VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Brottfall friðarskyldu

Í Félagsdómi 3/1961 (V:8) segir að telja verði að það sé grundvallarregla, að óheimilt sé að beita vinnustöðvun til þess að knýja fram breytingar á kjarasamningi sem er gildur og bindandi fyrir samningsaðila. Þetta er meginreglan um friðarskylduna.  Um leið og kjarasamningur fellur niður fellur friðarskyldan jafnframt almennt niður. Þetta þarf þó að athuga í hverju tilviki fyrir sig.

Uppsögn samnings

Algengasta brottfall kjarasamnings á sér stað fyrir uppsögn.  Samkvæmt 6. gr. laga nr. 80/1938 skal tilgreina samningstíma og uppsagnarfrest í kjarasamningi. Sé það ekki gert telst samningstíminn eitt ár og uppsagnarfrestur 3 mánuðir. Í greininni segir einnig að sé samningi ekki sagt upp framlengist hann sjálfkrafa um eitt ár eða þann tíma sem samningurinn segir sjálfur til um.  Almennt er því gert ráð fyrir því að kjarasamningur falli ekki sjálfkrafa niður, heldur þurfi að segja honum upp.

Sé formskilyrðum um uppsögn því gætt fellur friðarskylda almennt niður  þegar samningi hefur verið sagt upp.
 
Samningur rennur út

Áður var litið svo á, út frá reglunni í 6. gr. laga nr. 80/1938, að kjarasamningur sem hefði ákvæði um það að hann félli niður ákveðinn dag myndi engu að síður framlengjast, ef honum væri ekki sagt upp með réttum fyrirvara. Í seinni tíð hafa aðilar vinnumarkaðarins í auknum mæli farið þá leið að semja um gildistíma og hafa tekið fram að frá tilteknum degi sé kjarasamningur fallinn úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Það orðalag hefur ekki valdið ágreiningi og er litið svo á að ekki þurfi sérstaka uppsögn til að slíta samningum þegar þetta orðalag er notað. Þegar samningur er þannig runninn út fellur friðarskyldan niður.
 
Getur friðarskyldan náð út fyrir gildistíma kjarasamnings ?

Kjarasamningar kunna að kveða á um það að tiltekin ákvæði þeirra gildi áfram í samskiptum þrátt fyrir uppsögn samnings.  Í kjarasamningi ÍSAL er ákvæði um vinnustöðvanir í gr. 8.3.  Ákvæðin lúta að því að lengja aðdraganda vinnustöðvunar frá því sem lög um stéttarfélög og vinnudeilur kveða á um. Í niðurlagsákvæði greinarinnar segir að ákvæðið haldi gildi sínu, þrátt fyrir uppsögn samnings, uns nýr samningur hefur verið gerður.  

Fleiri dæmi eru til um að stéttarfélög semji sín í milli um framkvæmd vinnustöðvunar, og semji jafnvel af sér réttinn til að boða verkfall. Slíkt einhliða afsal kann að orka tvímælis.  

Í dómi Félagsdóms 8/1961 (V:16) voru málavextir þeir að í kjarasamningi milli stéttarfélags verkfræðinga og VSÍ var ákvæði um það að yfirverkfræðingar hefðu ekki verkfallsrétt. Þegar samningnum var sagt upp hélt VSÍ því fram að umrætt ákvæði hefði átt að gilda þótt samningnum hefði verið sagt upp, það er út fyrir gildistíma samningsins. Félagsdómur sagði um þetta meðal annars að ekki sé óeðlilegt að líta á slíkt ákvæði sem ótímabundna yfirlýsingu af hálfu stéttarfélagsins þess efnis, að félagið skuldbindi sig til þess að yfirverkfræðingur leggi ekki niður vinnu í kjaradeilu við þá vinnuveitendur sem að samningum standa. En þrátt fyrir þessi rök væri það þó álit dómsins, svo frábrugðið venjulegum reglum um uppsögn og gildistíma kjarasamnings og óvenjulegt í viðskiptum stéttarfélaga og vinnuveitenda, ef aðili kjarasamnings gæti ekki losnað við samningsskuldbindingar sínar með því að segja þeim upp með hæfilegum lögbundnum eða samningsbundnum uppsagnarfresti, en þyrfti að eiga það undir gagnaðila sínum hvort eða á hvern hátt hann gæti losnað við samningsskyldur sínar, að telja verði að um slíka skuldbindingu þurfi að vera skýlaus og ótvíræð ákvæði í samningnum sjálfum. Samkvæmt dóminum er slík rýmkun á friðarskyldunni heimil, jafnvel út fyrir gildistíma kjarasamningsins, en hún þarf að vera skýr og ótvíræð, þar sem þetta er  undantekning frá meginreglunni um það að friðarskyldan fellur niður um leið og kjarasamningurinn.

Veruleg vanefnd

Séu þau tilvik til staðar að kjarasamningur fellur brott áður en gildistími hans er liðinn vegna verulegrar vanefndar, fellur friðarskyldan niður frá þeim tíma.

Brostnar forsendur

Falli kjarasamningur niður vegna brostinna forsendna, fellur friðarskyldan niður. Gildir þetta jafnt um brottfall kjarasamnings vegna forsendna sem samið hefur verið um í kjarasamningnum sjálfum, og eins vegna reglna samningaréttarins um ósamningsbundin atriði, sem eru veruleg forsenda samningsins.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn