VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Veikindi í orlofi

Í orlofslögum er ekki fjallað um réttarstöðu launafólks sem veikist eða slasast í orlofi. Um réttarstöðu starfsmanna við þessar aðstæður er hins vegar fjallað í kjarasamningum. Í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ segir: „Veikist starfsmaður í orlofi innanlands, í landi innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins skal hann á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda t.d. með símskeyti, rafpósti eða á annan sannanlegan hátt nema force major aðstæður hindri en þá um leið og því ástandi léttir. Fullnægi starfsmaðurinn tilkynningarskyldunni, standi veikindin lengur en í 3 sólarhringa og tilkynni hann atvinnurekanda innan þess frests hvaða læknir annist hann eða muni gefa út læknisvottorð, á hann rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin sannanlega vöruðu. Undir framangreindum ástæðum skal starfsmaður ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Atvinnurekandi á rétt á að láta lækni vitja starfsmanns er veikst hefur í orlofi. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á. Sömu reglur og að ofangreinir gilda um slys í orlofi.“

Veikindin verða að vera það alvarleg að maður geti ekki notið orlofsins. Ekki þarf endilega að vera um sams konar mat að ræða og við óvinnufærni, heldur kemur hér inn huglægt mat á því hvað er að njóta orlofs. Um ágreiningsefni af þessum toga var fjallað í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 56/2013

Veikindin þarf að tilkynna strax á fyrsta degi og hjá hvaða lækni launamaður hyggist fá læknisvottorð. Séu veikindin ekki tilkynnt strax kann orlofslengingin að falla niður. Reglan um tilkynningu veikinda strax á fyrsta degi er fortakslaus og vilji menn nýta sér rétt til lengingar orlofs vegna veikinda verða þeir að tilkynna, jafnvel þótt óvíst sé hversu lengi veikindin muni vara og hvort nokkur réttur kunni að stofnast til lengingar vegna þess hversu stutt veikindin voru.

Fyrirtæki á rétt á að láta lækni vitja starfsmanns er veikst hefur í orlofi. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn