VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Ábyrgð vegna brottfalls friðarskyldu

Afleiðingar þess að kjarasamningur er vanefndur eru að verulegu leyti þær sömu og þegar venjulegur einkaréttarlöggerningur er vanefndur.  Hægt er að krefjast efnda in natura, riftunar ef um verulega vanefnd er að ræða eða skaðabóta. Einnig er hægt að krefjast sektagreiðslna.

8. gr. laga nr. 80/1938
Í 8. gr. laganna nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er fjallað um ábyrgð á brotum á friðarskyldu. Greinin tekur þó ekki nema til hluta þeirra sem venjulega eru taldir aðilar kjarasamnings, stéttarfélaganna og félagsmanna þeirra. Greinin fjallar ekki um ábyrgð atvinnurekenda og félaga þeirra. Í greininni er fjallað um ábyrgð stéttarfélaganna vegna samningsrofa.

Með samningsrofum er átt við hvers konar athöfn er stríðir gegn ákvæðum kjarasamnings. Brot á friðarskyldu telst vera samningsrof og falla undir 8. gr., en hugtakið samningsrof er mun víðtækara. Félagsdómur getur dæmt aðila máls til greiðslu skaðabóta vegna brota á 8. gr. laga nr. 80/1938, samanber 65. og 70. gr. laganna.

Hverjir eru ábyrgir

Þeir sem geta gerst brotlegir við kjarasamning eru sömu aðilar og eru bundnir af kjarasamningi, fyrst og fremst aðilar samningsins. Það eru því aðallega stéttarfélögin og félagsmenn þeirra, atvinnurekendur, félög þeirra eða heildarsamtök sem koma til greina. Einnig er hugsanlegt að þeir sem samningurinn tekur til, án þess að vera félagsmenn stéttarfélags eða atvinnurekendafélags verði bótaskyldir, og grundvallast það á 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Menn verða að sjálfsögðu ekki bótaskyldir fyrir það eitt að vera aðilar eða bundnir af kjarasamningi, heldur verður viðkomandi að eiga sök á hinu bótaskylda atferli. Gilda um þetta hinar almennu reglur skaðabótaréttarins.

Stéttarfélög
Ábyrgð stéttarfélaganna er lögbundin í 8. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur.  Ábyrgðin er bæði skaðabótaábyrgð og sektir. Ábyrgðin nær annars vegar til þess tjóns sem verður vegna athafna er stéttarfélagið á sjálft sök á eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess. Hins vegar nær ábyrgðin til samningsrofa einstakra meðlima stéttarfélaganna, enda verði félaginu gefin sök á samningsrofinu. Í 8. gr. laga nr. 80/1938 er átt við stéttarfélagið sem lögpersónu, en æðstu yfirmenn félagsins svo sem formaður og framkvæmdastjóri myndu falla hér undir. Í Félagsdómi 12/1949 (III:122) voru athafnir formanna stéttarfélags látnar baka félaginu ábyrgð. Einnig myndi trúnaðarmannaráð falla hér undir.  

Samkvæmt greininni geta og löglega skipaðir trúnaðarmenn félagsins bakað félaginu ábyrgð með samningsrofum. Það er þó skilyrði að athafnir þeirra hafi verið í einhverjum tengslum við störf þeirra sem trúnaðarmanna.

Skilyrði fyrir ábyrgð vegna brota á friðarskyldunni er saknæmt atferli. Ásetningur eða gáleysi eru því skilyrði.  Ábyrgð stéttarfélaganna er þar af leiðandi ekki hlutlæg. Sem dæmi um ásetningsbrot er ákvörðun trúnaðarmannaráðs um vinnustöðvun á gildistíma kjarasamnings. Það telst og falla undir ásetningsbrot ef stéttarfélag veit um fyrirhugaðar aðgerðir meðlima sinna en lætur þær afskiptalausar. 

Í Félagsdómi 1/1942 (I:165) voru málavextir þeir að í gildi var kjarasamningur milli Rafvirkjafélags Reykjavíkur og Félags löggiltra rafvirkjameistara, sem sagt var upp frá 1. janúar 1942, en samningurinn hafði verið gerður 22. janúar 1941. Var gildistími hans eitt ár. Er samningar tókust ekki fór félagið í verkfall. Höfðaði viðsemjandi mál vegna ólögmæts verkfalls, þar sem ár var ekki liðið af gildistíma samningsins.  Stéttarfélagið aflétti verkfallinu 9. janúar og lýsti stjórn félagsins því yfir um leið og samþykkt var að aflýsa verkfallinu að hún léti það afskiptalaust, hvort félagsmenn færu til vinnu sinnar eða ekki. Rafvirkjar fóru þó ekki til vinnu sinnar og hélt verkfallið áfram. Félagsdómur dæmdi verkfallið ólögmætt og dæmdi félagið til greiðslu skaðabóta. Dómurinn sagði meðal annars að félagið hafi ekki firrt sig áframhaldandi skaðabótaskyldu með afboðun verkfalls þar sem upplýst var að enginn sveinanna hafi mætt til vinnu og forráðamenn félagsins hafi beinlínis stuðlað að framhaldi vinnustöðvunarinnar með þátttöku sinni í samningu og samþykkt ályktunar um afskiptaleysi og enn fremur hafi þeir eftir aflýsingu verkfallsins með öllu látið hjá líða, að hvetja meðlimi félags síns til að fara til vinnu sinnar aftur og auk þess, að því er upplýst megi telja, leitast við að fá rafvirkjanema til að hætta vinnu.  

Samkvæmt þessum dómi er því ekki nægilegt að tilkynna verkfallsmönnum um að verkfalli sé aflýst, heldur verður félagið að hvetja þá til að koma til vinnu eða grípa til annarra svipaðra ráða.

Þegar talað er um að stéttarfélagið geti orðið bótaskylt, er fyrst og fremst átt við athafnir er forstöðumenn þess og stofnanir hafa staðið á bak við. Í dönskum rétti er þó talið að jafnvel þótt forráðamenn félags hafi beitt öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir verkfall meðlima þess, þá geti félagið sjálft í einstaka tilfellum orðið bótaskylt. Það sé í þeim tilvikum þegar meiri hluti félagsmanna stéttarfélagsins tekur þátt í vinnustöðvun.

Þótt hér hafi einungis verið rætt um ásetningsbrot getur gáleysi nægt til að gera stéttarfélag bótaskylt, þótt ekki sé hægt að benda á dæmi slíks í íslenskum rétti.  

Einstakir félagsmenn
Í niðurlagi 8. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur segir að á samningsrofum einstakra meðlima sinna beri félagið því aðeins ábyrgð að því verði gefin sök á samningsrofinu. Ef ekki er um slíka sök að ræða ber félagið ekki ábyrgð á slíkum samningsrofum. Einstakir félagsmenn bera að sjálfsögðu ábyrgð á samningsrofum sínum,  sem og annarri ólögmætri og saknæmri hegðun eftir almennum skaðabótareglum,  þótt stéttarfélagið verði ekki bótaskylt. Þetta kemur meðal annars fram í greinargerð með frumvarpinu að lögum nr. 80/1938.  

Í sjálfu sér geta einstakir félagsmenn ekki brotið friðarskyldu, þar sem þeir geta ekki knúið einir og sér á um breytingar á kjarasamningi. Hins vegar, leggi þeir niður störf, gerast þeir brotlegir við þann ráðningarsamning sem þeir starfa eftir, og getur atvinnurekandi væntanlega litið svo á að þeir séu hættir störfum.

Atvinnurekendur
Atvinnurekendur eru einn aðili kjarasamnings. Þeir bera því réttindi og skyldur samkvæmt honum. Í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur er ekki að finna nein ákvæði um ábyrgð atvinnurekenda eða félaga þeirra vegna samningsrofa. Engu að síður eru atvinnurekendur ábyrgir vegna vanefnda sinna og samningsrofa eftir venjulegum skaðabótareglum innan samninga. Í Félagsdómi 2/1939 (I:6) var eigin sök atvinnurekenda völd að því að hann fékk ekki tjón bætt sem hann varð fyrir vegna ólögmæts verkfalls.

Atvinnurekandinn er fyrst og fremst ábyrgur vegna samningsrofa sem hann sjálfur stendur að. Þegar atvinnurekandinn er félag eða stofnun er það lögpersónan sem verður skaðabótaskyld vegna þeirra er koma fram fyrir þess hönd og sök eiga á samningsrofunum. Sama er að segja um almenna starfsmenn fyrirtækisins. Félagið ber húsbóndaábyrgð vegna samningsrofa er þeir gerast sekir um í starfi sínu fyrir fyrirtækið.  

Í hverju er ábyrgðin fólgin

Samkvæmt íslenskum rétti er ábyrgð vegna samningsrofa tvenns konar. Annars vegar er um að ræða bótaábyrgð og hins vegar sektir.  

Skaðabætur
Bótaábyrgðin er venjuleg skaðabótaábyrgð samanber 70. gr. laga nr. 80/1938. Skilyrði fyrir slíkri ábyrgð er að um saknæmt samningsrof sé að ræða. Brot á hinni lögbundnu friðarskyldu fellur þar undir.

Jafnt athafnir sem athafnaleysi geta leitt til bótaskyldu. Tjónþoli verður að krefjast bóta, rökstyðja kröfu sína, sbr. Félagsdómur11/1943 (II:115) og sanna tjón sitt, og Félagsdómur 20/1939 (I:87).  Hann verður að sýna fram á orsakatengsl milli hins saknæma atferlis og tjónsins. Tjónþoli getur sætt frádrætti frá bótum vegna eigin sakar, svo og sakar þeirra sem hann ber ábyrgð á, samanber Félagsdómur 2/1939 (I:6).

Félagsdómur hefur ekki dæmt bætur fyrir ófjárhagslegt tjón enda er ekki minnst á slíkar bætur í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Sektir
Brot á lögum þessum varða auk skaðabóta sektum. Sektirnar renna í ríkissjóð, og má innheimta þær sem fjárkröfur á venjulegan hátt, en um afplánun skal eigi vera að ræða.

Þær sektir sem hér um ræðir eru fyrst og fremst sektir vegna brota á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar undir fellur hin lögbundna friðarskylda. Sektir renna ekki til tjónþola líkt og skaðabæturnar, heldur til ríkissjóðs enda eru þær  refsing en ekki bótaviðurlög.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn