Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Með jöfnun launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Til þess að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns við launaákvörðun, skal starfsfólki ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs svo. Launaleynd er óheimil.
Til þess að stuðla að frekara jafnrétti á vinnumarkaði við launasetningu hefur frá árinu 2017 verið lögbundin jafnlaunavottun fyrirtækja sem hafa yfir 25 fólk í starfi.
Lög nr. 150/2020 skilgreina laun sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfskrafti fyrir vinnu. Þá eru kjör skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.
Öll mismunun á grundvelli kyns er óheimil. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launa eða annarra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um mun er að ræða, að hann skýrist af öðrum þáttum en kynferði.
Hrd. nr. 258/2004 taldi kona sem gegndi starfi deildarstjóra á félagsmálastofnun sveitarfélagsins starf sitt og starf deildartæknifræðings hjá sama sveitarfélagi jafnverðmæt, en í starfsmati sem fram fór á nokkrum störfum hjá sveitarfélaginu, þar á meðal á framangreindum tveimur störfum, voru störfin metin til sama stigafjölda. Að mati Hæstaréttar voru verulegar líkur leiddar að því að þessi tvö störf hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að konunni hefði verið mismunað í kjörum hjá sveitarfélaginu í skilningi jafnréttislaga. Sú staðreynd að viðkomandi starfsmenn tóku ekki laun samkvæmt sama kjarasamningi var ekki talin geta ekki réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla í skilningi jafnréttislaga.
Sjá einnig: Hrd. nr. 11/2000