danmörku árið 1910, Arbetsretten í Noregi árið 1916 og Arbetsdomstolen í Svíþjóð árið 1928.Vinnumarkaðsdómstólum er þannig falið ákveðið hlutverk við stefnumörkun á málefnum vinnumarkaðarins.
Danmörk
Vinnuréttardómstóllin í Danmörku, Arbjedsretten , starfar á grundvelli Arbejsretsloven. Þau mál sem dómstóllinn fjallar um varða m.a.:
- Brot og túlkun á grunnkjarasamningum gerðum af DA og LO og samsvarandi samningar og samkomulög.
- Brot á kjarasamningum um kaup og kjör
- Lögmæti tilkynntra vinnustöðvana og fresta vegna þessa.
- Hvort til staðar sé kjarasamningur
- Hvort samkomulag um gerðardóm hafi verið gert og túlkun þess.
- Höfnun þess að leggja mál fyrir gerðardóm
- Ágreining um hæfni opinbers sáttasemjara
Aðilar vinnumarkaðarins geta ákveðið að mál sem varða brot á samningum þeirra á milli skulu ekki útkljáð á vettvangi vinnuréttardómstólsins heldur á vettvangi gerðardóms. Sá ákvörðun þarf að liggja fyrir með skýrum hætti áður en Vinnuréttardómstóllinn vísar máli frá af þessum sökum.
Einungis samtök atvinnurekenda eða verkalýðshreyfingarinnar geta höfðað mál fyrir dómstólnum. Einstaklingar geta ekki höfðað mál fyrir dómstólnum.
Ákvörðunum vinnuréttardómstólsins er ekki hægt að áfrýja. Ekki hafa verið gerðar formlega athugasemdir af hálfu Evrópusambandsins varðandi endanleika dóma danska vinnuréttardómstólsins.
Svíþjóð
Sænski vinnuréttardómstóllin, Arbedsdomstolen, starfar á grundvelli Lag om rättegången i arbetstvister.
Mál sem höfða má fyrir dómstólnum verður að höfða af samtökum atvinnurekenda eða launþega eða af atvinnurekenda sem gerir kjarasamning.
Vinnuréttardómstóllinn fjallar um mál sem varða kjarasamninga, rétt til þátttöku t.d. vegna félagsaðildar eða samningsaðildar, ágreining milli aðila sem bundnir eru af kjarasamningi eða ágreining á vinnustað þar sem kjarasamningur er í gildi. Ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt verður að höfða málið fyrir héraðsdómstól og þá er hægt að áfrýja niðurstöðu þess dómstóls til vinnuréttardómstólsins.
Dómum Vinnuréttardómstólsins verður ekki áfrýjað.
Niðurstaða
Í ljósi alls framangreinds liggur fyrir að forræði á málefnum vinnumarkaðarins hefur samkvæmt ríkri hefð á Norðurlöndum og Íslandi verið í höndum aðilum vinnumarkaðarins og hefur slíkt fyrirkomulag verið staðfest með lögum. Í því felst að kjarasamningar eru gerðar af samtökum atvinnurekenda og launþega og úrlausn ágreiningsmála sem skapast um gildi og túlkun þeirra er í höndum hinna sérstöku vinnuréttardómstóla sem skipaðir eru dómurum frá aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum en ekki hinna almennu dómstóla; héraðsdómstóla og Hæstaréttar. Þannig er í reynd tryggt að hið efnislega forræði á málaflokknum sé hjá aðilum vinnumarkaðarins.
Í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er veitt heimild til að kæra ákveðnar ákvarðanir og úrskurði Félagsdóms til Hæstaréttar. Samkvæmt ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu og túlkunum Mannréttindadómstólsins á þeim felst ekki í rétti til réttlátrar málsmeðferðar réttur til að kæra ákvarðanir og dóma til æðri dómstóls. Sú réttur sem felst í 2. gr. 7. samningsviðauka MSE veitir eingöngu rétt þess sem dæmdur hefur verið fyrir afbrot til að fá endurskoðaða sakfellinguna eða refsinguna fyrir æðri dómi. Þar sem ákvörðun um að gera aðila að greiða sekt er kæranleg til Hæstaréttar liggur fyrir að ákvæði MSE eru uppfyllt að þessu leytinu til.