Til að hægt sé að rifta ráðningarsamningi verður brot að vera verulegt. Meginskyldur ráðningarsamnings eru skyldur atvinnurekanda um launagreiðslur og skyldur launamanns um vinnuframlag. Séu þær skyldur brotnar, laun til dæmis ekki greidd í einhvern tíma eða starfsmaður neitar að framkvæma starf sem hann er beðinn um, má telja slíkt verulega vanefnd á ráðningarsamningi. Meiri vafi leikur á vanefnd eins og þeirri að starfsmaður hefur þrásinnis mætt 10 mínútum of seint í vinnu eða launagreiðandi hefur um nokkurt skeið greitt laun út tveimur dögum eftir mánaðamót. Sé ekki gerð athugasemd, aðvörun eða áminning strax, og í beinu framhaldi af brotinu, kann sá sem brotið er á að glata rétti til að bera brotið fyrir sig vegna tómlætis.
Almennt má telja að einungis gróf brot, og þannig verulegar vanefndir, veiti aðilum rétt til riftunar á ráðningarsamningi, brot sem unnin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, en minni háttar yfirsjónir og mistök myndu ekki falla hér undir.
Brot starfsmanns í síðasta mánuði myndi tæplega veita atvinnurekanda heimild til að víkja honum úr starfi í dag. Tæplega myndi áminning gefin fyrir ári heldur geta talist grundvöllur fyrirvaralauss brottreksturs úr starfi í dag, hafi atvinnurekanda verið kunnugt um brotið. Algengt er að trúnaðarmenn séu kallaðir til ef víkja á manni úr starfi vegna brots.