VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Skilyrði fyrir aðild

Sú meginregla gildir hér á landi, að „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“ eins og segir í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár. Öll mismunun af ofangreindum ástæðum hvað aðild að stéttarfélögum varðar, er því ólögmæt. Það þýðir þó ekki að óheimilt sé með öllu að setja takmarkanir á aðild að stéttarfélögum.

Allar takmarkanir á rétti til aðildar í stéttarfélagi samkvæmt 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 verða að vera almennar, lúta að tilgangi félagsins og mega ekki mismuna. Félagsdómur hefur fjallað um ýmis tilvik þar sem stéttarfélag vildi útiloka menn frá aðild. Ákveðnar meginreglur hafa verið viðurkenndar sem réttmætar takmarkanir á aðild og eiga þær sumar stoð í lagareglu, en aðrar hefur Félagsdómur staðfest að séu gildar.

Þótt 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nefni ákveðnar reglur í samþykktum félaga sem menn þurfi að uppfylla til að geta átt rétt á aðild að félagi segir lagaákvæðið sjálft ekkert til um það í hverju þessar nánar ákveðnu reglur séu fólgnar eða hvaða takmarkanir séu á þeim.

Í athugasemdum með lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, segir að það sé skilyrði fyrir því að félag njóti réttinda og verndar sem stéttarfélag að það sé opið öllu fólki, sem býr á félagssvæðinu og vinnur eða hafi heimild samkvæmt kunnáttu sinni til að vinna í þeirri starfsgrein eða iðngrein sem félagið starfar í.

Félagsdómur 1/1994 (X:149) fjallaði meðal annars um það hvort Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar væri opið öllum í hlutaðeigandi starfsgrein í deilu sem kom upp vegna réttarstöðu borgarstarfsmanna, þegar SVR var breytt í hlutafélag. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Strætisvagnar Reykjavíkur hf. væri aðili að VSÍ og þar með bundið af gildandi kjarasamningum þess við aðildarfélög ASÍ. Um þá kjarasamninga færi eftir lögum nr. 80/1938. Því uppfyllti Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar ekki það skilyrði 2. gr. laga nr. 80/1938 að vera opið öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæði þess og gæti því ekki verið lögformlegur samningsaðili samkvæmt 5. gr. þeirra laga.

2. gr. laganna ber að skilja þannig að hún eigi ekki eingöngu við um lögskipti einstaklinga og stéttarfélaga, heldur gildi hún einnig um aðild stéttarfélaga að stéttarfélagasamböndum. Á þetta reyndi í dómi Félagsdóms 1/1955 (IV:146) og 4/1961 (V:38), þegar Landssambandi íslenskra verslunarmanna var dæmd aðild að Alþýðusambandi Íslands. Upphaflega var kröfu LÍV vísað frá Félagsdómi en Hæstiréttur snéri þeirri niðurstöðu við. Þegar málið var tekið fyrir að nýju í Félagsdómi,  4/1961 (V:88), skýrði dómurinn út þær skorður sem 2. gr. laga nr. 80/1938 setur félagafrelsi stéttarfélaganna. Dómurinn segir að skilja verði þetta ákvæði svo að verið sé að tryggja launþegum almennt, að möguleikar þeirra til vinnu á hinum almenna vinnumarkaði í starfsgrein þeirra séu ekki skertir með því að stéttarfélag sem fengið hefur með kjarasamningi forgangsrétt til vinnu hjá vinnuveitendum, láti hentisemi ráða því, hvaða launþegar innan starfsgreinarinnar geti notið góðs af þeirri aðstöðu sem náðst hefur. En auk þessara starfslegu hagsmuna, sem ákvæði 2. gr. laganna taka til og miðast við, verði að telja að ákvæði hennar feli einnig í sér rétt launþegum til handa, til þess að geta með starfsemi sinni í stéttarfélagi því sem hlut á að máli, haft áhrif á hagsmunabaráttu þess í starfsgrein þeirri sem um er að ræða.

Hér að neðan eru taldir upp þættir er varða skilyrði að aðild:

Menntun og starfsréttindi

Stéttarfélag getur í lögum sínum haft ákvæði um tiltekna menntun eða starfsréttindi félagsmanna sinna. Ákvæði um menntunarkröfur er að finna í flestum samþykktum félaga faglærðra, iðnaðarmanna, yfirmanna á kaupskipaflotanum og háskólamanna. Þessi stéttarfélög eru þá félög þeirra sem uppfylla tilteknar menntunarkröfur, og eiga þeir einir oft samkvæmt lögum rétt til þeirra starfa sem félögin semja um. Sem dæmi má nefna iðnaðarlög nr. 42/1978lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa nr. 30/2007 og hjúkrunarlög nr. 8/1974.

Stundum reynist ekki unnt að fá til starfa nægilega margt fólk sem fullnægir menntunarkröfunum og hefur þá tíðkast að ráða ófaglært fólk í þau störf sem ekki er unnt að manna með faglærðum. Heimild til slíks er nú að finna í 3. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978. Sum iðnsveinafélög hafa brugðist við þessu á þann hátt að hafa í samþykktum sínum heimild til inngöngu fyrir þá sem starfa í iðninni án þess að hafa iðnréttindi og þá ýmist með þeim hætti að þeir séu fullgildir meðlimir eða aukafélagar.

Í lögum Félags bókagerðarmanna segir til dæmis að þeir einir geti orðið félagsmenn sem hafi full iðnréttindi í þeim iðngreinum sem félagið tekur til svo og óiðnlært fólk, sem rétt hefur til vinnu að framleiðslustörfum á starfssviði félagsins.

Séu menntunarskilyrði vegna aðildar að stéttarfélagi skiptir ekki máli hvort maður hefur hafið störf á félagssvæðinu eða ekki, ef maðurinn er að sækjast eftir starfi. Sjá hér Félagsdóm 27/1939 (I:35), þar sem iðnsveinafélagi var dæmt skylt að veita manni félagsréttindi, sem hafði iðnréttindi, en hafði ekki hafið störf á félagssvæðinu. Í dóminum sagði meðal annars að ekki væri hægt að fallast á það að 2. gr. laga nr. 80/1938 gæfi félaginu svo víðtækan rétt til þess að ráða því, hverjir geti orðið meðlimir í félaginu, sem það vildi vera láta, því með því móti gæti raunverulega að engu orðið sú meginregla 2. gr. að stéttarfélögin skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein. Og þar sem maðurinn hefði öðlast sveinsbréf í iðninni og væri búsettur á svæðinu og það skipti auk þess miklu máli að því er atvinnumöguleika fyrir hann varði, að njóta félagsréttinda í félaginu, bæði vegna ákvæða í lögum þess, sem banni félagsmönnum að vinna með utanfélagsmönnum, svo og vegna kjarasamninga félagsins, hafi félaginu verið óheimilt að synja honum um inngöngu í félagið. Í dómi Félagsdóms kemur ekki fram hvaða inntökuskilyrði iðnsveinafélagið hafði í samþykktum sínum, en í félagslögum margra iðnsveinafélaga er það skilyrði fyrir inngöngu að viðkomandi starfi í iðninni. Spyrja má hvort slík ákvæði kynni að leiða til annarrar niðurstöðu en í tilvitnuðum Félagsdómi og hvort þau samrýmist athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 80/1938, sem segir að félagið skuli öllum opið sem vinni eða hafi heimild samkvæmt kunnáttu sinni til að vinna í þeirri starfsgrein eða iðngrein sem félagið starfar í.

Starf

Í samþykktum félaga er yfirleitt tekið fram að skilyrði fyrir inngöngu sé að maður vinni þau störf sem félagið tekur til. Oft er einnig tekið fram að rétt til inngöngu í félagið eigi einnig þeir sem vinni hjá verkalýðshreyfingunni. Er þetta til komið í því skyni að koma í veg fyrir að þeir sem veljist til starfa fyrir félagið og verkalýðshreyfinguna missi félagsréttindi sín við það.

Á það hefur reynt hvort búfræðingur, sem vinnur almenn verkamannastörf eigi rétt til aðildar að verkalýðsfélagi, og hvort menn sem unnu við smíði á svokölluðu gervismiðakaupi án þess að hafa iðnréttindi ættu rétt til aðildar að verkalýðsfélagi. Eru dómar um þetta efni í III. bindi Félagsdóma sbr. 6/1948 (III:15) sbr. og dóma í sama bindi: 11/1948 (III:25), 12/1948 (III:28),8/1948 (III:31) og 10/1948 (III:33), þar sem verkalýðsfélagið Þór á Selfossi neitaði mönnum um inngöngu í félagið vegna þess að þeir ynnu störf iðnaðarmanna. Niðurstaða allra málanna varð sú að félaginu var skylt að veita mönnunum óskert félagsréttindi.

Loforð um starf jafngildir starfi samkvæmt greinargerð, sem fylgdi frumvarpinu til laga um stéttarfélög og vinnudeilur á sínum tíma, en þar sagði að félagið skyldi opið öllu fólki, sem vinnur eða hafi heimild samkvæmt kunnáttu sinni til að vinna í þeirri starfsgrein eða iðngrein, sem félagið starfar í. Þetta hefur Félagsdómur tekið undir samanber Félagsdómur 2/1954 (IV:77).  

Því verður að telja það almenna reglu að réttur manna til inngöngu í stéttarfélag geti ekki byggst á því hvort þeir gegni tilteknum störfum þegar þeir æskja inngöngu, heldur hvort þeir fullnægi almennum skilyrðum til inngöngunnar. Atvinnulaus verkamaður og faglærður maður sem starfar ekki í fagi sínu eiga því báðir þennan rétt.

Búseta

Í 12. gr. laga ASÍ er sérstaklega tekið fram að í samþykktum félaga innan aðildarsamtaka ASÍ megi ekki vera ákvæði sem takmarka aðild að félögum með tilliti til búsetu og lögheimilisfesti.

Þjóðerni

Takmarkanir á aðild að stéttarfélagi sem byggðar eru á þjóðerni brjóta gegn þeim reglum sem hér gilda. Fyrst ber að nefna  alþjóðlegar skuldbindingar um rétt og aðgang fólks að stéttarfélagi. Síðan er kveðið á um það í lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, að atvinnuleyfi sé veitt ef fyrir liggi umsögn stéttarfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eða viðkomandi landssambands og skriflegur ráðningarsamningur sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn. Lögin tryggja þeim útlendingum sem fá atvinnuleyfi jafnan rétt og Íslendingum til launa og starfskjara. Starfskjör geta ekki verið jöfn, ef aðild að stéttarfélagi er útilokuð. Til dæmis þarf starfsmaðurinn að eiga aðgang að sjúkrasjóðum stéttarfélagsins svo að hann teljist njóta sambærilegra kjara.

Um ríkisborgara samningsaðila samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sem hefur lagagildi hér á landi samkvæmt 2. gr.laga nr. 2/1993 gildir bann við mismunun. Í 4. gr. samningsins segir að hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs sé bönnuð á gildissviði samningsins nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

Sérstök lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr.47/1993 tryggja ríkisborgurum EES ríkja aðgang að sameiginlegum vinnumarkaði. Þar er bann við mismunun á grundvelli þjóðernis ítrekað.

Aldur

Aldursskilyrði geta bæði tekið til lágmarksaldurs til inngöngu og hámarksaldurs. Almennt er miðað við það í stéttarfélögum að fullgildir félagsmenn þurfi að hafa náð 16 ára aldri en að þeir sem yngri eru og taka laun skv. kjarasamningum félagsins hafi stöðu aukafélaga.

Ákvæði um tiltekinn hámarksaldur félaga eru ekki algeng en ekki óalgengt að félagsmenn 67 ára og eldri sem hættir eru störfum haldi félagsréttindum þó þeir greiði ekki félagsgjöld enda hafi þeir verið fullgildir félagsmenn við starfslok.

Í Félagsdómi 5/1972 (VII:57) var deilt um uppsögn sjötugs trúnaðarmanns. Þar var uppsögnin dæmd lögmæt og kom fram í niðurstöðum dómsins að eigi væri komið fram að lagareglur, venja né kjarasamningar skjóti loku fyrir lögmæti slíkra ákvarðana um hámarksaldur starfsmanna. Verði trúnaðarmenn stéttarfélaga jafnt sem aðrir að hlíta þessum aldursmörkum. Með hliðsjón af þessum dómi virðist mega telja að stéttarfélögum sé stætt á slíkum reglum í lögum sínum, að minnsta kosti meðan ekki er sýnt að þær hindri menn frá störfum.

Til hliðsjónar er bent á Hrd. 1993:1217, mál leigubifreiðastjóra gegn samgönguráðherra og fleirum, sem fjallaði um tiltekinn hámarksaldur sem skilyrði fyrir leyfi til leigubifreiðaaksturs, en bílstjórinn hafði áður fengið leyfið án slíkra skilyrða, og hvort verið væri að brjóta atvinnufrelsi manna. Hæstiréttur taldi skilyrðið, sem sett var með lögum, standast.

Samkvæmt 7. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001, fellur atvinnuleyfi úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til atvinnuleyfishafi nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leigubifreiðaakstur.

Aðild að tveimur eða fleiri stéttarfélögum

Ekki er í landslögum að finna bann við því að einstaklingur geti verið félagsmaður í fleiri en einu félagi. Í 7. gr. laga ASÍ (2006) segir að ekkert félag innan ASÍ megi taka inn félaga, sem er skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í ASÍ, eða hefur verið vikið úr sambandsfélagi, nema til komi leyfi stjórnar þess félags er hann var áður í. Um þetta er fjallað hér á eftir.

Einstaklingur, sem vinnur fleiri en eitt starf, og greiðir félagsgjöld til fleiri en eins stéttarfélags, á beina hagsmuni af því að taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamning um öll störfin, en ekki bara eitt starfanna. Hann á einnig hagsmuni af því að hafa áhrif á forystu félagsins og af því að njóta verndar þess og þeirra réttinda sem aðild fylgja.

Í Félagsdómi 2/1942 (I:190) var fjallað um rétt manns til aðildar að stéttarfélagi en honum hafði verið synjað um inngöngu þar sem hann var félagi í öðru stéttarfélagi í sömu starfsgrein á sama félagssvæði. Dómkröfur mannsins voru teknar til greina og niðurstaðan studd þeim rökum að réttur verkafólks samkvæmt 2. gr. laga nr. 80/1938 til þess að krefjast inngöngu í stéttarfélag í starfsgrein þess, geti ekki verið því skilyrði bundinn að það sé ekki í öðru verkalýðsfélagi í sömu starfsgrein á sama stað. Tilgangur löggjafans með þessu ákvæði virðist vera sá að tryggja verkamönnum það að afkomu- og atvinnumöguleikum þeirra geti ekki verið spillt með því að láta það vera að öllu leyti komið undir geðþótta verkalýðsfélaganna, hverjum þau veiti viðtöku í félagsskap sinn. Og þótt stéttarfélögin séu fleiri en eitt í sömu starfsgrein, getur það skipt einstaka verkamenn miklu að geta verið í fleirum en einu þeirra, meðal annars vegna samninga stéttarfélaganna um forgangsrétt að vinnu hjá atvinnurekendunum. Niðurstaðan er afdráttarlaus.

Óbættar sakir

Lög ASÍ (2006) kveða á um það í 7. gr. að ekki megi neitt félag innan sambandsins taka inn félaga, sem sé skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í ASÍ, eða hefur verið vikið úr sambandsfélagi, nema til komi leyfi stjórnar þess félags, er hann var áður í.  

Í samræmi við þetta hafa mörg aðildarfélög sambandsins þetta inntökuskilyrði í lögum sínum. Skilyrðið er tvíþætt, annars vegar það sem lýtur að skuldum mannsins við fyrra félag, og hins vegar brot sem maðurinn hefur gerst sekur um gagnvart fyrra félagi.

Gunnars Sæmundsson hrl. telur í grein sinni „Stéttarfélög í skilningi laga nr. 80/1938 og aðild að þeim og stéttarfélagasamböndum“ (Úlfljótur, 1. tbl. 1989) það mjög hæpið að heimilt sé að gera það að skilyrði fyrir inngöngu í stéttarfélag að umsækjandi sé skuldlaus við annað félag. Kröfur þriðja aðila á sviði fjármunaréttar ætti ekki að nota til að varna mönnum að ná mannréttindum. Taka verður undir þetta sjónarmið. Einnig ber að hafa í huga, að skv. kjarasamningum ber atvinnurekendum að innheimta gjöld til stéttarfélaganna og afdráttur þeirra jafngildir greiðslu gjaldsins, óháð því hvort þeim hefur verið skilað eða ekki. Stéttarfélögin hafa treyst atvinnurekendum fyrir innheimtunni og verða að bera áhættuna af skilum þeirra frá innheimtuaðila. 

Öðru máli gegnir um félagsmann í stéttarfélagi sem brotið hefur gegn félagi sínu með þeim hætti að lögmætt hafi verið að vísa honum úr því og ekki bætt fyrir brot sitt. Það hlýtur að teljast gild ástæða fyrir aðild að félagi að menn standi ekki í óbættum sökum vegna brota gegn fyrra félagi. Sjá hér Félagsdóma 3/1956 (IV:123) og 4/1956 (IV:129). Þar sagði dómurinn meðal annars að það yrði ekki talin óeðlileg framkvæmd er maður óski inngöngu í verkalýðsfélag, að fyrir liggi glögg gögn um félagslega afstöðu umsækjanda til annarra verkalýðsfélaga.

Atvinnurekstur

Stéttarfélög eru félög launafólks, og gert ráð fyrir þeim sem andstæðu atvinnurekenda eða atvinnurekendafélaga samanber Félagsdóm 5/1949 (III:89). Af þessu leiðir að atvinnurekendur geta ekki átt aðild að þeim. 

Spurning getur vaknað hvort hlutafjáreign manns í fyrirtæki geti komið í veg fyrir aðild hans að stéttarfélagi. Verður þá að meta það hverju sinni hvar hagsmunir mannsins liggja, hvort hann eigi aðild að stjórn fyrirtækisins, hvort hann kemur fram út á við sem fulltrúi atvinnurekanda og svo framvegis. Í Félagsdómi 6/1973 (VII:112) var hlutafjáreign sveins í járniðnaði í vélsmiðju sem hann starfaði í ekki talin því til hindrunar á nokkurn hátt að hann nyti fullra félagsréttinda í járniðnaðarmannafélagi er var viðsemjandi hlutafélagsins.

Í samþykktum nokkurra verkalýðsfélaga eru ákvæði í þessa veru. Yfirleitt segir aðeins að atvinnurekendur geti ekki orðið aðilar né verkstjórar sem eingöngu stunda verkstjórn. Við mat á því við hvað skuli miða, þegar meta skal hvort einstaklingur stundi atvinnurekstur eða ekki er rétt að skoða hvert einstakt tilvik, meðal annars það hvort starfsmaður, sem jafnframt er hluthafi í fyrirtæki, hefur stjórnunarleg afskipti af félaginu, hver stærð félagsins er og fleiri þætti.

Á síðustu árum hefur vaxið sá fjöldi einstaklinga sem tekið hafa stöðu á vinnumarkaði án þess að uppfylla hefðbundin skilyrði til þess að kallast launamenn eða atvinnurekendur. Um er að ræða einstaklinga sem starfa einir og að jafnaði er um háskólamenntaða eða mjög sérhæfða einstaklinga að ræða. Í lögum nokkurra aðildarfélaga ASÍ er nú gert ráð fyrir heimild einyrkja til aðildar með takmörkuð félagsleg réttindi t.d. hvað varðar kjörgengi og kosningarétt um kjarasamninga. 

Kynferði

Í upphafi 20 aldar höfðu verið stofnuð sérstök stéttarfélög verkakvenna og sömdu þau um kaup og kjör sinna félagskvenna en undir lok aldarinnar höfðu þau öll sameinast almennum stéttarfélögum beggja kynja. Samkvæmt skýrum ákvæðum 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár er hvers kyns mismunun eftir kynferði óheimil sem á vinnumarkaði endurspeglast m.a. í skýru ákvæði 22. gr.laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Í 13. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Önnur tilvik

Reynt hefur á það fyrir Félagsdómi hvort sú takmörkun á inngöngu í félag að setja það að skilyrði fyrir inngöngu í félagið að félagsmenn hafi afgreiðslu fyrir bifreiðar sínar á þeirri vörubílastöð sem félagið sjálft starfrækir. Í Félagsdómi 6/1954 (IV:87) var deilt um þetta og taldi dómurinn þetta löglega takmörkun.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn