VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Samkeppnisákvæði

Í sumum atvinnugreinum hefur það færst í vöxt að atvinnurekendur geri þá kröfu til starfsmanna að þeir undirriti yfirlýsingu þess efnis í ráðningarsamningi að komi til starfsloka muni þeir ekki hefja störf hjá samkeppnisaðilum eða eftir atvikum ekki stofna sjálfir til atvinnurekstrar í samkeppni við sinn fyrri vinnuveitanda. Slík ákvæði skerða atvinnufrelsi launamanns sem nýtur verndar stjórnarskrárinnar og ber að túlka heimildir atvinnurekenda að þessu leyti þröngt. Jafnframt verða slík ákvæði að vera skýr og ótvíræð sbr. t.d. Hrd. 18/20201. Í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá því í febrúar 2008 voru tekin upp sérstök ákvæði um þessi samkeppnisákvæði.

Í kjarasamningunum segir að ákvæði í ráðningarsamningum sem banni starfsmönnum að ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðilum vinnuveitenda séu óskuldbindandi séu þau víðtækari en nauðsynlegt er til að varna samkeppni eða skerða með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi starfsmannsins.  Meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort svo er að teknu tilliti til allra atvika. Samkeppnisákvæði mega því ekki samkvæmt þessu vera of almennt orðuð.

Í kjarasamningunum eru sett fram viðmið við mat á því hversu víðtæk samkeppnisákvæðin mega vera, einkum hvað  varðar gildissvið og tímamörk.

Horfa þarf í þeim efnum til eftirfarandi þátta:

  • Hvers konar starfi viðkomandi starfsmaður gegnir, t.d. hvort hann er lykilstarfsmaður, er í beinu sambandi við viðskiptamenn eða ber ríka trúnaðarskyldu. Einnig hvaða vitneskju eða upplýsingar starfsmaðurinn kann að hafa um starfsemi fyrirtækisins eða viðskiptamenn þess.
  • Hversu hratt þekking starfsmannsins úreldist og hvort gætt sé eðlilegs jafnræðis milli starfsmanna.
  • Hvers konar starfsemi er um að ræða og hverjir eru samkeppnisaðilar á þeim markaði sem fyrirtækið starfar og þekking starfsmanns nær til.
  • Að atvinnufrelsi starfsmanns sé ekki skert með ósanngjörnum hætti.
  • Að samkeppnisákvæðið sé afmarkað og hnitmiðað í því skyni að vernda ákveðna samkeppnishagsmuni.
  • Þá hefur einnig áhrif hvaða umbun starfsmaður fær, t.d. hver laun hans eru.

Fram kemur í kjarasamningum að samkeppnisákvæði ráðningarsamninga gildi ekki sé starfsmanni sagt upp störfum án þess að hann hafi sjálfur gefið nægilega ástæðu til þess.

Samningalög

Í 37. gr. samningalaga nr. 7/1936 er ennfremur sérstaklega kveðið á um skuldbindingargildi samkeppnisákvæði. Í ákvæðinu segir að hafi maður í því skyni að varna samkeppni, áskilið sér hjá öðrum manni að sá maður reki ekki verslun eða aðra atvinnu eða hann ráði sig ekki til starfa við slíkt fyrirtæki þá er það loforð eigi bindandi fyrir þann mann ef telja verður þegar litið er til allra atvika að skuldbindingin sé víðtækari en nauðsynlegt er til að varna samkeppni eða hún skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess manns sem tókst þessa skyldu á herðar.  Þá kemur fram í ákvæðinu að hafi starfsmaður við verslun eða annað fyrirtæki tekið á sig slíka skuldbindingu gagnvart þeim sem rekur fyrirtækið og skuldbinding hans á að gilda eftir að ráðningu hans við fyrirtækið er lokið þá er skuldbindingin ógild ef honum er sagt upp stöðunni eða vikið úr henni án þess að hann hafi sjálfur gefið nægilega ástæðu til þess  eða hann fer úr stöðunni vegna þess að sem atvinnurekandinn vanefnir skyldur sínar við hann. 

Allnokkur mál hafa komið til kasta dómstóla þar sem tekist hefur verið á um skuldbindingargildi slíkra samkeppnisákvæða.

Í Hrd. nr. 18/2021 taldi Hæstiréttur skorta á skýrleika ákvæðis auk þess sem að almennar trúnaðarskyldur hefðu ekki verið brotnar en atvinnurekandi var talinn bera sönnunarbyrði þar um. 

Í Hrd. nr. 414/2008 var fjallað um mál starfsmanns sem starfaði m.a. sem rekstrarstjóri hjá ES ehf. sem rak verslanir á sviði ritfanga en í ráðningarsamningi hans var ákvæði þess efnis að honum væri ekki heimilt í tvö ár eftir starfslok hjá ES ehf. að hefja störf hjá samkeppnisaðila á sama rekstrarsviði og að brot á því varðaði févíti allt að 10% af föstu mánaðarkaupi fyrir hvern dag. Starfsmaðurinn sagði starfi sínu lausu og réð sig þremur mánuðum síðar til A. Þótti ljóst að A hafi verið samkeppnisaðili ES ehf. Samkeppnisákvæðið hafi verið í gildi og hafi ekki verið víðtækara en nauðsynlegt var til að varna samkeppni og gildistími þess hæfilegur. Ákvæðið hafi þannig ekki skert atvinnufrelsi starfsmannsins með óhæfilegum hætti. Hæstiréttur féllst á það með atvinnurekandanum að persónuleg tengsl einstakra sölumanna við stóran hluta viðskiptavina félagsins kunni að hafa skapað nauðsyn á að varna því að þeir réðu sig til keppinauta hans og tækju með sér viðskipti. Leit dómurinn því svo á að ekki væru skilyrði til að telja loforð starfsmannsins óskuldbindandi með tilliti til m.a. 37. gr. samningalaga. Aftur á móti var litið svo á, miðað við stöðu starfsmannsins og þá hagsmuni sem gátu verið í húfi fyrir ES ehf. að umsamin fjárhæð févítis hafi verið úr hófi.

Í Hrd. nr. 356/2007 krafðist TM þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 4. maí 2007 og lagt fyrir hann að leggja lögbann við því að Ó starfaði eða sinnti öðrum verkefnum fyrir V á tilteknu tímabili. Með ráðningarsamningi TM og Ó 19. desember 2006 samþykkti Ó að takast ekki á hendur starf eða verkefni, í sex mánuði eftir að hann léti af störfum af eigin frumkvæði, á sama sviði og starf það sem hann sinnti hjá TM, þannig að í bága færi við samkeppnishagsmuni félagsins. Ó lét af starfi sínu hjá TM 12. mars 2007 og hóf störf hjá V skömmu síðar. Sinnti hann þar sams konar störfum og hann hafði haft með höndum hjá TM. Hæstiréttur taldi samkvæmt þessu og með því að fullnægt var að öðru leyti skilyrði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. bæri að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns og honum gert að leggja lögbann við því að Ó starfaði hjá V til og með 12. desember 2007.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn