Atvinnurekendur greiða til sjúkrasjóðs eða styrktarsjóðs ákveðna prósentu af launum. Sjúkrasjóður er sá sjóður stéttarfélaga sem mest er leitað eftir styrkjum úr.
Atvinnurekendum er skylt samkvæmt 7. gr. laga nr. 19/1979 að greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum. Lagaákvæði um greiðslur til sjúkrasjóða komu fyrst 1974 en fyrir þann tíma höfðu allmörg verkalýðsfélög stofnað sjúkrasjóði og samið um greiðslur þangað í kjarasamningum. Þessi greiðsluskylda er ítrekuð í 6. gr. laga nr. 55/1980 þar sem segir að öllum atvinnurekendum sé skylt að greiða í sjúkrasjóði, orlofssjóði og fræðslusjóði viðkomandi stéttarfélaga, iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.
Tilgangur sjúkrasjóðs er fyrst og fremst að greiða félagsmanni bætur í sjúkra- og slysatilfellum eftir að launagreiðslum frá atvinnurekanda lýkur. Forræði sjóðanna er alfarið í höndum stéttarfélaganna og þær reglur sem þeir starfa eftir hafa félögin sjálf sett. Öll aðildarsamtök ASÍ eru þó bundin af tilteknum lágmarksreglum um lengd bótatímabila, fjárhæð bóta og önnur grundvallarréttindi í sjúkrasjóðunum skv. 49. gr. gildandi laga ASÍ (2018). Lágmarksgreiðslur og réttindi eru sem hér segir:
Dagpeningar:
- í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga (4 mánuði), að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
- í 90daga (3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.
- í 90 daga (3 mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
Réttur til dagpeninga endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju. Sjóðirnir greiða einnig eingreiddar dánarbætur.
Á grundvelli laga ASÍ hefur verið gefin út „Viðmiðunarreglugerð fyrir sjúkrasjóði aðildarfélaga ASÍ“.
Ágreiningur um greiðsluskyldu til sjúkrasjóðs
Deilur hafa risið um skyldu atvinnurekenda til greiðslu í sjúkrasjóði og rétt starfsmanna til greiðslu úr sjóðunum. Af dómunum má ráða að greiðsluskylda iðgjalda til sjúkrasjóða er tengd því að þeir starfsmenn sem greiðslan tengist öðlist rétt á sjúkrabótum úr sjóðunum. Með öðrum orðum má segja að eignist menn ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóðum er atvinnurekanda ekki skylt að skila iðgjöldum til sjóðsins.
Eins og fyrr segir byggist greiðsluskylda til sjúkrasjóðs á 7.gr. laga nr. 19/1979 en þar segir: „Vinnuveitendur skulu greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum.“ Í 6.gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 er greiðsluskylda þessi ítrekuð en einnig aukin og einnig látin taka til orlofssjóðs. Þar segir: „Öllum atvinnurekendum er skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni, og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.“ Samkvæmt þessu er ekki til staðar ótvíræð greiðsluskylda til annarra sjóða stéttarfélaganna.
Á það var látið reyna í Hrd. nr. 114/2004. Í dómi Hæstaréttar segir segir að í 1. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um skyldur allra atvinnurekenda að greiða í sjúkra- og orlofssjóði samkvæmt kjarasamningum. Slíka kröfu eigi stéttarfélögin vegna þessara tvenns konar sjóða og sé það tæmandi talning. Kröfur þeirra vegna annarra sjóða en þar séu tilgreindir verði ekki reistar á þessu lagaákvæði og brysti félaginu heimild til þess að krefja atvinnurekandann um gjöldin og var hann sýknaður.
Í Hrd. 1988:1464 var deilt um skyldu atvinnurekanda til að greiða í sjúkrasjóð tiltekins stéttarfélags iðgjöld af starfsmönnum sem voru ekki félagsmenn þess stéttarfélags. Atvinnurekandinn var hins vegar aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands og þar með taldi dómurinn hann vera bundinn af kjarasamningum þess við stéttarfélagið. Greiðsluskyldan væri ótvíræð samkvæmt ákvæðum laga og kjarasamninga og í Hæstarétti sagði að ekki skipti máli hvort starfsmenn atvinnurekandans væru félagsbundnir eða ekki. Við það yrði að miða samkvæmt því sem fram hefði komið í málinu og reglum sjóðanna að við greiðslu til þeirra öðlist starfsmenn atvinnurekanda full og óskoruð réttindi til úthlutunar úr sjóðum þessum.
Vanskil atvinnurekanda
Vanskil atvinnurekenda á greiðslu iðgjalda til sjúkrasjóðs eiga að jafnaði ekki að leiða til þess að starfsmenn þeirra glati réttindum í sjúkrasjóði, geti þeir fært sönnur á að félagsgjöld til viðkomandi stéttarfélags hafi verið dregin af launum þeirra sbr. 5.mgr. 49.gr. laga ASÍ (2018) þar sem segir: „Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar skv. 4.mgr. eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.“ Á þetta reyndi í dómi Lrd. 248/2018 en í dóminum var höfnun á greiðsluskyldu sjúkrasjóðs staðfest þar sem launamanni tókst ekki að sýna fram á rétt sinn með launaseðlum eða á annan sannanlegan hátt.