Uppbót á orlof er ennfremur háð því að veikindin hafi varað lengur en þrjá sólarhringa samfellt. Styttri veikindi veita ekki rétt á orlofslengingu og skiptir þá ekki máli hvort formkröfum um tilkynningar hafi að fullu verið sinnt eða ekki. Veikindin verða einnig að vera samfelld. Tilfallandi veikindi í 2-3 daga í nokkur skipti á meðan á orlofi stendur er ekki hægt að leggja saman.
Færa verður sönnur á veikindin með læknisvottorði. Réttur til lengingar orlofs vegna veikinda starfsmanns er bundinn við veikindi starfsmannsins sjálfs. Veikindi barna skapa ekki rétt til orlofslengingar.
Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem launþegi óskar og skal það veitt á tímabilinu 1. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á. Um töku uppbótarorlofs vegna veikinda gilda að öðru leyti sömu reglur og um töku orlofs varðandi ákvörðun, tíma, greiðslur orlofs og þess háttar.