VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Aldur

Á undanförnum árum hefur einnig aukist áhersla á bann við mismunun á grundvelli aldurs og hefur Evrópudómstóllinn skýrt mjög þá grundvallarreglu inn Evrópuréttarins og gildi tilskipunar 2000/78/EB (jöfn meðferð á vinnumarkaði) m.a. þannig að hún geti ráðið niðurstöðu í viðskiptum einstaklinga (bein réttaráhrif) þrátt fyrir andstætt ákvæði í landsrétti sbr. t.d. dóm í málinu C-441/14.  Íslandi var hins vegar ekki skylt að innleiða þessa tilskipun né heldur tilskipun 2000/43/EB (jöfn meðferð án tillits til kynþáttar eða þjóðernis) en gerði það með lögum nr. 86/2018 og lög nr. 85/2018.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 86/2018 er óheimilt að mismuna á grundvelli aldurs. Mismunandi meðferð vegna aldurs telst ekki brjóta gegn lögum þessum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Þá gilda lögin ekki í tengslum við lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum. Bannið nær til mismununar um starf, stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna. Aldursreglan tók gildi 1. júlí 2019. Í kjölfar þess voru aldursskilyrði í kjarasamningi afnumin, svo sem við ávinnslu orlofsréttar.  

Á bann við mismunum vegna aldurs í vinnurétti reyndi í úrskurði kærunefndar jafnréttismála, mál nr. 6/2021. Alþýðusamband Íslands kærði fyrir hönd Þ þá ákvörðun Isavia ANS ehf. að segja upp Þ á grundvelli starflokaaldursreglu sem kvað á um starfslok við 67 ára aldur. Málavextir eru þeir að Þ hafði starfað um langt skeið hjá Isavia. Ráðningarsamningur kvað á um starflok við 70 ára aldur eða reglur Isavia á hverjum tíma. Í maí 2020, eða eftir að Covid faraldur skall á hérlendis var Þ tilkynnt að starfslokareglum hafi verið breytt og þær færðar niður í 67 ára aldur, en þá hafði Þ þegar náð þeim aldri. Þ barst aldrei formlegt uppsagnarbréf. Fyrir kærunefnd upplýsti Isavia um að ástæður tilfærslu á starfslokaaldri, var að ráðast þurfti í umfangsmiklar uppsagnir sökum breytingar í rekstri í kjölfar Covid. Var ákveðið að lækka starfslokaaldurinn þar sem það þótti minna inngrip að fólk sem gæti átt rétt til lífeyris missti starf sitt fremur en ungt fólk með miklar skuldbindingar. Kærunefndin taldi að umrædd uppsögn fæli í sér brot á 7. gr. laga nr. 86/2018 þar sem ljóst var að eina ástæða uppsagnar var aldur Þ og að ekki fælist í ákvörðuninni málefnaleg sjónarmið, sem helgast hafi af lögmætu markmiði sem ekki var hægt að ná með öðru og vægara móti.

Úrskurðurinn gefur ákveðið fordæmisgildi í vinnuréttar- og jafnréttismálum. Viðbúið er að áhrif hans verði áþreifanleg á íslenskum vinnumarkaði.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn