VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Til hverra tekur verkfall

Í öllum vinnudeilum er spurt að því til hverra verkfallið nær, hverjir megi vinna í verkfallinu og hvernig sé háttað heimildum til að draga úr áhrifum verkfallsins með því að fá aðra til að vinna þau störf sem verkfallið nær til. Í verkföllum á almennum vinnumarkaði mótuðust ákveðnar venjur um þessi atriði sem studdust við sett lög, niðurstöður dóma og venjur í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Úr þessu hefur nú verið skorið og eru verkföll talin taka til allra sem taka laun skv. þeim kjarasamningi sem deilt er um sbr. Féld. 19/2019. Eftir sem áður taka verkföll ekki til félagsmanna annarra stéttarfélaga með kjarasamning um sömu störf sbr. Féld. 11/1994.

Verkfall tekur til allra sem taka laun skv. þeim kjarasamningi sem deilan snýst um

Með lögum nr. 55/1980 var lögfest sú regla að kjarasamningar kveða á um lágmarkskjör ekki einungis fyrir félagsmenn þess félags sem þá gerir heldur og fyrir alla þá sem vinna þau störf sem kjarasamningur félagsins nær til.

Fyrir gildistöku laga nr. 9/1974 og síðar laga nr. 55/1980 var af fræðimönnum talið að bann 18. gr. laga nr. 80/1938 við því að ganga í störf verkfallsmanna næði einungis til þeirra sem væru félagsmenn í stéttarfélagi eða sambandi. Af því var leidd sú regla að verkfallið tæki ekki til utanfélagsmanna. Breytt afstaða Félagsdóms birtist m.a. í Féld. nr. 4/1987 (IX:182) þar sem deilt var um það hvort hluthafar á verkfræðistofu mættu vinna í verkfalli. Hluthafarnir voru ekki félagsmenn í Stéttarfélagi verkfræðinga, sem hafði boðað verkfallið, en nokkrir þeirra voru félagsmenn í Félagi ráðgjafarverkfræðinga, sem verkfallið beindist að. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að verkfallið skyldi ná til þeirra hluthafa, sem voru ekki félagsmenn í Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Skipti því engu máli hvort þeir væru félagsmenn að stéttarfélaginu eða ekki, verkfallið var talið ná til þeirra. Endanlega var síðan úr þessu skorið með Féld. nr. 19/2019. Í því máli var verkfall Blaðamannafélags Íslands talið taka til allra sem taka ættu kjör skv. lágmarksákvæðum almenns kjarasamnings félagsins við Samtök atvinnulífsins sbr. lög. nr. 55/1980 og skipti þá ekki máli hvort þeir væru félagsmenn í öðrum stéttarfélögum enda væru þau ekki með kjarasamning um þessi sömu störf.

Verkfall nær samkvæmt framansögðu ekki einungis til félagsmanna í því stéttarfélagi sem boðar til verkfallsins, heldur til allra þeirra sem taka kjör eftir þeim kjarasamningi sem verið er að knýja á um að gerður verði.

Almennt bann við að ganga í störf verkfallsmanna

Í 18. gr. laga nr. 80/1938, segir að þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, sé þeim sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga og sambanda sem að vinnustöðvuninni standa. 

Í athugasemdum með lögunum segir að stundum sé reynt að hnekkja vinnustöðvun með því að fá menn, svokallaða verkfallsbrjóta, til að vinna. Venjulega hefði þetta ekki áhrif á lausn deilunnar, en fyrir hefði komið að það hefði í för með sér barsmíð og jafnvel meiðsl. Þess vegna sé í greininni bannað að reyna að afstýra vinnustöðvun með aðstoð manna, sem félagsbundnir séu í stéttarfélagi gagnaðila. Þótt athugasemdirnar nefni einungis það að bannað sé að afstýra vinnustöðvun með aðstoð félagsbundinna manna í stéttarfélagi gagnaðila nær ákvæðið einnig til manna sem eru í sama sambandi.

Skilningur manna á þessu ákvæði hefur oft verið sá að í því felist alfarið bann við því að aðrir menn hvort sem þeir eru félagsmenn félags innan sama sambands eða ekki gangi í störf verkfallsmanna. Flest þau álitamál sem komið hafa til dómsins hafa tengst félögum innan ASÍ. Þar sem samtökin eru fjölmenn og félagsaðild almenn hefur þetta ákvæði haft þau áhrif sem til var ætlast.  

Tilgangur 18. gr. laga nr. 80/1938 er ekki að hindra að þeir sem standa utan við verkföll, en eru innan félags eða sambands, sem að vinnustöðvun stendur, vinni sín venjulegu störf, jafnvel þótt þeir starfi venjulega við hlið manna sem eru í verkfalli og sinni þar sömu verkefnum. Bannið nær einungis til þess að þeir gangi ekki í störf verkfallsmanna.

Þetta kemur fram í Félagsdómi 1/1941 (I:130). Þar var deilt um það hvort ASÍ gæti bannað með vísan til 18. gr. matsveinum, veitingaþjónum og hljóðfæraleikurum að vinna á tilteknum veitingahúsum vegna vinnustöðvunar félags starfsstúlkna í veitingahúsum. Í dóminum sagði meðal annars að enda þótt matsveinarnir eða veitingaþjónarnir hefðu að einhverju leyti farið inn á starfssvið stúlknanna, yrði ákvæði 18. greinar ekki skilin svo að það hafi heimilað ASÍ að banna þessum mönnum og hljóðfæraleikurunum að inna af hendi sína venjulegu vinnu á veitingastöðunum. Hins vegar verði að telja að ASÍ hefði samkvæmt ákvæðum greinarinnar haft rétt til að banna þeim að vinna annað en venjuleg störf sín, en hvorki orðalag greinarinnar sjálfrar eða greinargerðarinnar veiti heimild til víðtækari skýringar á henni.

Sjá einnig Félagsdóma 5/1943 (II:56), 8/1944 (II:63), 9/1944 (II:66), 11/1943 (II:115) og 3/1947 (II:184).

Sigurður Líndal fjallar um í grein sinni sem ber heitið „Vinna og verkföll: hverjir mega vinna og hverjir ekki í boðuðum verkföllum sbr. 18. gr. laga nr. 80/1938?„, og birtist í 4. tölublaði Úlfljóts 1978, um þann vanda sem skapast inni á vinnustöðum þegar störf manna eru ekki svo glögglega skilgreind að erfitt geti verið að skilja á milli starfssviðs manna í og þeirra sem ekki eru í verkföllum. Skiptir þá ekki máli hvernig stéttarfélagsaðild er háttað. Um þetta verða oft deilur sem þarf að skera úr. Hann telur rétt að fylgja því meginsjónarmiði að ákvarða starfssvið manna fremur þrengra en rýmra, þannig að líkur teldust fyrir því að mönnum væri rétt að færast undan störfum, ef þeir teldu sig að öðrum kosti ganga inn á starfssvið verkfallsmanna. Fyrir þessu séu meðal annars þau rök að virða beri það viðhorf stéttarfélaganna að verkfallsmenn vinni í reynd í þágu þeirra allra og því sé það bæði hagsmunamál og siðferðisskylda að sýna samstöðu með þeim. Undir þessi sjónarmið er tekið og bent á að á seinni árum, með meiri sérhæfingu, stærri fyrirtækjum og aukinni samvinnu einstakra starfsstétta á vinnustöðum, til dæmis á sjúkrahúsum, hefur verulega reynt á þessa þætti.

Eigendur, fjölskyldur þeirra og hluthafar

Ekki hefur verið um það ágreiningur að eiganda fyrirtækis er heimilt að vinna í verkfalli. Ekki hefur verið talið skipta máli hvort eigandi sé í stéttarfélagi eða innan stéttarfélagasambands.

Réttur eigenda til að starfa hefur verið talinn helgast af eignarréttarlegum þáttum og heimild eiganda til að nýta eign sína beinni notkun, auk þess sem það er ágreiningslaus meginregla í íslenskum rétti að menn verði ekki þvingaðir til að aðhafast neitt, sem grefur undan mikilsverðustu hagsmunum þeirra, eins og lífsafkomu, nema mikil nauðsyn þjóðfélagsins krefjist. Jafnframt hefur, að minnsta kosti innan sumra landssambanda, verið viðurkenndur réttur maka og barna eiganda innan 16 ára aldurs að starfa í verkfalli. Hefur þetta sérstaklega átt við í smærri verslunarrekstri.

Þessar undantekningar frá 18.gr. taka hins vegar ekki almennt til þeirra sem tengdir eru eiganda fjölskylduböndum og ber að túlka þröngt. Í dómi Félagsdóms í málinu nr. 5/2017 var fjallað um heimild bróður, bróðursonar og tengdasonar eigenda útgerðar fiskiskips sem verkfall sjómannafélags tók til. Þessir tengdu aðilar voru allir í áhöfn fiskiskipsins og félagsmenn í sjómannafélaginu. Útgerðin hélt því fram að sér hefði verið heimilt að halda skipinu á sjó með þessari áhöfn og að líta ætti til skilgreiningar hugtaksins „nákomnir“ m.a. í gjaldþrotalögum, lögum um ábyrgðasjóð launa  o.fl. Á það féllst Félagsdómur ekki og var því um verkfallsbrot að ræða.  

Meiri vafi leikur á um rétt hluthafa í fyrirtæki eða félagsmanna í samvinnufélagi til að starfa í verkfalli, sem jafnframt eru félagsmenn í stéttarfélagi, sem á í verkfalli. Í Félagsdómi 4/1987 (IX:182) reyndi á þessi sjónarmið. Málsatvik voru þau að Stéttarfélag verkfræðinga var í verkfalli gegn Félagi ráðgjafarverkfræðinga og komu verkfallsverðir í veg fyrir að starfsmenn Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., sem allir voru hluthafar í stofunni kæmust til starfa. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að hlutafjáreign ein og sér yrði ekki talin veita hluthafanum stöðu vinnuveitanda, og var dæmt að verkfallið tæki til þeirra hluthafa sem ekki áttu aðild að Félagi ráðgjafarverkfræðinga, það er félagi atvinnurekenda í þessu sambandi.

Stjórnendur

Verkfall nær ekki til stjórnenda í fyrirtækjum. Þá er átt við þá sem hafa með höndum framkvæmdastjórn fyrirtækis eða framkvæmdastjórn einstakra deilda þess þegar stór fyrirtæki eiga í hlut. 

Talið hefur verið að heimild stjórnenda til starfa í verkfalli næði fyrst og fremst til stjórnunarstarfa og stjórnunarsviðs viðkomandi. Honum væri ekki heimilt að ganga í störf undirmanna sinna, nema til þess eins að geta sinnt því sem telst vera hluti af eðlilegum störfum hans. Hann gæti því gengið í störf aðstoðarmanna sinna, svo sem fulltrúa, ritara og símavarða. Réttur eigenda og stjórnenda til að vinna í verkfalli og ganga í störf undirmanna sinna í verkfalli getur að sjálfsögðu takmarkast af lögvernduðum starfsréttindum verkfallsmanna.

Nokkrir dómar hafa fallið á undanförnum árum, sem breytt hafa þessari mynd. Af þeim má draga þá ályktun að framkvæmdastjóri eða æðsti yfirmaður í fyrirtæki geti gengið í hvaða störf sem er í fyrirtækinu, án tillits til þess hvort þau störf geti talist heyra undir starfssvið hans. Í verkfalli geti því framkvæmdastjóri haldið úti starfsemi fyrirtækis með því að hlaupa í skarðið. Sá dómur sem gengur lengst er Hrd. 1994:367. Deilt var um rétt forstjóra Flugleiða hf. til að annast afgreiðslu farþega og afhendingu brottfararspjalda í flug. Einstaklingur sem hugðist fara í flug erlendis höfðaði skaðabótamál gegn stéttarfélagi sem hélt uppi verkfallsvörslu í flugstöð og kom í veg fyrir að forstjóri fyrirtækisins sem hafði tekið sér stöðu við afgreiðsluborð við innritun og afhendingu brottfararspjalda farþega gæti sinnt þeirri afgreiðslu. Taldi maðurinn að félagið hefði með ólögmætum hætti hindrað för sína. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það bryti ekki í bága við ákvæði í lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eða aðrar réttarreglur að forstjóri Flugleiða hf. innti af hendi framangreind störf í stað undirmanna sinna í verkfalli félagsmanna stéttarfélagsins. Voru manninum dæmdar skaðabætur af þessu tilefni.

Í Hrd. 1991:443 voru atvik svipuð og í framangreindu máli. Stéttarfélag var í verkfalli og hélt uppi verkfallsvörslu í flugafgreiðslu. Var deilt um það hvort umdæmisstjóri Flugleiða á Akureyri hefði haft heimild til að afgreiða farþega í flug, og með því móti ganga í störf undirmanna sinna sem voru í verkfalli. Undirréttur leit svo á að umdæmisstjóranum hefði verið heimilt að ganga í störf undirmanna sinna við afgreiðslustörf eins og önnur störf við afgreiðslu flugvélarinnar og atbeina starfsmanna félagsins sem var í verkfalli hafi ekki þurft til að farþegi gæti farið út í flugvél og fengið þar fyrirgreiðslu.

Í Félagsdómi 4/1987 (IX:182) var deilt um rétt hluthafa til að vinna í verkfalli verkfræðinga. Ekki var deilt um það hvort þeir væru að ganga í störf undirmanna sinna þar með, heldur hvort þeim væri skylt að leggja niður störf í verkfallinu. Þar var dæmt að auk framkvæmdastjóra mætti aðstoðarframkvæmdastjóri, stjórnarmenn og þeir hluthafar sem voru félagsmenn í félagi atvinnurekenda halda áfram störfum sínum. Það vekur athygli í þeim dómi að Stéttarfélag verkfræðinga viðurkenndi frá upphafi rétt framkvæmdastjórans til að vinna verkfræðistörf í verkfallinu og rýrir það fordæmisgildi hans að þessu leiti.

Í Hrd. 1986:1206  var meðal annars deilt um rétt rektors Háskólans til að opna skólahúsnæðið. Hélt BSRB því fram að hann væri með því að ganga í störf félagsmanns þess sem var í verkfalli. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að rektor hefði verið heimilt sem æðsta yfirmanni stofnunarinnar að opna húsnæðið.

Verkstjórar

Verkstjórar eru almennt í sérstökum stéttarfélögum. Verkstjórar eru sérstakir trúnaðarmenn atvinnurekenda á vinnustað. Þeim er heimilt að vinna venjubundin stjórnunarstörf í verkfalli verkafólks og er ekki heimilt að ganga í störf undirmanna sinna. 

Þeim er skylt að gæta þess verðmætis sem þeim er falin umsjón með og verja það skemmdum. Í 15. gr. félagslaga Verkstjórafélags Reykjavíkur segir að félagsmenn séu algerlega hlutlausir í kaupdeilum, hvort sem um er að ræða verkföll eða verkbönn. Í kjarasamningum þeirra er einnig að finna ákvæði um að eigi skuli verkföll eða verkbönn ein út af fyrir sig skerða rétt verkstjóra til þess að fá kaup hjá vinnuveitanda, enda er honum eftir sem áður skylt að gæta þess verðmætis sem honum er trúað fyrir og hefur umsjón með og verja það skemmdum. Verkstjórar telja að þessi ákvæði félagslaga og kjarasamninga um réttarstöðu þeirra í verkföllum hafi engin áhrif á verkfallsrétt þeirra sjálfra.

Ekki eru hins vegar allir félagsmenn verkstjórafélaganna verkstjórar. Til þess að verkfall taki ekki til þeirra verða þeir að hafa raunverulega réttarstöðu, ábyrgð og skyldur sem verkstjórar. Félagsaðildin ein undanþiggur þá þannig ekki verkafalli sbr. m.a. Féld. 19/2019 þar sem fjallað er um félagsmenn annarra stéttarfélaga en þess sem í verkfalli er.

Verktakar

Sjálfstæðir og raunverulegir verktakar eru ekki bundnir af verkföllum enda fara kjör þeirra ekki skv. lágmarkskjarasamningum sbr. m.a. Féld. 19/2019. Þeim er hins vegar eins og öðrum óheimilt að ganga í störf verkfallsmanna. Margdæmt er að lágmarks kjarasamningar taka til gerviverktaka og taka verkföll því einnig til þeirra.  Sjá nánar kaflann „Launamaður eða verktaki“ um mörkin minni raunverulegrar verktöku og gerviverktöku.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn