VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Hlutastörf

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í nóvember árið 2002 kjarasamning um hlutastörf. Meginmarkmiðið með samningnum er að afnema mismunun gagnvart starfsmönnum í hlutastörfum og stuðla að auknum gæðum slíkra starfa. Þannig á að greiða fyrir því að starfsmenn eigi völ á hlutastörfum og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa bæði vinnuveitanda og starfsmanna.

Starfsmenn í hlutastörfum skulu þannig ekki njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi af þeim ástæðum einum að þeir eru ekki í fullu starfi. Sé raunin önnur ber atvinnurekendum skylda til að réttlæta slíkt á grundvelli hlutlægra ástæðna.

Í kjarasamningum einstakra stéttarfélaga eða landssambanda eru ákvæði þar sem frekar er vikið að réttindum starfsmanna í hlutastörfum.

Þar sem kjarasamningur SA og ASÍ um hlutastörf frá 2002 nær einungis til þeirra starfsmanna sem taka laun eftir kjarasamningum ASÍ og SA þótti nauðsynlegt að setja ákvæði í lög um réttindi starfsmanna í hlutastörfum almennt sem þá tækju einnig til þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Lög nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum eru að efni til nær samhljóða fyrrnefndum kjarasamningi.

Samkvæmt lögunum taka þau til starfsmanna sem ekki eru með kjarasamningi tryggð þau lágmarksréttindi sem svara til efnisákvæða tilskipunar 97/81/EB um rammasamninginn um hlutastörf. Þá hafa lögin ekki áhrif á efni kjarasamninga sem gerðir eru til að innleiða efni tilskipunarinnar að því tilskildu að í þeim felist ekki lakari réttur en felst í tilskipuninni.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn