VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Skilgreining hugtaksins trúnaðarmaður

Þegar rætt er um trúnaðarmann er oftast átt við trúnaðarmann í merkingu laga nr. 80/1938. Í greinargerð laganna frá 1938 segir að með ákvæðinu (þá 10.gr. nú 9.gr) sé „… stéttarfélögum heimilað að skipa sér trúnaðarmenn á vinnustöðum úr hópi vinnandi manna, er gæti þess að haldnir séu samningar …“ Hann er með öðrum orðum fulltrúi stéttarfélaganna á vinnustaðnum.

Samkvæmt þessu og í skilningi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði er hann fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum sem kjörinn hefur verið starfsmönnum og skipaður af stéttarfélaginu. Hann er jafnframt fulltrúi starfsmanna gagnvart atvinnurekanda og tengiliður stéttarfélagsins við starfsmenn.

Danskir fræðimenn hafa skilgreint hugtakið þannig að átt sé við þann starfsmann, sem er valinn af samstarfsmönnum sínum á vinnustað, til þess að vera talsmaður þeirra og fulltrúi gagnvart vinnuveitanda. Jafnframt  er það grundvöllur þess að tala um trúnaðarmann í tæknilegum skilningi að kjarasamningurinn sem kveður á um samskipti og kjör aðila á vinnustað, viðurkenni trúnaðarmanninn, sem talsmann gagnvart atvinnurekanda, þannig að hann hafi ekki aðeins sérstöðu meðal starfsmanna, heldur einnig að hinum sérstöku reglum um réttarstöðu trúnaðarmanna sé beitt. Danski fræðimaðurinn Per Jacobsen skilgreinir hugtakið þannig að trúnaðarmaður sé launamaður, sem sé valinn af samstarfsmönnum sínum til þess að gæta hagsmuna þeirra gagnvart vinnuveitanda. Hann sé þannig tengiliður milli hins einstaka launamanna og stjórnar fyrirtækisins. Ef trúnaðarmaður er valinn samkvæmt heimild í kjarasamningi er hann einnig fulltrúi stéttarfélags á vinnustað og á þess vegna einnig að gæta hagsmuna stéttarfélagsins.

Hér á landi er fjallað um trúnaðarmenn í lögum nr. 80/1938 hvað almenna vinnumarkaðinn varðar og í lögum nr. 94/1986 hvað hinn opinbera varðar. Jafnframt er ítarlega fjallað um trúnaðarmenn í kjarasamningum og í lögum stéttarfélaga þar sem þeim er að jafnaði falið mikilvægt hlutverk innan stjórnskipunar þeirra og við gerð kjarasamninga. 

Hugtakið trúnaðarmaður kann þó að hafa víðtækari merkingu í einstökum samningum eða lögum. Þannig er ákvæði um það í samkomulagi um trúnaðarmenn milli fjármálaráðherra og félaga BSRB að þeir teljist trúnaðarmenn í skilningi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem eru:

  1. Kjörnir trúnaðarmenn samkvæmt 28. gr. þeirra laga,
  2. Kjörnir trúnaðarmenn samkvæmt 2. gr. samkomulagsins, sem fjallar um sameiginlegan trúnaðarmann fyrir fleiri en einn vinnustað eða vakt, 
  3. Kjörnir stjórnarmenn stéttarfélaga og heildarsamtaka þeirra,
  4. Kjörnir samninganefndarmenn stéttarfélaga.
VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn