VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Almannatryggingar

Tilskipun 86/378/EBE um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna innan almannatryggingakerfa einstakra starfsgreina.

Tilskipun 96/97/EB frá 20. desember 1996 um breytingu á tilskipun 86/378/EBE um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna innan almannatryggingakerfa einstakra starfsgreina.

Tilskipunin á ensku.

Breytingatilskipun á ensku.


Gildandi reglur:

Lög nr. 100/2007 um almannatryggingar. 
Lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Markmið og gildissvið. Markmiðið með þessari tilskipun er að hrinda í framkvæmd í almannatryggingakerfum einstakra starfsgreina meginreglunni um jafnrétti karla og kvenna.

Meginreglan um jafnrétti felur í sér að mismunun vegna kynferðis sé með öllu óheimil, hvort heldur er beint eða óbeint, einkum með tilvísun til hjúskapar- eða fjölskyldustöðu, einkum hvað varðar:
— gildissvið kerfanna og skilyrði um aðgang að þeim,
— framlagaskyldu og útreikning á upphæðum framlaga,
— útreikning bóta.

Til ákvæða sem eru andstæð meginreglunni um jafnrétti teljast öll þau ákvæði sem grundvölluð eru, beint eða óbeint, á kynferði, einkum með tilvísun til hjúskapar- og fjölskyldustöðu, í þeim tilgangi að:

a) ákvarða hverjum er heimil aðild að atvinnutryggingakerfi;
b) ákveða skyldubundna eða valfrjálsa aðild að atvinnutryggingakerfi;
c) setja ólíkar reglur um aldurstakmark, eða lágmarks starfs- eða aðildartíma til að eiga rétt til bóta úr viðkomandi kerfi;
d) setja ólíkar reglur, einkum líkt og kveðið er á um í i og h-liðum, um endurgreiðslu iðgjalda þegar launamaður hættir aðild að kerfi án þess að hafa uppfyllt þau skilyrði sem tryggja honum rétt til langtímabóta síðar meir;
e) setja ólík skilyrði um bótagreiðslur vegna kynferðis eða útiloka annað hvort kynið frá slíkum bótum;
f) ákveða mismunandi eftirlaunaaldur;
g) fresta því að rétti sé náð eða honum haldið í barnsburðarleyfi eða starfsleyfi af fjölskylduástæðum sem veitt eru samkvæmt lögum eða samkomulagi og vinnuveitandi greiðir;
h) ákvarða mismunandi bótastig, að undanskildum tilvikum þar sem nauðsynlegt getur talist að taka mið af tryggingafræðilegum útreikningum sem eru mismunandi eftir kynjum þegar um er að ræða bætur sem ráðast af iðgjöldum bótaþega.
i) ákvarða mismunandi iðgjaldastig fyrir launamenn; 
ákvarða mismunandi stig á framlagi vinnuveitanda þegar um er að ræða bætur sem ráðast af greiddum framlögum, einkum með það fyrir augum að jafna upphæð slíkra bóta;
j) setja mismunandi kröfur eða kröfur sem gilda aðeins um launamenn af tilgreindu kyni, að undanskildu því sem kveðið er á um í h- og i-liðum, hvað varðar tryggingu fyrir bótum síðar meir, eða því að rétti sé haldið, þegar launþegi hættir aðild
að kerfi.

______________________________________________________________


Efta dómstóllinn:

E-2/07-Eftirlitsstofnun Efta gegn Noregi

Í þessu máli komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að norsk lög um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna brytu í bága við reglur EES-réttar um jafnrétti kynjanna. Sneri málið að því að þeir einstaklingar sem gerðust aðilar að lífeyrissjóðnum fyrir 1. október 1976 héldu ákveðnum réttindum samkvæmt norskum lögum. Fólust réttindin í því að lífeyrisgreiðslur ekkna skertust ekki þrátt fyrir að þær öfluðu tekna en ekklar urðu fyrir skerðingu. Niðurstaða dómsins var því sú að þessi regla hefði brotið gegn meginreglum EES-réttar um jafnrétti kynjanna m.a. með skírskotun í tilskipun 96/97/EB frá 20. desember 1996.

Evrópudómstóllinn:

C-4/02 og C-5/02. 23. október 2003. Schönheit/Becker.

C-7/93. 28. september 1994. Beune.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn