Samkvæmt 1. grein orlofslaganna nr. 30/1987 eiga allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, rétt á orlofi og orlofslaunum. Samkvæmt 7. grein orlofslaganna reiknast orlofslaun að lágmarki 10,17% af heildarlaunum.
Launahugtakið er ekki skilgreint frekar í orlofslögum en með heildarlaunum er átt við laun greidd í peningum eða öðrum verðmætum. Orlofslaun reiknast þannig af öllum launum, hvort sem um er að ræða föst laun, álög, yfirvinnu, akkorð eða aðrar óreglulegar greiðslur sem teljast til launaliða, svo fremi að ekki sé sérstaklega tekið fram í samningum að orlof sé undanþegið eða innifalið í greiðslu. Sem dæmi má nefna að í ákvæði kjarasamninga um orlofsuppbót er sérstaklega tekið fram að á orlofsuppbót greiðist ekki orlof.
Ágreiningur hefur risið um það hvort einhliða ákvarðaðar greiðslur, sem ekki er fjallað um í kjara- eða ráðningarsamning myndi stofn til útreiknings á orlofslaunum. Tekist var á um það í HRD 401/2010. Þar var talið að einhliða ákveðinn kaupauki teldist ekki hluti þeirra „heildarlauna“ í skilningi 2.mgr. 7.gr. l. 30/1987 sem reikna bæri orlofslaun af þar sem „greiðslur þessar hafi ekki verið tengdar ráðningar- eða starfskjörum stefnanda með þeim hætti að taka beri tillit til orlofs vegna þeirra á grundvelli 2. mgr. 7. gr. orlofslaga.“
Haldi atvinnurekandi því fram að orlof hafi verið innifalið í launum starfsmanns ber hann sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni.