Gildissvið kjarasamnings fer eftir þeirri starfsgrein sem samningurinn tekur til en ekki aðild einstaklings að stéttarfélagi. Er þessi regla byggð á 1. gr. laga 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Hvaða störf falla þá undir viðkomandi kjarasamning?
Byggist á samningnum sjálfum
Samningurinn sjálfur kann að geyma ákvæði um það til hvaða starfa hann nær. Þannig segir í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna að samningurinn gildi fyrir öll skip sem gerð eru út til eftirgreindra veiða (sem svo eru talin upp í samningnum) og tekur til allra slíkra skipa, sem útgerðarmenn er að samningnum standa, eiga, leigja eða hafa að öðru leyti útgerðarstjórn á.
Í kjarasamningi Félags bókagerðarmanna og SA er gildissviðið hvers konar framleiðslu í prentsmiðjum, prentþjónustum og bókbandsstofum, sem unnin er af fullgildum sveinum í bókbandi, prentsmíð og prentun, eða af ófaglærðu starfsfólki samkvæmt nánari ákvæðum samningsins. Þá segir í yfirlýsingu sem fylgir samningnum að samningsaðilar séu sammála um, að útlitsteikning dagblaða skuli vera sameiginlegt starfssvið setjara og blaðamanna og að starfskjör þeirra, sem við útlitsteiknun vinna, séu þau sömu.
Víða er þó ekkert minnst á gildissvið kjarasamnings í samningnum sjálfum, heldur er hann gerður milli tiltekins stéttarfélags og atvinnurekanda, og í samþykktum félagsins er síðan kveðið á um það hverjir hafi rétt á að vera í félaginu. Þannig eru það lög stéttarfélagsins sem gilda um það til hvaða starfa kjarasamningur nær. Í lögum Eflingar-stéttarfélags, 2. gr., eru talin upp þau störf sem falla undir gildissvið félagsins. Kjarasamningar sem félagið gerir ná síðan til þessara starfa.
Hefðin rík hér á landi
Gildissvið kjarasamninga kann auk kjarasamninga og ákvæða í samþykktum félaga að byggjast á hefð. Hefðin getur síðan verið mismunandi milli einstakra staða, til dæmis hefur Verslunarmannafélag Akureyrar og nágrennis haft bensínafgreiðslumenn innan sinna vébanda þegar Efling (áður Dagsbrún í Reykjavík) hefur verið félag bensínafgreiðslumanna í höfuðborginni.
Oft samkomulag milli félaga um grátt svæði
Sums staðar hefur orðið samkomulag milli stéttarfélaga um það hvaða félag semji við einstök fyrirtæki.
Þannig má finna dæmi um starfsmenn sem gegna sambærilegum störfum í matvælaiðnaði í fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu í Eflingu og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Kjarasamningar allra félaganna geta náð til þeirra starfa sem um ræðir. Það hvernig stéttarfélagsaðildin er byggist þá á hefð, sem staðið hefur mislengi. Um þetta er almennt gott samkomulag milli félaganna.
Þó hefur það gerst á undanförnum árum að þegar ný atvinnugrein verður til, deila félögin innbyrðis um það til hvaða stéttarfélags störfin skuli heyra, ýmist þannig að þau vilja fleiri en eitt helga sér hin nýju störf eða að þau vilja ekki sinna þeim. Dæmi um hið fyrrnefnda eru starfsmenn öryggisgæslufyrirtækja, dæmi um hið síðarnefnda eru starfsmenn sólbaðsstofa og heilsuræktarstöðva.
Mörkin geta einnig verið á reiki milli starfsmannafélaga einstakra sveitarfélaga og viðkomandi verkalýðsfélaga. Ófaglærðir starfsmenn leikskóla eru til dæmis sums staðar bæjarstarfsmenn og eiga þá aðild að starfsmannafélagi bæjarins en annars staðar eru þeir í verkalýðsfélaginu á staðnum.
Samningur nær til ófélagsbundinna jafnt sem félagsbundinna sem vinna tiltekin störf
Gildissvið kjarasamnings er eins og áður er komið fram óháð félagsaðild. Það byggist fyrst og fremst á kjarasamningnum, sem síðan á sér stoð í lögum eða samþykktum stéttarfélagsins sem hann gerir. Réttur manns til að vinna eftir tilteknum kjarasamningi er ekki bundinn félagsaðildinni. Leiðir þetta af reglunni í 1. gr. starfskjaralaganna nr. 55/1980. Hins vegar fylgja ýmis réttindi félagsaðildinni, eins og atkvæðisréttur í innri málefnum félagsins og kjörgengi til trúnaðarstarfa á vegum þess.
Faglærðir og ófaglærðir
Það fer eftir kjarasamningnum sjálfum hvert gildissvið hans er. Það hvort hann nái bæði til faglærðra og ófaglærðra, ræðst af því hvaða stéttarfélög gera samninginn. Sum stéttarfélög semja eingöngu fyrir faglærða, eins og reyndin er um flest iðnaðarmannafélögin, en önnur iðnaðarmannafélög semja einnig um kjör ófaglærðra, svo sem Félag bókagerðarmanna. Enn önnur félög greina ekki á milli menntunar fólks, og semja fyrir hópinn allan án slíkrar aðgreiningar. Í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur er þannig bæði að finna fólk, sem hefur enga menntun og einnig fólk, sem hefur langskólanám að baki.
Skipulag verkalýðshreyfingarinnar hefur verið með þeim hætti hér á landi að starfsgreinafélög þekkjast vart með þeim hætti sem algengast er í nágrannalöndunum. Hjá einu meðalstóru fyrirtæki hér á landi eru skrifstofumenn í sérstöku félagi, trésmiðir í öðru félagi, rafvirkjar í því þriðja, verkstjórar eru sér, sömuleiðis verkakarlar svo og verkakonur. Víðast hvar erlendis væru allir þessir aðilar í einu stéttarfélagi.
Gildissvið kjarasamnings iðnaðarmannafélags getur byggst á reglugerð um iðnfræðslu og þeim skilgreiningum sem liggja að baki því hvað tilheyrir iðngreininni.
Iðnnemar
Um iðnnema gilda að ýmsu leyti sérsjónarmið. Þeir eru samtímis bæði í skóla og starfi. Um þá gilda sérstök lög og reglur, sem eiga að tryggja réttarstöðu þeirra á meðan á þessu stendur. Kjaralega séð hafa iðnnemar notið hliðstæðra réttinda og sveinar í greininni.