VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Kosning trúnaðarmanns

Þegar kjósa skal trúnaðarmann, fer best á því að kosning fari fram skriflega. Það er engin skylda, en þykir heppilegt margra hluta vegna.

Í ritinu „Trúnaðarmaðurinn á vinnustað“, sem MFA hefur gefið út er að finna þær leiðbeiningar um kjör trúnaðarmanns að ágætt sé að tveir menn stjórni kosningu og hafi umsjón með henni, til dæmis fráfarandi trúnaðarmaður svo og fulltrúi viðkomandi verkalýðsfélags. Þeir sem stjórna kosningu geta gert annað tveggja, leitað eftir uppástungum um væntanlegan trúnaðarmann eða lagt til að allir starfsmenn innan viðkomandi verkalýðsfélags á vinnustaðnum séu í kjöri. Sé fyrrtalda aðferðin notuð hlýtur sá kosningu sem flest atkvæði fær af þeim sem stungið var upp á. Sé kosning bundin við uppástungur ber aðeins að rita á atkvæðaseðilinn nafn eins þeirra sem stungið hefur verið upp á. Sé einungis stungið upp á einum er sá sjálfkjörinn í stöðu trúnaðarmanns. Ákveði starfsmenn að allir séu í kjöri rita kjósendur nafn þess sem þeir velja úr hópi starfsmanna á atkvæðaseðil. Fáist ekki afdráttarlaus niðurstaða með þeim hætti er oft kosið milli þeirra tveggja eða þriggja sem flest atkvæði fengu.

Atkvæðisréttur

Hvergi er að finna ákvæði, hvorki í kjarasamningum né lögum, sem takmarka rétt félagsmanna innan verkalýðsfélaga til að taka þátt í kosningu trúnaðarmanna.

Meginreglan hlýtur því að vera sú að allir félagsmenn taki þátt í kosningunni. Heppilegast hlýtur að vera að allir starfsmenn taki þátt í kjöri. Sé verið að kjósa trúnaðarmann á vinnustað þar sem sumarafleysingafólk er fjölmennt, getur verið gott að kjósa trúnaðarmann á öðrum tíma.

Kjörgengi

Allir félagsmenn verkalýðsfélagsins á vinnustaðnum eru kjörgengir sem trúnaðarmenn. Er það því meginreglan, en leitast mun við að velja sem trúnaðarmenn þá sem fólk hefur trú á að muni standa sig í því hlutverki. 

Ekki er hægt að mæla með verkstjóra í stöðu trúnaðarmanns. Verkstjóri er fulltrúi atvinnurekanda og ber fyrst og fremst skyldur gagnvart honum. Engu breytir þó verkstjóri sé félagsmaður í verkalýðsfélagi. Ekki ætti heldur að velja þann í stöðu trúnaðarmanns sem gegnir starfi verkstjóra í forföllum hans. Vilji svo til að trúnaðarmaður sé gerður að verkstjóra, er best að kjósa sem fyrst annan í stöðu trúnaðarmanns.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn