VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Brottfall veikindaréttar

Uppsögn 

Veikindaréttur er áunninn og er eins konar umbun fyrir tryggð við atvinnurekanda. Þegar starfslok verða, svo sem vegna uppsagnar, fellur rétturinn niður. Svo sem að framan er greint kveða kjarasamningar oft á um flutning á veikindarétti eða hluta veikindaréttar milli atvinnurekenda.   

Brottrekstur 
Sé maður rekinn úr starfi, og brottrekstur er löglegur, fellur veikindaréttur þar með niður. Þar sem forsendur þess að hægt sé að flytja með sér veikindarétt eru yfirleitt þær að starfslok hafi borið að með löglegum hætti, getur starfsmaður sem rekinn hefur verið misst rétt á að flytja með sér veikindarétt. 

Andlát 
Réttur til greiðslu launa í veikindum fellur niður við andlát. Breytir hér engu hversu mikinn veikindarétt maður hafði áunnið sér. Í 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 voru ákvæði þess efnis að greiða skuli maka látins starfsmanns þau föstu laun er stöðu hins látna fylgdi í þrjá mánuði. Þetta ákvæði var fellt út við endurskoðun laganna 1996. Það gildir þó áfram gagnvart þeim sem þegar höfðu öðlast þennan rétt. Í 3. mgr. 40. gr.  sjómannalaga nr. 35/1985 eru ákvæði þess efnis að deyi skipverji á þeim tíma er hann á rétt til kaups eigi eftirlifandi maki eða börn rétt til launa fyrir einn mánuð til viðbótar. 

Tímabundinni ráðningu lýkur 
Hafi ráðning verið tímabundin falla réttaráhrif ráðningar niður í lok þess tíma, þar á meðal veikindaréttur. Sjómenn eiga rétt svo lengi sem þeir eru óvinnufærir að vissu hámarki, samanber Hrd. 1993:365
 
Veikindaréttur fullnýttur 
Hafi starfsmaður fullnýtt sér veikindarétt falla launagreiðslur niður. Ráðningarsambandinu er þó ekki slitið, og ber starfsmanni að mæta aftur til vinnu þegar veikindum lýkur. Með sama hætti ber atvinnurekanda að taka á móti starfsmanni aftur til starfa.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn