Á íslenskum vinnumarkaði er það svo að stéttarfélögin og sjóðir þeirra gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að velferð launafólks. Til dæmis er áhættu vegna veikinda og slysa launafólks deilt í gegnum sjúkrasjóði stéttarfélaganna. Atvinnurekendur bera launagreiðslur á fyrsta hluta forfalla en þegar réttur í hendi atvinnurekanda hefur verið tæmdur, hvort heldur er vegna margra skammtíma veikinda eða vegna þess að veikindi og forföll eru alvarleg og langtíma taka sjúkrasjóðir stéttarfélaganna við. Til þeirra greiða allir atvinnurekendur í viðkomandi starfs- eða atvinnugrein á svæðinu og deila þannig sín á milli en í gegnum sjúkrasjóðina áhættu vegna veikinda og slysa.
Þessir sjóðir létta einnig af hinu opinbera útgjöldum vegna veikinda og slysa launafólks. VIRK starfsendurhæfingarsjóður er síðan dæmi um þríhliða samstarf stéttarfélaga, atvinnurekenda og hins opinbera þegar kemur að velferð launafólks sem um lengri eða skemmri tíma dettur út af vinnumarkaði eða er við að detta út af vinnumarkaði. Í þessum kafla er fjallað stuttlega um þessa sjóði en einnig stuttlega um félags- og vinnudeilusjóði stéttarfélaganna.