VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Orlof innifalið í launum

Samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof skal skrá sérstaklega á launaseðil við hverja launagreiðslu bæði samtölu áunninna orlofslauna frá upphafi orlofsárs og orlofslaun vegna þess greiðslutímabils. Stundum vill bregða við að laun séu, þrátt fyrir 2.mgr. 7.gr. laganna reiknuð sem hluti heildarlauna án sundurliðunar og greidd út samhliða öðrum launum. Það verklag er ólögmætt og andstætt ákvæðum kjarasamninga. Tilgangur ákvæða laga og kjarasamninga um orlof er sá, að tryggja launafólki hvíld frá störfum og laun á því tímabili til þess að tryggja að sú hvíld sé tekin og hennar notið.  Þetta kemur m.a. skýrt fram í greinargerð með fyrstu orlofslögunum sem gengu í gildi 15.5 1942. Þar segir: „Alþingi [hefur] viðurkennt nauðsyn þess, að vinnandi fólk til sjávar og sveita fái hæfilega hvíld frá störfum vissan tíma í einu með vissu tímabili ……. Óumdeilda þýðingu hefur það, að fólk fái greitt kaup meðan það er í orlofi….“ Ef sá háttur er á hafður við uppgjör launa, að fella orlofslaun inn heildarlaun og greiða þau út samhliða öðrum launum er nauðsynlegt að launamaður bregðist við og beri fram kvörtun innan hæfilegs tíma frá því honum verður þetta ljóst. Sé það ekki gert og séu laun hans umtalsvert hærri en lágmarkslaun er hætt við að orlofskrafan geti þrátt fyrir ákvæði laganna glatast. Sjá HRD 106/2013. Þessi dómur verður hins vegar ekki skilinn öðruvísi en þannig að sé kvörtun borin fram innan hæfilegs tíma þá beri að reikna orlof ofaná umsamin laun, óháð fjárhæð þeirra og óháð því verklagi sem samið hefur verið um og sem andstætt er lögunum.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn