Stéttarfélög hafa frelsi um sín innri mál með þeim takmörkunum sem settar eru í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur samanber 1. mgr. 3. gr. þeirra. Í því felst meðal annars að stéttarfélag getur ákveðið það í samþykktum sínum hvert félagssvæðið skuli vera, svo framarlega sem félagssvæðið nær yfir að minnsta kosti eitt sveitarfélag. Enn fremur til hvaða starfsgreina félagið skuli ná og hvernig stjórnskipan þess er háttað.
Svæðisbundin stéttarfélög
Með svæðisbundnum félögum er átt við stéttarfélög sem ná til starfa sem unnin eru í afmörkuðum sveitarfélögum, einu eða fleirum. Fyrrum var aðild að slíkum félögum einnig bundin búsetu þeirra eða lögheimili sem unnu störfin og menn búsettir utan svæðisins áttu þá ekki rétt til inngöngu í félagið. Öll ákvæði í félagslögum aðildarfélaga ASÍ af þessum toga eru nú bönnuð sbr. 2. mgr. 12. gr. laga ASÍ frá 2006 og hafa ekkert gildi séu þau á annað borð í lögum aðildarfélaganna sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Svæðisbundin félög ná oft yfir nokkur sveitarfélög. Félagssvæði félaganna á höfuðborgarsvæðinu nær gjarnan yfir Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og Kópavog auk Reykjavíkur.
Landsfélög
Með landsfélagi er átt við félög sem skilgreina félagssvæði sitt sem allt landið, þ.e. takmarka það ekki við tiltekin sveitarfélög eða landshluta. Kjarasamningar þeirra við atvinnurekendur gilda þannig á landinu öllu og þeir sem uppfylla skilyrði fyrir inngöngu í félagið eiga rétt til inngöngu óháð því hvar á landinu þeir starfa. Sum félög starfshópa eru landsfélög, svo semMjólkurfræðingafélag Íslands og Félag leiðsögumanna. Sjá einnig t.d. VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna sem aðild á að ASÍ en samkvæmt lögum þess er félagið opið öllum sem lokið hafa viðurkenndu vélstjóranámi, iðnnámi í málm- og véltæknigreinum, veiðarfæragerð, báta og skipasmíði svo og námsmönnum og öðrum þeim sem starfa í greinunum. Einnig er þetta fyrirkomulag algengt hjá félögum háskólafólks.
Starfsgreinabundin félög
Auk þess sem félög ákveða í samþykktum sínum til hvaða svæðis þau ná eru þau almennt einnig starfsgreinabundin. Í samþykktum þeirra kemur fram til hvaða starfa þau taka og kjarasamningar félaganna við atvinnurekendur endurspegla síðan ákvæði samþykktanna. Færst hefur í vöxt að starfsgreinum innan aðildarfélaga ASÍ hafi fjölgað vegna sameiningar félaga og sveitarfélaga. Til þess að skipuleggja kjarasamningsgerð fyrir einstakar starfsgreinar mynda aðildarfélög ASÍ með sér landssambönd sem einstakar deilir aðildarfélaganna eiga aðild að, eða félögin heild sé einungis um eina starfsgrein að ræða.
Landssambönd stéttarfélaga innan ASÍ
Skv. lögum ASÍ skipuleggja aðildarfélög sambandsins aðild sína að ASÍ í gegnum sérstök landssambönd en landsfélög eiga aftur á móti beina aðild að ASÍ. Landssamböndin starfa með líku sniði og ASÍ og halda ársfundi eða þing þar sem tekin eru til umfjöllunar þau mál sem efst eru á baugi í samfélaginu og varða hagsmuni launafólks og stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Hlutverk landssambandanna er almennt að sameina innan vébanda sinna verkalýðsfélög í samræmi við lög ASÍ. Þau samræma og móta stefnu félaganna í launa- og kjaramálum og styðja og styrkja félögin í starfi þeirra að hagsmunamálum félagsmanna, svo sem í vinnudeilum og samningum við atvinnurekendur. Þau beita sér fyrir samstöðu félaganna og gagnkvæmum stuðningi, gangast fyrir upplýsingastarfsemi og aðstoða aðildarfélög sín við slíka starfsemi svo einhver dæmi séu tekin.
Samböndin hafa sérstakar stjórnir og opnar skrifstofur þar sem þau veita aðildarfélögum sínum og eftir atvikum félagsmönnum þeirra þjónustu í samræmi við ákvæði samþykkta sinna og ákvarðanir þinga og stjórnar hverju sinni. Eins og fyrr segir er algengt að umboð til kjarasamninga séu framseld til þeirra.