VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Hlutverk trúnaðarmanna

Trúnaðarmenn eru eins og fyrr segir fulltrúar viðkomandi stéttarfélaga á vinnustaðnum. Hlutverk þeirra er skilgreint í 9. gr. laga nr. 80/1938. Þar segir: „Trúnaðarmaður skal gæta þess, að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna. Þetta ákvæði nær þó ekki til landbúnaðarverkafólks né áhafna skipa eða báta, sem ekki er skylt að lögskrá á.“ Um réttastöðu þeirra sem lögin ná ekki til er samið um í kjarasamningum. 

Hlutverk trúnaðarmanna er í aðalatriðum að vinna að bættum kjörum vinnufélaga sinna, jafnframt því sem þeir eru talsmenn atvinnuöryggis, félagslegs öryggis, skynsamlegra stjórnarhátta á vinnustöðum og eru samráðsaðilar vegna breytinga á vinnustöðum.

Fjallað er um verkefni trúnaðarmanna í kjarasamningum og um tiltekin verkefni í lögum ( sjá m.a. undirkafla um“Lögbundið samráð (sérstök lagaákvæði)“ en einnig byggist hlutverk þeirra á þeim venjum sem skapast hafa um störf þeirra.  

Að jafnaði er einnig fjallað um hlutverk trúnaðarmanna í lögum stéttarfélaga og þeim falin ákveðin hlutverk innan stjórnskipunar þeirra. Ekki er óalgengt að þau myndi ásamt stjórn félaganna sérstök trúnaðar- eða trúnaðarmannaráð sem milli aðalfunda geta farið með æðsta vald innan félaganna. Slík ráð eru einnig stjórn félagsins til ráðgjafar og algengt að þau myndi samninganefndir félaganna. 

Að vinnusamningar (kjarasamningar) séu haldnir

Þetta er meginhlutverk trúnaðarmanna þ.e. að gæta þess að kjarasamningar stéttarfélagsins séu haldnir á vinnustaðnum. Verkamenn skulu snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar og trúnaðarmanni ber að sinna þeim þegar í stað. 

Honum er, í samráði við verkstjóra, heimilt að verja eftir því sem þörf krefur tíma til trúnaðarmannsstarfa og skulu laun ekki skerðast af þeim sökum. Trúnaðarmanni er heimilt í tengslum við ágreiningsefni að yfirfara gögn og vinnuskýrslur varðandi ágreiningsefnið og ber honum að fara með þau gögn sem trúnaðarmál. Hann skal á vinnustað hafa aðgang að læstri hirslu og síma í samráði við verkstjóra. Eðlilegt að hann hafi fullt samráð og samvinnu við stéttarfélagið um ágreiningsefni sem upp koma til að leita leiða um lausn þeirra. Góð samskipti trúnaðarmanns og vinnufélaga eru grundvöllur árangursríks starfs. Nauðsynlegt er að trúnaðarmaður fræði nýliða á vinnustað um helstu reglur og venjur og um verkalýðsfélagið. 

Félagsleg réttindi virt

Félagsleg réttindi eru í dag m.a. skilgreind í Félagsmálasáttmála Evrópu. Þeim má skipta í tvo flokka. Annars vegar vinnuskilyrði, þar á meðal bann við nauðungarvinnu, jafnrétti á vinnustöðum, réttur til að vera í stéttarfélagi, bann við vinnu barna undir 15 ára aldri og vernd vinnandi fólks á aldrinum 15 til 18 ára, jafn réttur farandverkafólks og annarra o.s.frv. Og hins vegar félagsleg samheldni, þar á meðal rétturinn til heilbrigðis, félagslegs öryggis, heilbrigðisþjónustu, réttur aldraðra á félagslegri vernd o.s.frv.

Hinn endurskoðaði sáttmáli frá 1996 tryggir jafnrétti karla og kvenna, vernd ef til uppsagnar kemur, rétt launþega til að starfa með reisn, vernd gegn fátækt og félagslegri útskúfun, rétt til húsnæðis, aukið jafnræði o.s.frv. Þegar lögin voru sett 1938 voru félagsleg réttindi ekki eins skilgreind og víðtæk og síðar varð og telja verður að fyrst og fremst hafi verið átt við félagsleg réttindi í því sem kalla má þrengri merkingu þ.e. þau réttindi sem fyrst og fremst lúta að hinni vinnuréttarlegu stöðu og vernd á vinnumarkaði.

Borgaraleg réttindi virt

Borgaralegu réttindin sem einig eru friðhelg eru einfaldari og eru opinbers réttarleg svo sem kosningaréttur og kjörgengi og væri atvinnurekanda allskostar óheimilt að meina starfsmönnum að neyta kosningaréttar eða beita þá þrýstingi í þeim efnum.

Um þetta er sérstaklega fjallað í 4.gr. laganna frá 1938 þar sem segir: „Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með: a. uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn, b. fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn