VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Hugtakið

Viðvarandi eða endurtekin reglulega

Ein atviksbundin vinnsla telst ekki til rafrænnar vöktunar í skilningi laganna, en aftur á móti þarf ekki mikið að koma til til þess að vöktun teljist viðvarandi eða endurtekin reglulega, sbr. úrskurður Persónuverndar 339/2013 þar sem fjórar upptökur á tveggja mánaða tímabili var talið „viðvarandi eða endurtekið reglulega“. Vöktun þarf ekki að vera stöðugt í gangi eða rúlla samfellt til þess að falla undir hugtakið og virðist vera nóg að vöktunin eigi sér stað í nokkur skipti á tilteknu tímabili til þess að falla þar undir.

Eftirlit með einstaklingum

Þá þarf vöktunin að beinast að einstaklingum á beinan eða óbeinan hátt og því þarf búnaðurinn sem framkvæmir vöktunina að vera þess eðlis að hann geti greint manneskjur, ólíkt þeim búnaði sem var í frumkvæðismálum Persónuverndar 447/2005 og 612/2010.

Með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði

Í persónuverndarlögum er ekki nákvæmlega skilgreint hvaða búnaður telst fjarstýrður eða sjálfvirkur en ætla má að fjölbreyttur og ólíkur búnaður eigi þar undir. Í 2. mgr. 1. gr. reglna 837/2006 er fjallað um hvaða búnaður fellur m.a. undir hugtakið „netþjónar, búnaður til að fylgjast með símanotkun, eftirlitsmyndavélar, vefmyndavélar, ökuritar og rafrænn staðsetningarbúnaður“. Listinn er ekki tæmandi og því getur ýmis konar annar búnaður átt hér undir.

Taka ber fram að undir hugtakið fellur ekki búnaður til að fylgjast með mætingum, s.s. stimpilkortavélar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn