Þegar fyrirtæki leggja í skipulagsbreytingar sem falið geta í sér útvistun starfa, færslu starfa milli deilda eða eininga og fleira þess háttar, geta trúnaðarmenn lent í þeim hópi sem sagt er upp. Í þeim tilvikum ber atvinnurekanda eins og áður að leitast við að láta trúnaðarmenn sitja fyrir um vinnu. Honum ber að líta til þess hvort fela megi trúnaðarmanninum önnur störf innan fyrirtækisins þ.e. í öðrum deildum eða sviðum. Þegar það er metið ber m.a. að horfa til þess hvaða möguleika atvinnurekandinn hefur í því efni og þá skiptir m.a. máli hversu víðtækar skipulagsbreytingarnar eru og til hve margra starfsmanna þær taka.
Á þetta reyndi m.a. í Félagsdómi 6/2011. Málavextir voru þeir þeir að stefndi, Orkuveita Reykjavíkur (OR), lagði niður hluta tiltekins sviðs og sagði upp af þeim ástæðum starfsmanni sem jafnframt gegndi stöðu trúnaðarmanns. Uppsögnin var rökstudd þannig að stærstur hluti eða 80% af starfsskyldum trúnaðarmannsins féllu niður en 20% dreifðust á önnur svið. Í niðurstöðu Félagsdóms kemur fram að uppsagnir í kjölfar skipulagsbreytinga hafi náð til 65 af 593 starfsmönnum stefnda og að það eitt hnígi að því að hann hefði átt að láta trúnaðarmanninn sitja fyrir um vinnuna auk þess sem stefndi hafi ekki sýnt fram á að starfskraftar trúnaðarmannsins hafi þurft að takmarkast við tiltekinn verkahring. Túlka verður dóminn þannig að atvinnurekanda beri að sýna fram á og sanna ómöguleika sinn til að finna starfsmanninum önnur verkefni innan fyrirtækisins.