VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Námssamningar

Í reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað nr. 840/2011 er m.a. fjallað um slit samninga á reynslutíma og að honum loknum.

Fyrstu 12 vikur námstíma samkvæmt námssamningi skoðast sem reynslutími eða fast hlutfall af lengd vinnustaðanáms þegar starfsþjálfun samkvæmt námskrá er styttri en 30 vikur. Hvenær sem er á reynslutímanum getur hvor samningsaðili um sig slitið námssamningi án þess að tilgreina ástæður.

Að reynslutíma loknum geta aðilar námssamnings slitið honum ef nemandi vanrækir nám sitt, ef nemandi hefur, að áliti læknis, ekki heilsu til að stunda viðkomandi starf, ef fyrirtæki brýtur samningsskyldur sínar og ef fyrirtæki verður gjaldþrota eða hættir störfum af öðrum ástæðum. Þá kemur fram að ef nemandi eða fyrirtæki brýtur samningsskyldur sínar en fyrirtæki eða nemi slíta ekki námssamningi getur skóli eða annar umsýsluaðili námssamnings slitið samningi að undangenginni athugun.

Varðandi málsmeðferð við slit samninga kemur fram að óski aðili einhliða eftir slitum námssamnings þegar reynslutími er liðinn skal það gert skriflega og mótaðila samnings jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um beiðnina. Uppsagnarfrestur samnings í slíkum tilvikum skal alla jafna vera einn mánuður.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn