Almennt hefur verið litið svo á að heimilt væri að segja starfsmanni upp störfum þótt hann sé í veikindafríi með þeirri takmörkun að áunninn réttur hans til veikindalauna sé ekki skertur. Sjá t.d. Hrd. 1994:1109, 128/2010 og 121/2013.
Nánar er fjallað um tengsl uppsagna, veikinda og slysa í kaflanum um Hugtakið uppsögn ( Réttaráhrif uppsagna ).
Ef starfsmaður er í launalausu leyfi, getur vaknað sú spurning hvort hægt sé að segja honum upp starfi á meðan. Hann hafi með samningi um launalaust leyfi skuldbundið sig til að koma aftur til starfa einhvern tiltekinn dag og því megi líkja réttarstöðu hans við réttarstöðu manns sem ráðið hefur sig tímabundið til starfa.
Úr þessu álitamáli skar Félagsdómur í máli nr. 12/1992. Dómurinn sagði að maður sem tekur leyfi frá störfum án launa njóti ekki meiri verndar en aðrir starfsmenn fyrir almennum uppsögnum. Samkvæmt þessu er hægt að segja upp starfsmönnum sem fengið hafa launalaust leyfi með sama uppsagnarfresti og öðrum starfsmönnum, þrátt fyrir samkomulag um launalaust leyfi.