Launamaður á rétt á því að fá í hendur við útborgun launa sundurliðun á launaútreikningi. Launaseðillinn er einnig kvittun launamannsins fyrir greiðslu skatta, lífeyrissjóðsiðgjalda og félagsgjalds. Ekkert eitt staðlað form er til um launaseðla en í kjarasamningum koma fram leiðbeiningar um það hvaða upplýsingar skuli vera á launaseðli.
Samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, 22. gr., ber launagreiðandi ábyrgð á þeim opinberu gjöldum sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir.
Launamaður ber ekki ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda sem hann sannar að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans. Þessi sönnun verður fyrst og fremst gerð með launaseðli sem launamaður fær afhentan við greiðslu launa. Það er því afar brýnt að launaseðlar veiti sundurliðaðar upplýsingar um greiðslu launa og launafólk varðveiti launaseðla sína.