VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Orlof – veikindi og slys

Veikindi og slys koma í veg fyrir orlofstöku

Í 6. grein orlofslaganna nr. 30/1987 segir að geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skv. 5. gr. skuli hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn skv. 5. gr. en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur.

Þetta ákvæði kom með orlofslögum nr. 16/1943 og hefur að mestu verið óbreytt síðan. Í greinargerð með 11. gr. l. 16/1943 segir: “Þegar starfsmaður getur ekki farið í orlof á tímabilinu 1. júní til 15. september vegna veikinda, þykir sjálfsagt að hann fái frest í því efni, en rétt þykir þó að setja því takmörk.”

Lagaákvæði þetta ætti ekki að valda erfiðleikum í túlkun og felur einfaldlega í sér frestun á orlofstökunni. Engu skiptir hvort launamaðurinn á rétt til veikindalauna þennan tíma eða ekki enda tilgangur ákvæðisins eingöngu sá að tryggja það að launamaðurinn fái notið orlofsins nokkuð heill heilsu. Með öðrum orðum þá fjallar þetta ákvæði ekki um laun í veikindum eða aðra skaðabót. Meðan veikindi fyrir orlofstöku standa nýtur hann réttinda skv. veikindaréttarkafla kjarasamninga.

Í þessu efni gilda sömu reglur um veikindi og slys i orlofi enda skapa slys utan vinnutíma sama rétt og veikindi. Umfjöllun þessa kafla, þar sem vísað er til veikinda á því einnig við um slys.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn