VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Fæðingar-og foreldraorlof

Samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof á hvort foreldri um sig rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs við fæðingu hvers barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur en að auki eiga foreldrar sameiginlegan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs sem annað foreldri getur tekið í heild eða foreldrar geta skipt með sér. Lögin um fæðingar- og foreldraorlof eru almenn lög og gilda því jafnt á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nemur 80% af meðallaunum að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeim meðallaunum sem umfram eru en þó aldrei hærri en 300.000 kr. og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Foreldrar hafa ennfremur rétt til að taka samtals 13 vikna foreldraorlof fyrir hvert barn en rétturinn fellur niður er barnið nær átta ára aldri. Hvort foreldri um sig hefur þennan rétt og skal heimilt að taka foreldraorlof í einu lagi en þó er heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að haga foreldraorlofi með öðrum hætti, t.d. þannig að orlofið sé tekið samhliða minnkandi starfshlutfalli.  Foreldraorlofi fylgir aftur á móti ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði.

Almennur vinnumarkaður

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof segir að fæðingarorlof skuli reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.
Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála og niðurstöðu dómstóla fylgir áunnum rétti til orlofstöku meðan á fæðingarorlofi stendur ekki réttur til greiðslu í orlofinu. Með öðrum orðum þýðir þetta að orlof reiknast ekki ofan á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og lögin setja ekki þá kvöð á atvinnurekendur að þeir greiði laun í orlofi sem áunnið er meðan á töku fæðingarorlofs stendur. Starfsmenn ávinna sér því eingöngu inn rétt til frítöku en ekki til orlofslauna í fæðingarorlofi.

Opinber vinnumarkaður

Í kjölfar framangreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og dómstóla var gerð breyting á kjarasamningum opinberra starfsmanna með samkomulagi BHM, BSRB, KÍ annars vegar og fjármálaráðherra, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Félagsmenn opinberu félaganna ávinna sér því rétt til orlofslauna auk frítökuréttar í fæðingarorlofi. Sambærileg leiðrétting var gerð á kjarasamningum almennu félaganna við sveitarfélög og ríki. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn