VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Riftun atvinnurekanda

Til hvaða úrræða getur atvinnurekandi gripið vegna vanefnda starfsmanna á ráðningarsamningi? Það fer allt eftir umfangi og eðli vanefndanna. Séu vanefndir litlar getur atvinnurekandi veitt starfsmanni áminningu eða aðvörun. Séu vanefndir verulegar eða endurteknar þrátt fyrir áminningu og um ásetningsbrot að ræða eða stórkostlegt gáleysi getur hann átt rétt á að rifta ráðningarsamningi. Hafi starfsmaður rift ráðningarsamningi með ólögmætum hætti ( hlaupist úr vinnu ) á atvinnurekandi kröfu til skaðabóta sem honum er heimilt að skuldajafna á móti launum sem starfsmaður kann að eiga inni. Einnig getur skaðabótaréttur atvinnurekanda á hendur starfsmanni grundvallast á almennum skaðabótareglum utan samninga. Hér er einungis fjallað um úrræði sem afleiðingu af vanefndum á ráðningarsamningi en ekki um skaðabætur utan samninga.

Vanefndir starfsmanns á ráðningarsamningi lúta helst að mætingum, vinnuframlagi og gæðum á vinnunni, enda eru meginskyldur hans að vinna það verk sem hann er ráðinn til með þeim hætti sem samið hefur verið um.  Hér er fjallað um vanefndir starfsmanns og úrræði atvinnurekanda vegna þeirra en veruleg og sönnuð vanefnd getur réttlætt fyrirvaralausa og bótalausa uppsögn eða brottrekstur úr starfi eins og fyrr segir. Fyrst er fjallað um almenn skilyrði þess að atvinnurekandi geti rift en síðan tekin dæmi um ýmsar þær ástæður sem réttlætt geta riftun. Í lok kaflans er fjallað um þau úrræði sem atvinnurekandi kann að hafa auk þess að geta rift eins og t.d. rétt til þess að halda eftir launum og gera kröfu um skaðabætur. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn