VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Force majeure og slit ráðningar

Algengt er í samningum að undanskilin sé áhætta vegna ófyrirséðra ytri atvika eins og t.d. náttúruhamfara, eldsvoða o.fl. Þetta eru svokallaðar vis major eða force majeure reglur.

Þessar reglur ber að túlka þröngt þ.a. að þær gilda einungis í undantekningartilvikum en ef þær eru taldar eiga við þurfa samningsaðilar ekki að standa við skuldbindingar sínar. Um skýringar á því hvað eru ófyrirséð áföll (force majeure, vis major) er vísað til Rómarréttar og merkir hugtakið vis major ytri atvik sem ekki verða séð fyrir og ekki er unnt að koma í veg fyrir þótt gerðar séu eðlilegar öryggisráðstafanir, til dæmis náttúruhamfarir. Tjón sem eingöngu verða rakin til slíkra óviðráðanlegra ytri atvika og sem þá leiða til varanlegrar rekstarstöðvunar geta leitt til þess að launagreiðandi geti sagt sig fyrirvaralaust og án bóta frá efndum á ráðningarsamningi við starfsmann sinn á grundvelli reglna um force majeure (óviðráðanlegir atburðir). Ekki er þá lengur þörf fyrir vinnuframlag hans og ekkert við að vinna. Íslensk lög geyma ekki almenna skilgreiningu á force majeure eða skilyrðum þess að úrræðum á grundvelli hans megi beita.

Almenn skilyrði

Kröfu um að losna undan samningsskuldbindingu á grundvelli force majeure er almennt talið að hægt sé að setja fram á grundvelli þess að ómögulegt sé að efna skuldbindinguna vegna óviðráðanlegra atburða eða orsaka sem ekki sé að rekja til þess sem kröfuna gerir.

Lögfræðilega þurfa force majeure atburðir almennt að uppfylla eftirfarandi:
(i) Atburðurinn var ófyrirsjáanlegur þegar samningurinn var gerður.
(ii) Hann hafi orðið eftir að samningurinn var gerður.
(iii) Hann verði til þess að ómögulegt er að efna samninginn.
(iv) Hann verði án þess að aðilar geti haft nokkra stjórn á honum.

Force majeure atburður getur því bæði verið hinn raunverulegi atburður sjálfur eins og t.d. bein áhrif faraldurs á einstakling, fyrirtæki eða samfélag eða stjórnvaldsráðstafanir sem gerðar eru til þess að bregðast atburðinum. Fyrirsjáanleikinn og ómöguleikinn skipta mestu máli í samhengi ráðningar- og kjarasamninga.

Ófyrirsjáanleg áföll

Litlum vafa er undirorpið að eldsvoðar og náttúruhamfarir sem leiða til þess að vinnustaður eða fyrirtæki hreinlega hverfa a.m.k. tímabundið uppfylla skilyrðin.

Þó vitað sé að við búum á virkri eldfjallaeyju þá koma bæði jarðskjálftar og eldgos án sérstakrar reglu. Liðið geta áratugir, árhundruð eða þúsund milli stórra eldgosa og þau geta hagað sér með ófyrirsjáanlegum hætti og sama á við um stóra jarðskjálfta. Þó reynt sé að búa sig undir slík áföll með ýmsum hætti eins og t.d. í skipulagi byggða, byggingareglugerðum o.fl. þá er markmiðið fyrst og fremst vernd mannslífa og grundvallar innviða. Sama getur átt við um snjóflóð og eldsvoða þó reynt sé að fyrirbyggja áföll af þeim ástæðum með ýmsum hætti.
Meiri vafa er undirorpið hvort t.d. faraldrar eins og COVID-19 faraldurinn 2020 eða faraldrar almennt séu ófyrirsjáanlegir. Í því sambandi má hafa í huga að heimsfaraldrar koma reglulega upp sbr. SARS-Cov-1 faraldurinn 2002-2004 en COVID 19 er mjög svipaður vírus og heitir í reynd SARS-CoV-2. H1N1 vírusinn 2009-2010 og Zika vírusinn 2015-2016 svo bara sé litið til þeirra sem tekið hafa til heimsins alls fyrstu áratugum 21 aldar. Jafnframt skal haft í huga að ítrekað var varað við faraldri eins og COVID-19 áður en hann skall yfir. Erfitt er því að halda því fram að faraldrar séu ófyrirsjáanlegir og raunar má gera ráð fyrir því að þeir geti lagst nokkuð reglulega yfir lönd og álfur. Með öðrum orðum má með miklum rétti halda því fram að það, að ekki sé hægt að framkvæma vinnu vegna faraldurs sé í raun ein af þeim eðlilegu og vel þekktu áhættum sem almennt beri að taka tillit til í rekstri fyrirtækja. Því sé það bæði eðlileg og sanngjörn krafa samfélagsins og starfsmanna fyrirtækjanna að fyrirtækin séu á hverjum tíma undirbúin til þess að efna ráðningarsamninga sína a.m.k. út þá uppsagnafresti sem starfsmenn almennt hafa skv. lögum og kjarasamningum. Hér Íslandi eru slíkir frestir ekki langir og að jafnaði um einn mánuður hjá almennu launafólki þó þeir geti orðið lengri. Í samhengi við COVID-19 ber jafnframt að líta til þess að aðdragandi þess að atvinnu- og efnahagslíf stöðvaðist í upphafi árs 2020 var nokkur og afleiðingar faraldursins því ekki ófyrirsjáanlegar. T.d. hurfu ekki allir ferðamenn af landinu í einu lagi, allt flug var ekki slegið af í einu höggi og framleiðsla fyrirtækja var ekki stöðvuð þó ýmsar hindranir vegna samkomubanns hafi verið settar sem gert hafa kröfu um aðlögun og breytingar í starfsemi þeirra. Fyrri reynsla okkar Íslendinga af alvarlegum heimsfaröldrum eins t.d. spönsku veikinni 1918 eiga að hafa kennt okkur að eðlilegt er að smit verði hindrað með verulegum takmörkunum á sviði samkoma og ferðalaga og úrræðin sem beitt hefur verið og beita þarf eru því ekki ný af nálinni, sérstök, ófyrirsjáanleg eða óvænt.

Ómöguleiki efnda

Ómöguleiki til efnda þýðir að það verður að hafa verið líkamlega eða lagalega ómögulegt að efna samning. það er ekki nóg að efndir hafi orðið erfiðari, dýrari eða ekki eins ábatasamar.

Reyndar er ekki óalgengt í samningsákvæðum um force majeure að vísa ekki einungis til ómöguleika heldur einnig til verulegra hindrana o.fl. Í samhengi kjarasamninga og ráðningarsamninga er slíkum ákvæðum ekki fyrir að fara.

Almennt verður einnig að ætlast til þess að sá sem hyggst bera fyrir sig force majeure þurfi að leita allra úrræða til þess að standa við samning áður en gripið er til riftunar með vísan til force majeure. Í samhengi ráðningarsamninga getur það falið í sér aðlaganir eins og breytingar í framleiðslu og breytt þjónustufyrirkomulag en einnig notkun eigin bjarga og eigin fjárframlög, framlög hluthafa, aukið hlutafé, tímabundnar lántökur, notkun opinberra úrræða á o.fl. Ómöguleikinn í samhengi ráðningarsamninga kemur því ekki til fyrr en allra annarra úrræða hefur verið leitað.

Frávik í íslenskum lögum

Þó almennar reglur um force majeure sé ekki að finna í íslenskum lögum geyma lög nr. 19/1979 ákvæði sem tekur til ráðningarsamninga.

Lög um lausafjárkaup nr. 50/2000 geyma einnig sérákvæði sem gildir á því réttarsviði. Það er ekki til umfjöllunar hér. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979 segir:

„Nú fellur niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skipstapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir.“


Við túlkun þessa ákvæðis ber að hafa í huga að um er að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að launafólk ber ekki ábyrgð því hvort fyrirtækjum vegnar vel eða illa. Meginreglan er eftir sem áður að lágmarksákvæði kjarasamninga gilda, þ.m.t. reglur um uppsagnafresti.

Annar og þriðji málsliður 1. mgr. 3.gr. er sérákvæði varðandi fiskiðjuver og skipaafgreiðslur. Fjórði málsliður fjallar um annan atvinnurekstur sem verður fyrir ófyrirsjáanlegum áföllum eins og t.d. bruna eða skipstapa. Samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar er force majeure og ófyrirsjáanleiki ekki gildisskilyrði fyrir beitingu annars málsliðar 1.mgr. 3.gr. laganna hvað varðar fiskiðjuverin sbr. t.d. HRD 68/1983. Þar voru atvik þau að verkakonan A hafði starfað í fiskvinnslustöð F h/f í meira en tvö ár. F h/f tilkynnti A að hún yrði tekin af launaskrá skv. heimild í 3. gr. laga nr. 16/1958 en vonast var til að vinnsla gæti hafist að nýju hið allra fyrsta. Aðrar verkakonur fengu sams konar bréf. Fram kom að F h/f var komið í mikla skuld við útgerðarfyrirtæki sem seldi því fisk til vinnslu. Var svo komið að ekki var lengur hægt að greiða fyrir hráefni. Fyrir lá að hlé yrði á viðskiptunum og var fyrirsjáanlegt að hráefnisskortur yrði hjá F h/f. Langvarandi taprekstur hafði verið hjá fyrirtækinu, það var í peningaþrotum og lánafyrirgreiðsla stöðvuð. F h/f var því heimilt að taka A af launaskrá án þess að slíta ráðningarsamningi skv. 3. gr. laga nr. 19/1979 á meðan unnið var að því að skapa fiskiðjuverinu möguleika til að afla hráefnis. Bæði orðalag lagagreinarinnar og aðdragandinn að setningu laganna þóttu styðja þessa niðurstöðu. Þeim virtist ætlað að taka tillit til þess óstöðugleika sem oft er í íslenskum sjávarútvegi og atvinnurekendur fá ekki sjálfir við ráðið. F h/f var sýknað af kröfum A.

Í þessu máli var ekki um force majeure að ræða í lögfræðilegum skilningi. Þvert á móti var um fyrirsjáanleg atvik að ræða sem alfarið voru á ábyrgð fiskiðjuversins.
Ófyrirsjáanleikinn og raunveruleg ófyrirsjáanleg áföll eru hins vegar gildisskilyrði þegar kemur að öðru en hráefnisskorti hjá fiskiðjuverum eða skorti á vörum til upp- eða útskipunar þar sem fjórði málsliður 1.mgr. 3.gr. vísar í ófyrirsjáanleg áföll eins bruna og skipstapa sem skilyrði þess að ráðningu megi rjúfa án bóta.

Það er álit lögfræðinga ASÍ, að öðrum málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979 (hráefnisskortur) verði ekki beitt með lögskýringu eða lögjöfnun um afleiðingar þess að eftirspurn eftir vöru og þjónustu falli tímabundið niður t.d. vegna faraldra. Í fyrsta lagi uppfylla þau tilvik hvorki þau almennu skilyrði um force majeure sem rakin eru hér að framan og sem sérstaklega er fjallað um í fjórða málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979. Í öðru lagi er bæði augljóst og fráleitt að sérákvæði laga um skort á fiski til vinnslu verði beitt með almennum hætti með lögskýringu eða lögjöfnun um manneskjur sem hætta að sækjast eftir þjónustu hér á landi. Annars vegar er um að ræða skort á framboði dýra til matvælavinnslu og hins vegar skort á eftirspurn eftir vöru og þjónustu sem enn stendur almennt til boða ef eftir er leitað.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn