VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Aldur umsækjanda

Samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er við það miðað að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sé orðinn 16 ára.

Ungmenni sem hafa verið á vinnumarkaði fram að þeim tíma eiga hins vegar ekki rétt á atvinnuleysisbótum strax á þeim degi. Fyrir því eru þær tvær ástæður. Annars vegar sú að ávinnsla bótaréttar samkvæmt lögunum hefst ekki fyrr en við 16 ára aldurinn og hins vegar vegna þess að réttur til lágmarksbóta myndast ekki fyrr en eftir a.m.k. þrjá mánuði á vinnumarkaði í fullu starfi. Það þýðir m.ö.o. að ekki getur komið greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að liðnum a.m.k. 3 mánuðum frá 16 ára afmælisdegi hins tryggða.

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 verða menn lögráða, þ.e. sjálfráða og fjárráða, við 18 ára aldur. Forráðamenn barna hafa framfærsluskyldu gagnvart þeim samkvæmt barnalögum nr. 76/2003. Sjá einnig lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, en þar segir að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Á hinn bóginn gera kjarasamningar ráð fyrir atvinnuþátttöku ungmenna sem og reglur um vinnuvernd barna og ungmenna. Atvinnurekendur greiða tryggingagjald af launum barna og ungmenna á vinnumarkaði líkt og af launum annarra starfsmanna samkvæmt lögum um tryggingagjald og telst þessi hópur því tryggður gegn atvinnuleysi líkt og aðrir launamenn í skilningi laga um atvinnuleysistrygginga.

Þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður samþykkja umsóknina með undirritun sinni.

Atvinnuleysisbætur eru ekki greiddar til þeirra sem eru 70 ára eða eldri.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn