VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Lífeyrissjóður

Á almennum vinnumarkaði var fyrst gerður heildarkjarasamningur um lífeyrissjóði á árinu 1969. Samkvæmt honum var tekin upp almenn skylduaðild að lífeyrissjóðum viðeigandi stéttarfélaga. Sjóðirnir starfa á félagslegum grunni samtryggingar og byggjast öll réttindi í þeim á þeim fjármunum sem þeir taka við og ávaxta. Viðkomandi stéttarfélög og samtök atvinnurekenda skipa stjórnir sjóðanna að jöfnu og stýra þeim. Síðasta heildarendurskoðun samningsins frá 1969 fór fram með samningi ASÍ og VSÍ þann 12.12 19958.12 2004 var síðan samið um sérstaka ráðstöfun á viðbótarframlagi atvinnurekenda og um aldurstengda réttindaávinnslu. Lífeyrissjóðirnir mynda einn af hornsteinum íslenska velferðarkerfisins og þótti stjórnvöldum nauðsynlegt að setja um þá sérstök heildarlög og var það gert með lögum 129/1997

Skylduaðild allra að lífeyrissjóðum er bæði samnings- og lögbundin. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 gilda kjarasamningar um alla sem fyrir allt launafólk í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til, óháð því hvort menn eru fullgildir félagsmenn þess stéttarfélags sem að kjarasamningi stendur eða ekki.  Í öllum kjarasamningum er sérstaklega tilgreint til hvaða lífeyrissjóðs eigi að greiða. Þessi almenna skylduaðild alls launafólks að tilteknum lífeyrissjóðum skv. kjarasamningum er staðfest í 2.gr. laga nr. 129/1997 en í greinargerð með því ákvæði segir: „Hitt er ljóst að lífeyrismál hafa verið á samningsforræði aðila vinnumarkaðarins og ekki eru forsendur til að hlutast til um þá skipan. Því þykir eðlilegt að staðfesta að meginlínur aðildar verði áfram starfstengdar og í samræmi við þann kjarasamning sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein.“ Þessi regla er meitluð í 1.gr. kjarasamnings ASÍ og SA um lífeyrismál frá 12.12 1995 sem áður er vísað til. Þessi almenna skylduaðild launafólks þýðir að launafólk getur ekki valið lífeyrissjóð til þess að greiða til og jafnframt að atvinnurekendum er skylt að skila mótframlögum sínum til þess lífeyrissjóðs sem viðeigandi kjarasamningur tilgreinir. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn